Um helgina, aðfaranótt sunnudags, var haldið Vökuhlaup á höfuðborgarsvæðinu fyrir drótt- og rekkaskáta.
Vökuhlaupið er bráðskemmtilegur og krefjandi, 12 klukkustunda póstaleikur sem fer fram yfir heila nótt. Þátttakendur gengu 15 km og stóðu sig frábærlega! Gangan var frá Vífilsstöðum að Elliðavatnsbæ og spreyttu þátttakendur sig á allskyns þrautum og leikjum á leiðinni.

Vökuhlaupið var skipulagt af nokkrum metnaðarfullum og hugmyndaríkum róverskátum sem kalla sig Ævintýrahópinn. Þau vilja hvetja fleiri skáta sem eru með góðar hugmyndir að viðburðum til þess að taka af skarið og framkvæma þá.

Vökuhlaupið heppnaðist einstaklega vel, þökk sé snillingunum í skipulagsteyminu, vöskum róver-sjálfboðaliðum og sérstaklega áhugasömum og hressum þátttakendum.