Viðburðir og verkefni

Öflugur 40 manna hópur skáta sótti fyrri hluta Gilwell framhalds- og símenntunarnámskeið í viðburða- og verkefnastjórnun á laugardag.

Námskeið var viðburður í sjálfu sér því þetta er þriðja Gilwell-framhaldsnámskeiðið á þessum vetri. Þessi nýju námskeið eru skipulögð sem tveggja daga námskeið með nokkurra vikna millibili – samtals 15 klst. Þátttaka hefur verið mjög góð.

Verkefnastjórar

Verkefnastjórar

Öflugir leiðbeinendur

Halldóra G. Hinriksdóttir fyrrv. aðstoðarskátahöfðingi og forstöðumaður Verkefnastofu og stefnumótunar hjá Landsbankanum og Jakob Frímann Þorsteinsson í fræðsluráði BÍS og formaður námsbrautar í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands stýrðu námskeiðinu.

Við upphaf námskeiðsins kynnti Benjamín Axel Árnason skipulag Gilwell leiðtogaþjálfunarinnar, tilgang og markmið Gilwell framhaldsmenntunarinnar og þau endur- og símenntunarnámskeið sem búið er að halda og framundan eru. Einnig kynnti hann uppbyggingu og hlutverk Gilwell-teymisins og tilgang tengsla „þriðju skógarperlunnar“ og aðildar að Gilwell teyminu.

Jakob fór yfir hugmyndavinnslu verkefna og viðburða, markmið þeirra og eðli. Halldóra fjallaði almennt um verkefni og verkefnastjórnun, uppruna verkefnastjórnunar sem fræðasviðs, tilgang og helstu hugtök.

Þátttakendur völdu verkefni sem gagnast í starfinu

Þátttakendur völdu verkefni sem gagnast í starfinu

Raunhæf verkefni í hópvinnu

Þátttakendur völdu í hópum verkefni til að undirbúa og vinna með yfir daginn. Verkefnavalið var afar fjölbreytt. Einn hópur valdi sér verkefnið „50 ára afmæli Vífils árið 2017“, annar „öflun íslenskra starfsmanna á World Scout Moot 2017“ og sá þriðji „fararstjórn á Landsmót skáta í sumar“

Síðan skiptust á fræðsluinnlegg og verkefnavinna um eftirfarandi viðfangsefni:
• Áætlanagerð – skilgreiningu á verkefni, umhverfi og markmið, tími, aðföng, stjórnskipulag og hlutverkaskipan .
• Verkefnisbyrjun – samstarf, upplýsingar og hvernig unnt er að minnka óvissu.

Ekki var annað að sjá en þátttakendur færu sælir heim eftir langan og fræðandi dag – með tilhlökkun um að taka þátt í síðari hluta námskeiðsins 10. maí n.k. þar sem farið verður ítarlega í viðburðastjórnun á grunni aðferðafræði verkefnastjórnunar.

Það var mál manna að námskeiðið myndi nýtast vel í skátastarfi sem og á almennum starfsvettvangi hvers og eins.

Fleiri myndir er að finna á Facebook síðu okkar.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar