Verði Like!

„Það mikilvægasta í tengslum við samfélagsmiðla er að hlusta og svara þeim skilaboðum sem berast. Ef þú ert ekki tilbúinn til að hlusta á fólk og svara því að þá hefurðu ekkert að gera á samskiptamiðlunum,“ segir Andri Már Kristinsson, en hann hélt kynningu í Skátamiðstöðinni á fimmtudaginn um notkun samfélagsmiðla á netinu. Andri er sérfræðingur í samskiptamiðlum og vinnur hjá markaðsdeild Landsbankans en hefur einnig unnið hjá Google.
Andri Már gaf góð ráð

Andri Már gaf góð ráð

Hinir ýmsu samfélagsmiðlar eru í mikilli sókn þessa dagana og reglulega poppa nýir miðlar upp. Sá allra nýjasti birtist núna í mars síðastliðinn og kallast Meerkat. Facebook er þó enn langvinsælasti samfélagsmiðillinn og ber höfuð og herðar yfir aðra miðla.

Samkvæmt Andra er hrein aukning í neyslu á öllum samfélagsmiðlum og markaðsmálin hafa breyst samhliða því. Eitt mikilvægt atriði til að hafa í huga við notkun á samfélagsmiðli er tíminn en hann skiptir miklu máli. Mismunandi er eftir samfélagsmiðlum hversu lengi efnið er lifandi og sjáanlegt en á miðlum eins og Twitter er það komið niður í einungis 4 tíma. Því er tímasetning færslunnar orðin mikilvægari en áður. Best er líka að hafa færslu stutta og laggóða.

Færslur með 80 stafabil eða færri fá 23% meiri viðbrögð (like, comment) en aðrar. Þessi viðbrögð eru lykilatriði í samfélagsmiðlunum en án viðbragða á sér ekkert samtal og án samtalsins er samfélagsmiðilinn tilgangslaus.

Til þess að fá viðbrögð við því efni sem þú setur inn eða deilir er gott að hafa þessar deilikveikjur (e. sharing trigger) í huga:

 • Fyndið
 • Kynþokkafullt
 • Átakanlegt
 • Hjartnæmt
 • Krúttlegt
 • Handahófskennt
 • Ógeðslegt
 • Upplífgandi
 • Fræðandi
 • Sögulegt
 • Umdeilt
 • Ótrúlegt

Efni sem inniheldur einn eða tvo hluti af þessum lista er margfalt líklegra til að kveikja undir fólki, á bæði jákvæðann og neikvæðann hátt.

Ef sú staða kemur upp að einhver hefur lýst óánægju sinni á ákveðnu fyrirtæki/stofnun á samfélagsmiðli er mikilvægt að bregðast strax við. „Þú getur lent virkilega illa í því ef þú ert ekki tilbúinn að taka slaginn,“ sagði Andri og sýndi í framhaldi af því hnyttin og skemmtileg dæmi úr samskiptum fyrirtækja/stofnanna við fólk á samskiptamiðlum. Andri mælir með að googla „great twitter responses from companies“ til að fá sjónræn dæmi.

„Þótt að samfélagsmiðlar séu einfaldir í uppsetningu að þá eru vefsíður gríðarlega mikilvægar upplýsingaveitur sem geta hýst mikið magn efnis,“ sagði Andri og benti einnig á að í dag þurfi vefsíður að vera skalaðar svo hægt sé að nota þær í snjallsíma og spjaldtölvu.

 

Önnur góð ráð frá Andra:

 • Byrjaðu að skoða Facebook. Hverjir eru vinir þínir, fylgjendur og markhópur. Hvaða efni hentar þessum hóp?
 • Íhuga Twitter, Instagram og Snapchat ef markhópurinn er ungt fólk.
 • Strúktúra færslu á Facebook þannig að þú biðjir um aðgerð í byrjun. Enda færsluna með spurningu. Færslur sem enda með spurningu fá 15% meiri viðbrögð.
 • Vertu mennsk/ur. Ekki nota orð eða orðasambönd sem þú myndir ekki nota í samtali við vin.
 • NOTA MYNDIR!

Að lokum viljum við minna ykkur á að fylgja @skatarnir á instagram og læka okkur á Facebook síðu skátanna. Sjáumst á netinu!

 – Heiður Sigmarsdóttir í upplýsingaráði BÍS tók saman

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar