172 skátar frá Íslandi á Alheimsmót

Nú fer Alheimsmót skáta að bresta á. Spennan í hópnum magnast með hverjum deginum og allt er að verða tilbúið.

Eins og flestir skátar á Íslandi vita þá er mótið haldið í Vestur Virginíu í Bandaríkjunum.

Canada, Mexíkó og Bandaríkin standa sameiginlega að mótinu. Rúmlega 50.000 skátar frá 152 löndum munu sækja mótið sem er 24. alheimsmót skáta.

Frá Íslandi fara  172 skátar og eru 120 þeirra á þátttakendaaldri.

Gífurlega mikið er lagt í dagskrá á mótinu en m.a. verður hægt að fara í flúðasiglingar, klettaklifur,  fræðast um mannréttindi og sjálfbærni, prófa risa BMX braut, brettasvæði og svo má ekki gleyma zip-line en þar er ferðast neðan í línu eins kílómetra vegalengd á um 80 km/klst hraða í um 100 metra hæð. Dagskráin stendur þannig vel undir einkunnarorðum mótsins sem eru friður, vinátta og ævintýri. Skátar frá öllum heimshornum koma saman til að fræðast og opna nýja heima og sýna skilning á mismunandi menningu hvaðanæva af úr heiminum í gegnum leik og starf. Þema mótsins er ,,Unlock new world“.

Mótssvæðið er á stærð við Akureyri eða á tæplega 4300 hektara svæði á Summit Bechtel Reserve en svæðið er gert sérstaklega fyrir skáta af skátum fyrir stórmót.