Verum vinir vina okkar

Mikill og góður árangur hefur náðst í upplýsingamálum skáta. Nýir vefir hafa litið dagsins ljós og búið er að lyfta fréttaflutningi á vef og samskiptum á Facebook í nýjar hæðir með auknum fjölda fylgjenda.

Frá áramótum hefur fylgjendum siðunnar fjölgað um 75% og á fundi í stýrihópi vefmála í dag var þessum áfanga fagnað. Ákveðið var að draga vinninga úr Facebook-Pottinum þannig að þeir sem fylgja okkur á Facebook geta átt von á vinningi – útivistarvörum úr Skátabúðinni (Light my fire – mealkit). Við drögum 2 sinnum í næstu viku og svo verður séð til með framhaldið.

Við hvetjum lesendur Skátamála til að taka þátt með því að smella á „like“ á www.facebook.com/skatarnir

Árangur í vefmálum

Það er ekki bara á Facebook sem árangur er sýnilegur. Fyrir rúmu ári síðan var ákveðið að blása til stórsóknar í vefmálum skáta og nú í vikunni var farið yfir stöðuna í upplýsingaráði. Frá því stjórn BÍS samþykkti áætlun ráðsins í júní í fyrra eru nokkrir áfangar að baki.

• Fyrsti sýnilegi áfanginn var skatarnir.is en það eru almennar kynningarsíður einkum ætlaðar þeim sem vilja ganga í skátana og þurfa að fá yfirsýn og upplýsingar um skráningu. Þessar vefsíður voru opnaðar í ágúst 2013.
• Annar áfangi fólst í að búa til stílsnið að vefsíðum fyrir skátafélög. Mörg skátafélög hafa ákveðið að nýta sér tilboð sem þeim var sent síðasta haust og er líklegt að nýjar vefsíður fari á sjálft alnetið innan tíðar.
• Þriðji áfangi var að opna skatamal.is en hann er vettvangur fyrir fréttir af daglegu starfi skáta, tilkynningar um viðburði og veitir aðgengi að stuðningsefni, verkefnavef skáta, félagatali og viðburðaskráningarkerfi.

Verkefni sem reynir á úthald og elju

Benjamín Axel Árnason, formaður upplýsingaráðs, segir að þetta hafi allt hafst með mikilli vinnu og elju margra. Hann segir að eftir að Skátamál fóru á vefinn fyrir jól hafi opnast nýir möguleikar í að efla fréttaflutning og er stefnan að nýta það tækifæri vel. Frá ármótum hafi verið byggt markviss upp í þessum efnum með jákvæðum árangri.

Þá er verið að vinna í nýjum verkefnavef en upplýsingaráð hefur fengið lausnir frá danska skátabandalaginu sem verður aðlöguð þörfum íslenskra skáta. Benjamín segir að sú vinna sé vel á komin og ófáar vinnustundir séu að baki. Hann á von á að sá vefur verði opnaður í vor.

Fá tvöfalt fleiri heimsóknir

Mjög markviss er stefn á að ná meiri árangri með vefmiðlum en áður. Stefnt er að því að fá tvöfalt fleiri heimsóknir inn á vef og samskiptamiðla okkar. Upphaflega átti að ná þessu marki fyrir árslok 2014, en það er líklegra en ella að það náist fyrir mitt ár og jafnvel fyrir páska. Fylgjendur facebook.com/skatarnir voru 1.036 um áramót en í dag voru þeir orðnir 1.820. Læk á það.

Aðgengilegt, áhugavert og gagnlegt

Benjamín segir að þó fjöldinn skipti vissulega máli þá eru það ekki síður gæðin sem ætlunin sé að ná. Til að mæla árangur á að gera könnun og markið sé að 70% skáta telji vefmiðlun skáta aðgengilega, áhugaverða og gagnlega. Það sé metnaðarfullt og til að það náist þurfi áfram samtakamátt allra sem geta lagt hönd á plóginn.

Allar ábendingar um það sem betur má fara á vefjum skáta má gjarnan senda á skatar@skatar.is og ef ábendingin er um efni á tiltekinni vefsíðu þá er mikilvægt að afrita vefslóðina inn í tölvupóstinn.

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar