Útilegu breytt í heimsreisu

Mikil og góð stemning var í félagsútilegu Hraunbúa nú í haust. Öflugur hópur skipulagði útileguna og vann með þemað „Umhverfis jörðina á einni helgi“. Það var svo sannarlega tekið alla leið og byrjaði strax þegar þátttakendur mættu í skátaheimilið á föstudagskvöldi.
Áfangastaður Langtíburtistan

Áfangastaður Langtíburtistan

„Þegar krakkarnir mættu í Hraunbyrgi vorum við búnar að setja upp „check-in“ borð, þegar þau skráðu sig inn fengu þau svo afhent vegabréf sem þau áttu að vera með á sér um helgina,“ segir Una Guðlaug Sveinsdóttir einn stjórnandi útilegunnar. Í rútunni var svo farið yfir helstu öryggisatriði, eins og gert er í flugvélum.  Í vegabréfið söfnuðu skátarnir svo „áritunum“ – sem voru límmiðar fyrir hverja heimsálfu sem þau fóru í. „Einnig var rokkstigaleikur sem við kölluðum Heimshornaflakkarann, með ýmsum verkefnum sem þau gátu dundað sér við í frjálsum tíma,“ segir Una.

Hraun12045448_1015606740121

Hraun12006682_1015606731407Á hugmyndaflugi um heiminn

Við komuna á áfangastað, sem var Vindáshlíð í Kjós síðustu helgina í september, tók hugarflugið við með viðkomu í öllum heimsálfum.  Á föstudagskvöld var kynningarleikur með Norður-Ameríku sem þema og á laugardeginum voru svo fjögur dagskrársvæði sem dreifðust um heiminn en það voru Asía, Afríka, Suður-Ameríka og Evrópa.

hraun12038660_1015606734097Innan hvers dagskrársvæðis voru nokkrir opnir póstar og voru þeir í samræmi við verkefnaflokkana í hvatakerfi skátanna:

  • Listir & menning,
  • útilíf & umhverfisvernd,
  • íþróttir & hreyfing,
  • hjálpsemi & samfélagsþátttaka,
  • tækni & vísindi.

Dæmi um pósta á dagskrá voru meðal annars origami, zúmba, útieldun, en það var boðið upp á hike brauð eða „grísk pítubrauð“, ólympíuleikar, búa til dósasíma, kappreiðar og fjársjóðsleit. „Við útbjuggum kort af svæðinu með merktum stöðum þar sem þau þurftu að nota áttavita til að finna púslbita sem mynduðu svo skátadulmál,“ úskýrir Una Guðlaug.

Eftir kvöldvökuna á laugardagskvöldinu var næturleikurinn „Ævintýri í Eyjaálfu“ og á sunnudeginum var svo leiðangur á Suðurheimskautið – sem fólst í gönguferð og ísgerð.

Hraun12045773_1015606736030

Kappreiðar í brjáluðu veðri

hraun12032713_1015606736083Útileikurinn var haldinn inni

„Þemað gekk mjög vel og gerði skemmtilega umgjörð,“ segir Una, en eru þemaútilegur betri en aðrar útlegur?  „ Ekkert frekar, en það er vissulega gaman að búa til ævintýri utan um dagskrána,“ segir hún.

Dagskráin var líka vel heppnuð þrátt fyrir óveður á laugardeginum sem setti strik í reikninginn. „Næturleikurinn heppnaðist sérlega  vel, sem er merkilegt í ljósi þess að manneskjan sem bjó hann til komst ekki á staðinn. Einnig fór hann eingöngu fram innandyra vegna veðurs en það kom ekki að sök – við bara slökktum ljós og kveiktum á kertum til að skapa rétta stemningu,“ segir Una. „Stundum þarf að aðlaga dagskrá að aðstæðum, sleppa póstum eða færa þá inn“.

– Hvernig upplifðu þátttakendur útileguna?

„Á meðan næturleikurinn stóð sem hæst heyrðist í einum „ég var búin að gleyma að ég væri í skátunum“ – við kjósum að túlka það sem svo að hann hafi skemmt sér vel. Við allavega vitum ekki betur en að allir hafi skemmt sér vel, það höfðu allir nóg fyrir stafni í það minnsta,“ segir Una Guðlaug ánægð með árangurinn.

Hraun11223974_1015606757093Gott skipulag, tímanlegar kynningar og að skemmta sér

– Hvað þarf til að félagsútilega lukkist vel?

„Gott skipulag, tímanlegar kynningar – og svo sakar ekki að þeir sem sjái um hana skemmti sér sjálfir vel. Við tókum þetta að okkur sem vinkonuhópur svo þetta var fyrir okkur ekki bara verkefni heldur líka tækifæri til að gera eitthvað saman,“ segir Una Guðlaug.

Það voru 50 skátar sem tóku þátt, en Una segir að allt í allt hafa verið um 70 manns á svæðinu þegar mest var.  Sá fjöldi segir nokkuð vel til um hversu gott bakland skátastarfsins í Hraunbúum er.

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar