Vefmál: Hjálpumst að við að gera gott betra!

Stýrihópur um vefmál BÍS leitar til skáta um aðstoð við að leggja mat á núverandi stöðu vefsvæðanna skatamal.is og skatarnir.is. Markmið stýrihópsins er að fá fram skoðanir og sjónarmið notenda sem lögð verða til grundvallar í frekari þróun þessara vefsvæða.

Rafræn skoðanakönnun og rýnihópar

Stýrihópurinn hefur undirbúið tvenns konar verkefni í því skyni að ná fram sjónarmiðum sem flestra. Annars vegar er um að ræða rafræna skoðanakönnun og hins vegar vinnu rýnihópa.

Rafræn skoðanakönnun

Föstudaginn 6. mars verður virkjuð rafræn skoðanakönnun sem verður öllum opin og verður aðgangurinn auglýstur hér á Skátamálum og á Facebook-síðunni okkar. Könnunin verður sett upp á tiltekinni vefslóð og geta allir tekið þátt með því að smella á þá krækju sem gefin verður upp og svarað þeim spurningum sem þar koma fram. Skátar eru hvattir til að taka þátt og leggja stýrihópnum þannig lið við að fá fram ábendingar um það sem betur má fara, hugmyndir að nýjungum og almennt að segja skoðun sína.

Sem fyrr segir opnar könnunin föstudaginn 6. mars og verður hún opin til miðnættis sunnudaginn 15. mars.

Vinna í rýnihópum

Laugardaginn 7. mars er öllum sem vilja boðið að taka þátt í rýnihópavinnu sem fer fram í Skátamiðstöðinni. Dagskrá hefst kl. 14:00 og er áætlað að ljúka dagskrá um kl. 16:00. Í upphafi mun Stýrihópurinn gera stuttlega grein fyrir þeim verkefnum sem unnið hefur verið að síðustu mánuðina. Að því loknu verður þátttakendum skipt upp í hópa. Hver hópur fær nokkur verkefni til úrvinnslu auk þess sem meðlimir hvers hóps tjá hug sinn til vefmálanna. Að lokum koma svo allir saman, hóparnir gera grein fyrir niðurstöðum sínum og umræður verða um þær.

Allir geta verið með!

Öllum skátum er frjálst að taka þátt í þessari vinnu en nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku með því að senda tölvupóst á netfangið gudmundur@digital.is en Guðmundur mun halda utan um verkefnið fyrir hönd stýrihópsins. Það er mikilvægt að við náum saman þátttakendum úr breiðum aldurshópi þannig að ungir sem aldnir eru hvattir til að skrá sig og leggja verkefninu þannig lið!

Þeir sem hafa aðgang að fartölvu eru hvattir til að taka slíkan grip með sér!

Hverju ætlum við að ná fram?

Við þurfum stöðugt að vera vakandi yfir því hvort vefsvæðin okkar séu að ná markmiðum sínum og hvort við séum að stefna í rétta átt. Við þurfum að vera í góðu sambandi við notendur, fylgjast með áliti þeirra og gefa þeim tækifæri til þess að koma skoðunum, hugmyndum og ábendingum á framfæri.

  • Þurfum við að bæta við virkni, fínstilla hönnun, uppfæra, breyta eða eyða texta, nota meira myndmál…?
  • Hvernig ætlum við að mæta tækniþróun?
  • Erum við að ná til þeirra sem við viljum ná til?

Svör við þessum spurningum og mörgum fleiri vonumst við til að fá fram með rafrænni skoðanakönnun og vinnu rýnihópanna.

Úrvinnsla fyrir Skátaþing

Markmið stýrihópsins er fá sem allra flesta til að taka þátt í þessum verkefnum – þannig hjálpumst við öll að við að gera gott betra! Stefnt er að því að kynna fyrstu niðurstöður á Skátaþingi.

Hefur þú áhuga á vefmiðlun?

Finnst þér gaman að skrifa fréttir, greinar eða annað efni? Hefurðu gaman af því að taka myndir og vídeó? Ertu klár á samfélagsmiðlunum? Ertu til í að leggja vefmálum skáta lið með einhverjum hætti? Ef svarið er já þá ættirðu endilega að senda okkur línu á netfangið skatar@skatar.is og slást í hópinn!

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar