„Ég var sérstaklega ánægður með samstarfsáætlun næstu þriggja ára þar sem áherslurnar eru vöxtur, fjölmenning og aðild, auk eflingar ungs fólks til virkrar þátttöku,“ segir Jón Þór Gunnarsson formaður alþjóðaráðs skáta aðspurður um hvernig Norræna þingið sem haldið var í Hörpu um liðna helgi hefði heppnast.
Jón Þór formaður alþjóðaráðs
Jón Þór formaður alþjóðaráðs

Til þingsins mættu um 140 leiðtogar í skátunum frá Norðurlöndunum og stilltu saman strengi í Hörpunni.  Markmið norræna samstarfsins er að skapa möguleika á samvinnu mismunandi fagsviða og auka norræna vitund.

Jón Þór segir áherslu hafi verið lagða á að þingið væri vettvangur allra þátttakendanna. Þeir voru allir virkjaðir og þrjátíu fullmótaðar hugmyndir að verkefnum settar fram. Það kom svo í hlut norrænu samstarfsnefndarinnar að velja úr og útfæra hugmyndirnar í samstarfsáætlun. Að lokum voru níu hugmyndir valdar og meðal þeirra verkefna er norrænt leiðtoganámskeið, samstarf skátamiðstöðva og samstarfsverkefni um unga norræna talsmenn skátahreyfingarinnar.

Skátar knúsa skáta
Skátar knúsa skáta

Spejder möter scout

Í norræna samstarfinu hefur verið lögð áhersla á að tengja saman og efla samvinnu á þremur stigum. Í fyrsta lagi á því persónulega þannig að skátar hitti skáta, í öðru lagi að efla samvinnu milli bandalaga og í þriðja lagi að efla samfélagsþátttöku skáta. Þessi sýn er sett fram með blöndu norðurlandamála með eftirfarandi hætti:

  • Spejder möter scout
  • Forbund möter korps
  • Skátun möter samfunn

Nú er bara að átta sig á hvað tilheyrir hverju tungumáli.

Gert klárt fyrir hópmyndatöku
Gert klárt fyrir hópmyndatöku

IMG_8091

Frábærar hugmyndir og gefandi samvinna

„Ég held að þessi aðferðafræði að horfa bæði til strauma og stefna í hverju landi og stefnu alþjóðahreyfingarinnar þá hefur okkur tekist að gera góða samstarfsáætlun sem styrkir starfið í hverju landi með meiri breidd. Að fá 140 leiðtoga frá öllum norðurlöndunum til að útfæra þetta saman gerir þetta ótrúlega skemmtilegt og gefandi enda komu frábærar hugmyndir sem margar hverjar þurfti að láta í hugmyndabankann, því ekki er hægt að gera allt,“ segir Jón Þór.

Straumar og stefnur í skátastarfi
Straumar og stefnur í skátastarfi

Spennt fyrir heimsmótinu á Íslandi 2017

Á þinginu var tækifærið notað til hins ítrasta að kynna heimsmótið sem haldið verður á Íslandi eftir tvö ár. World Scout Moot 2017. Því var svo fylgt eftir með því að bjóða öllum þátttakendum í „Vísindaferð“ á Úlfljótsvatn til að sýna svæðið og aðstæður. Sagt var frá endurbótum og nýjungum á staðnum. Jón Þór segir að það hafi ekki leynt sér að það ríkir mikil tilhlökkun ríkir á hinum Norðurlöndunum fyrir heimsmótinu.

 

Tengd frétt:  Skátar stækka sjóndeildarhringinn með norrænu samstarfi