Vetrarstarf skátanna að hefjast

Skátafélög landsins hefja vetrardagskrá sína núna í september og bjóða nýja félaga velkomna. Auðvelt er að byrja í skátunum og hægt að velja á milli fjölmargra skátafélaga. Á vefnum skatarnir.is er lýsing á skátastarfinu, listi yfir skátafélög og hvar þau bjóða upp á starf.

skatar_kynningarvika_forsidaHvað gerir maður í skátunum?

Skátastarf er fyrir alla. Starfinu er aldursskipt til að mæta þörfum ólíkra aldursstiga og það er hægt að byrja á hvaða aldri sem er í skátunum. Skátarnir starfa í jafningja- og jafnaldrahópum, skipa sér í flokka þar sem allir eru virkir þátttakendur. Boðið er upp á reglubundið starf fyrir börn og unglinga í flestum skátafélögum frá 7 ára aldri.

Þegar skátar eru spurðir um hvað þeir geri í skátunum eru svörin fjölbreytt eins og gefur að skilja, en flestir nefna vináttu, „gera alls konar skemmtilegt saman“, spennandi útilegur, skátamót hér heima og erlendis.  Fyrir utan þann mikla ávinning að eignast góða vini nefna sumir að þeir hafi náð að losa sig við feimnina , hvort sem það var á stórri kvöldvöku eða í umræðu í skátaflokkunum.

Virkni og þátttaka eru galdurinn í skátastarfi. Það eru skátarnir sjálfir sem ákveða hvað þeir vilja fást við, hvort þeir fari í útilegur og ferðalög, syngi eða  spili tónlist, klífi fjöll, leiki leikrit eða sigli á kajökum, dansi, tálgi eða byggi snjóhús. Aðalatriðið er að þeir skipuleggja sitt eigið starf sem byggir á gildum skátanna.

Skátarnir læra að sýna  sjálfum sér, öðrum og umhverfinu virðingu. Þeir fá þjálfun í að taka tillit til skoðana og tilfinninga annarra, auk þess að vera skapandi og sjálfstæðir í hugsun, orði og verki. Þeir eru hvattir til að gera sitt besta og hræðast ekki að gera mistök, sem og að lifa heilbrigðu lífi og vera traustir félagar og vinir.

Hvernig byrjar maður í skátunum?

Til að byrja í skátunum finnur þú einfaldlega það félag sem þú vilt starfa með. Sjá lista yfir skátafélög.  Þar velur þú þitt félag og ýtir á skráningu.
Sum skátafélög voru með kynningar- og skráningardaga í liðinni viku og önnur verða með á næstu dögum. Sjá frétt.  Síðan eru félög þar sem þú einfaldlega mætir á fyrsta fundinn og finnur út hvort skátastarfið sé ekki einmitt það sem þú fílar í botn.

Gagnlegir tenglar:

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar