Mikil gleði ríkti á Úlfljótsvatni um helgina þegar 150 skátar úr Reykjavík héldu þar sitt Vetrarmót.  Veðrið lék við þáttakendur og Úlfljótsvatn sannaði gildi sitt sem útivistarparadís skáta. Skátaskálarnir voru fullnýttir og einnig sváfu um tuttugu foringjar og eldri skátar í tjöldum.  „Mótið heppnaðist einstaklega vel, dagskráin var fjölbreytt og þátttakendur voru úr öllum skátafélögum í Reykjavík,“ segir Jón Andri Helgason hjá Skátasambandi Reykjavíkur.
Klifurbeltin græjuð. Björgunarsveitarmenn framtíðarinnar?
Klifurbeltin græjuð. Björgunarsveitarmenn framtíðarinnar?

Skátarnir léku við hvern sinn fingur og unnu saman að margvíslegum verkefnum og tóku þátt í allkyns uppákomum. Slöngubátarennsli, kyndlagerð, hópeflisleikir, bogfimi, klifur og sig í stóra klifurturninum sem orðinn er einkennistákn Úlfljótsvatns. Í gærkvöldi var svo haldinn Risa-Næturleikur og kvöldvakan var á sínum stað haldin í Strýtunni sem er samkomusalur staðarins. Í morgun var verið að blása upp hoppikastala til að toppa upplyftinguna á mótinu.

Fulltrúar allra skátafélaganna tóku virkan þátt í undirbúningi mótsins. Áhersla var á góða dagskrá og að stilla kostnaði mjög í hóf svo enginn þyrfti að halda sig til hlés. Mótsgjald var aðeins 4000 kr. fyrir helgina og innifalið var fullt fæði, dagskrá, ferðir skálagjald og mótsmerki.

Fleiri ljósmyndir  á >> facebook.com/skatarnir
en þar inn fóru nokkur myndaalbúm yfir helgina.

 

Tengdar fréttir:

Ánægðir með sig
Ánægðir með sig