„Við erum á réttri leið og eigum nóg inni“ sagði Bragi Björnsson skátahöfðingi við setningu Skátaþings í Mosfellsbæ nú í kvöld. Það eru margar áskoranir framundan við eflingu skátastarfs um land allt og við ætlum að nýta þann meðbyr sem við höfum fengið í aðdraganda World Scout Moot 2017.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar flutti ávarp við setningu. Hann lýsti ánægju með öflugt starf skátafélagsins Mosverja sem hefði vaxið hraðar síðustu ár heldur en bæjarfélagið. Unnið hefur verið mikið starf með Mosverjum til að leysa húsnæðismál þeirra og sér fyrir endann á því verkefni með byggingu nýs skátaheimilis. Haraldur hafði á orði að hann vonaði að hið öfluga starf Mosverja væri öðrum félögum eftirbreytni.

Bragi Björnsson skátahöfðingi minntist þeirra skáta sem hafa „farið heim“ í ár.

Guðbjartur Hannesson starfaði með skátafélagi Akraness og sem erindreki Bandalags Íslenskra skáta á árunum 1973 til 1975. Röggsamur leiðtogi sem við minnumst með þakklæti.

Tómas Grétar Ólason starfaði sem félagsforingi skátafélagsins Ægisbúa til margra ára og var aðstoðarfélagsforingi skátafélaginsins Kópa. Vel gerður maður sem hafði einkunnarorðin gleði, kærleikur og kraftur.

Þórshamar úr bronsi

Hanna Guðmundsdóttir Árbúum, Hildur Haraldsdóttir Eilífsbúum, Ásta Bjarney Elíasdóttir Haförnum, Guðrún Inga Úlfsdóttir Fossbúum, Jens Pétur Kjartansson Haförnum, Ingólfur Már Grímsson Hraunbúum, Fanný Björk Ástráðsdóttir Strók, Ragnhildur L Guðmundsdóttir Heiðarbúum.

Þórshamar úr Gulli

Kristinn Ólafsson stjórn BÍS, Dagmar Ýr Ólafsdóttir Skjöldungum og NSK, og Jón Halldór Jónasson Kópum.

Skipunarbréf félagsforingja

Sigríður Hálfdánardóttir Árbúar, Helgi Jónsson Garðbúar, Dagbjört Brynjarsdóttir Mosverjar, Þórhallur Helgason Segull, Sæbjörg Lára Másdóttir Strókur, Guðjón Geir Einarsson Ægisbúar.

Kosningar

Bragi Björnsson var endurkjörinn skátahöfðingi til næstu þriggja ára. Hann segir einstaklega ánægjulegt að það er nú í annað sinn á meðan hann situr í stjórn sem konur eru þar í meirihhluta. Hann er þakklátur og tekur auðmjúkur og kappsamur á móti þeim verkefnum sem fram undan eru.

Ungt fólk til starfa í ráðum og nefndum

Það er ánægjulegt að sjá hvað margir ungir skátar eru kosnir í ráð og nefndir skátahreyfingarinnar á þessu þingi. Miðað er við að í hverju ráði sé skáti á aldrinum 18-25 ára. Með því tryggjum við að rödd ungra skáta heyrist innan skátahreyfingarinnar og við vinnum öll saman í þessari stærstu friðarhreyfingu heims.