Upplýsingaráði er ekkert óviðkomandi

Það er í mörg horn að líta hjá upplýsingaráði skáta en á verksviði þess er upplýsingagjöf og samskipti við skáta, foreldra, almenning, önnur félagasamtök og opinbera aðila, sem og umsjón með útbreiðslu skátastarfs á landinu og almennatengsl. Eins og hjá öðrum fagráðum Bandalags íslenskra skáta (BÍS) liggur endanleg ábyrgð hjá formanni ráðsins sem situr í stjórn BÍS, en ráðið er eingöngu ráðgefandi.

Við hjá Skátamálum höldum áfram að kynnast fólkinu sem er í fagráðunum, fáum að vita hver þau eru og hvaða áherslur þau vilja leggja.  Í vor tókum við viðtal við Gunnlaug Braga Björnsson í framhaldi af kjöri hans á Skátaþingi í stöðu formanns upplýsingaráðs.  Skoða viðtal >  Skátarnir verði sýnilegri   Gulli óskaði eftir að segja pass við viðtali að þessu sinni.

Helga í Landmannalaugum í sumar

Helga í Landmannalaugum í sumar

Byggingarverkfræðingur, mannauðsstjóri, menningarmiðlari  og upplýsingafulltrúi

Helga Stefánsdóttir er skáti til áratuga.  „Ég byrjaði í skátunum þegar Árbúar voru stofnaðir  og starfaði þar í öllum helstu stöðum næstu árin.  Í gegnum tíðina var farið á mörg skátamót hér heim og erlendis en það sem helst stendur upp úr var ferðin á Jamboree í Kóreu 1991,“ segir Helga, sem starfar hjá Hafnarfjarðarbæ sem aðstoðarsviðstjóri Umhverfis og framkvæmda, en hún  er byggingarverkfræðingur að mennt með framhaldsnámi í rekstri.

– Hvað hefur skátastarfið gefið þér.

Öflugan vinahóp fyrir lífstíð, upplifun, þroska og gleði.

 – Skemmtileg staðreynd sem aðrir vita almennt ekki um þig?

Ég hljóp 21km í Amsterdam marathoninu um daginn, en með tilkomu Facebook vita allir meira og minna allt.

 

Hestarnir eiga hug Ernu

Hestarnir eiga hug Ernu

Erna Arnardóttir er félagsfræðingur að mennt og starfar sem mannauðsstjóri hjá Deloitte. Hún er gift og á tvö uppkomin börn.  Fædd og uppalin í Kópavogi og var skáti í Kópum.

– Hvað hefur skátastarfið gefið þér?

Skátastarfið hefur gefið mér marga góða og trausta vini en ég lærði líka að klæða mig eftir veðri í skátunum.

– Skemmtileg staðreynd sem aðrir vita almennt ekki um þig?

Ég er hestakona af lífi og sál.  Er ekki til einhver hestaskátaflokkur?

Heiður er skátaforingi í Árbúum. Hér er hún eftir LAN nótt í skátaheimilinu

Heiður er skátaforingi í Árbúum. Hér er hún eftir LAN nótt í skátaheimilinu

Heiður Sigmarsdóttir er 28 ára sagnfræðingur, fjöl- og menningarmiðlari. „Ég tók grunnnámið í kristilegum einkaskóla í Texas sem var mjög lærdómsrík reynsla sem opnaði huga minn og hjarta. Ég útskrifaðist úr meistaranámi í Hagnýtri Menningarmiðlun núna í febrúar og eignaðist dóttur í mars. Ég er í augnablikinu í fullu starfi sem hagsýn húsmóðir ásamt því að vera sveitarforingi dróttskátasveitarinnar Pegasus í Árbúum. Ég elska að föndra, hlusta á Eurovision lög og horfa á dramatíska sjónvarpsþætti með sagnfræðilegu ívafi,“ segir Heiður.

– Hvað hefur skátastarfið gefið þér?

Sem venjulegur skáti hefur það veitt mér mikla gleði, skemmtun og fullt af vinum. Sem foringi hefur það kennt mér skipulagsfærni, áætlanagerð og verkefnastjórnun en þó fyrst og fremst þjálfað mig í mannlegum samskiptum.

– Skemmtileg staðreynd sem aðrir vita almennt ekki um þig?

Ég er í sama systrafélagi og Carrie Underwood, Sigma Sigma Sigma og því má tæknilega segja að Carrie sé systir mín.

Jón Halldór Jónasson hefur verið nokkra áratugi í skátunum.  „Ég byrjaði ellefu ára gamall í skátunum í Kópavogi, tók við skátasveit með vinum mínum, var í öflugu starfi ds. Andómedu, fór á Vetrar-Gilwell á Vestmannsvatni hjá Ingólfi Ármannssyni, kenndi á námskeiðum, sat svo einnig í stjórn skátafélagsins. Svona ef ég stikla á stóru. Eftirminnilegur viðburður var þátttaka í Vulcan Project sem var samnorrænt skátamót haldið á hálendi Íslands og fyrir þá sem ekki þekkja þá minnir það um sumt á hvernig Rower-way var haldið fyrir nokkrum árum.  Ég var einnig félagi í Hjálparsveit skáta í Kópavogi og starfaði auk þess í nokkur ár hjá Landssambandi hjálparsveita skáta við útgáfu og almannatengsl,“ segir Jón Halldór sem í dag er upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg, en hann tók meistaragráðu í upplýsingarfræði við þýskan háskóla.

– Hvað hefur skátastarfið gefið þér?

Skátarnir gefa manni frábærar tengingar við fólk og reyna á mann við margvísleg verkefni.

Það má nú segja að skátastarfið hafi leitt mig inn í upplýsingamálin og almannatengslin, sem ég hef starfað við með einum eða öðrum hætti síðan þá. Við vorum þrettán ára skátaguttar þegar við gáfum út blað okkar fyrsta blað fyrir skátasveitina okkar, Spörfuglana. Blaðið var fjölritað og ef ég man það rétt heilar 8 síður. Diddi, Brynjar Örn, félagi minn var yfirfjölritunarmeistari félagsins og á bak við hvert blað voru ófáar viðgerðarstundirnar. Hann fór svo síðar í tæknifræðina, nema hvað. Við félagarnir héldum áfram að gefa út fjölrituð blöð og fundum einhvern tímann út að á skrifstofu BÍS var stensilbrennari þannig að þangað fórum við að venja komur okkar. Þar sem við vorum þar orðnir húsgangar vorum við beðnir um að taka að okkur ritstjórn Foringjans og gáfum hann út í þrjú ár ef ég man það rétt.

Síðan kom smá hlé þegar ég fór að læra um blaðamennsku á lýðháskóla í Svíþjóð, en einhverjum árum eftir að ég kom heim endurvöktum við nokkur saman Skátablaðið og gáfum út í nokkur ár. Fullt af frábæru liði í þeirri sjálfboðavinnu. Hlýtur að fara að bresta á með reunion.

Á svipuðum tíma var ég beðinn um að koma í verkefni hjá landssamtökum hjálparsveita skáta og ég vann þar í nokkur ár einkum við útgáfu blaðs samtakanna. Tók við 500 eintaka upplagi sem svo nokkrum árum síðar var komið í 6.000 eintök. Held að við höfum náð með góðri miðlun að skrifa samtökin saman, en fyrir þá sem ekki þekkja þá voru í eina tíða þrjú landssamtök björgunarsveita og þau voru ekki alltaf í takt.

– Skemmtileg staðreynd sem aðrir vita almennt ekki um þig?

Ég var eitt sinn umboðsmaður álfa á Íslandi og sem slíkur tók ég á móti fjölmörgum erlendum fjölmiðlum. Vinsælasti frasi minn frá þeim árum var „You have to look deep in your own mind to see them.“ Þetta var hluti af starfi mínu sem ferðamálafulltrúi Hafnarfjarðar sem ég sinnti í sjö ár.

 Upplýsingaráðið er allt um kring og því er ekkert óviðkomandi

 – Hvers vegna eruð þið í upplýsingaráði og hvað er eftirminnlegt í starfi þess.

„Mig langaði til að koma aftur inní skátastarf með von um að þekking mín og reynsla gæti nýst til góðra verka, segir Helga. „Það er gaman er að starfa með fólkinu  í upplýsingarráði   en ráðið  saman stendur af fólki sem hefur mjög fjölbreyttan bakrunn sem gefur af sér  víðan sjóndeildarhring þegar mál eru rædd.  Það hefur verið gaman að taka þátt  í  innleiðingunni á nýju skátadagskránni en það verkefni gaf manni góða sýn inn í starfið og þær áherslur sem starfið á að hafa.  Annað stór verkefni sem er í gangi er ímyndarvinna skátanna en það er mjög margþætt verkefni og kemur víða við“.

Jellý-systur sáum meðal annars um kaffihús á Róverway

Jellý-systur sáum meðal annars um kaffihús á Róverway

„Ég kom inn í upplýsingaráðið eftir að gamli skátaflokkurinn minn úr Kópavogi, Jellý-systur tók að sér að sjá um kaffihús á Roverway þegar það var haldið á Úlfljótsvatni og þar seldum við vöfflur, kaffi og kakó við frábærar undirtektir. Þá kveikti fyrrum formaður upplýsingaráðs á því að ég væri ennþá til og fékk mig til liðs við ráðið,“ segir Erna  Henni finnst meiri sýnileiki og betri ímynd standa uppúr í starfi ráðsins.  „Fyrst og fremst er skátahreyfingin núna sýnileg á samfélagsmiðlum og einnig er ánægjulegt hvað tekist hefur að nútímavæða ásýnd hreyfingarinnar“.

„Ég er í upplýsingaráði því ég hef mikinn áhuga á upplýsingamiðlun og markaðssetningu og taldi þetta upplagðan vettvang til að læra meira á faglegan og ganglegan hátt. Upplýsingaráð er þess eðlis að það teygir sig út í alla starfsemi skátahreyfingarinnar og það finnst mér spennandi. Það er í raun ekkert sem við eigum ekki erindi í, á einn eða annan hátt,“ segir Heiður. „Góð ímynd og gott upplýsingaflæði er eitthvað sem er lífsnauðsynlegt hreyfingunni ef við eigum að standast samkeppnina við aðra afþreyingu sem stendur krökkum til boða eftir skóla.“

Heiði finnst mikill árangur hafa náðst á stuttum tíma. Síðan ég byrjaði í upplýsingaráði höfum við farið í virkt átak í fjölgun fullorðna í skátastarfi, sett upp nýja vefi og þróað áfram ímynd hreyfingarinnar. Við í ráðinu komum líka öll úr sitt hvorri áttinni og erum með mismunandi reynslu og þekkingu á bakvið okkur og mér finnst gríðarlega skemmtilegt að heyra þeirra sjónarhorn á hlutunum. Fyrir utan Gulla að þá er ég nýjasti meðlimur ráðsins og ég vissi í raun ekki hvað ég væri að fara út í, en þau hafa alltaf verið einstaklega fagmannleg í sínum störfum og þægilegt að vinna með þeim. Svo nota Gunnlaugur og Jón Halldór hvert tækifæri sem þeir fá til að reyta af sér fimmaura brandarana svo það skortir ekkert comic relief á okkar fundum. Annars vona ég bara að Gunnlaugur haldi sig við kosningaloforð sitt og leyfi okkur að gera eitthvað í búningamálum hreyfingarinnar því ég persónulega hef aldrei mátað íslenska skátaskyrtu sem passaði á mig og mér þætti vænt um að sjá breytingu á því.“

Stýrihópur vefmála í desember fyrir ári þegar nýr vefur var opnaður. Frá vinstri; Dagga, Bennó, Jón Halldór, Gummi Páls og Hemmi

Stýrihópur vefmála í desember fyrir ári þegar nýr vefur var opnaður. Frá vinstri; Dagga, Bennó, Jón Halldór, Gummi Páls og Hemmi

„Þetta byrjaði nú ósköp sakleysislega þegar Bennó sem var formaður upplýsingaráðs dró mig með í súpu. Við hittumst nokkur og ræddum um upplýsingamál og skátastarf.  Ég var því farinn að gefa ráð löngu áður en ég var kominn í upplýsingaráðið, þannig að það var því auðvelt að segja já þegar ég var beðinn formlega að taka sæti í ráðinu.  Ég hef reyndar aldrei verið í ráði þar sem jafn mikið er unnið en lítið fundað formlega,“ segir Jón Halldór og rifjar upp það sem honum finnst standa uppúr. „Í upphafi síðasta árs fórum við að ræða nánar saman um rafræna miðlun í heild sinni. Við kölluðum þetta því hógværa nafni Upplýsingaheimar skáta og fórum víða í umræðunni.  Ákváðum síðan að taka minni skref úr varð að ég tók að mér að leiða stýrihóp um vefmálin sem var skipaður af stjórn BÍS í júní 2013og á vegum hans opnuðum við nýja vefsíðu skatarnir.is og síðan á þorláksmessu fyrir ári vefinn skatamal.is sem tók við af gömlu síðunni skatar.is. Svo höfum við verið að bæta okkur á Facebook og taka fleiri samfélagsmiðla inn í myndina.“  Að sjálfsögðu er haldið utan um verkefnið á vefnum og áhugasamir geta skoðað vefsíðuna www.skatamal.is/upplysingaheimar

Við erum sýnilegri og jákvæðni í garð upplýsingamála er meiri

Brynjar-Níels-syndrómið tók sig upp í myndatöku hjá upplýsingaráði

Brynjar-Níels-syndrómið tók sig upp í myndatöku hjá upplýsingaráði

– Er eitthvað sem er sérstaklega spennandi framundan hjá upplýsingaráði?

„Framundan hjá ráðinu er að halda áfram að koma að vinnu við að efla skátana, auka sýnileika og vitund um okkur í þjóðfélaginu. Hér spila stóra rullu samfélagsmiðlar, fjölmiðlar, heimasíður og fleira,“ segir Helga og Erna bætir við   „einnig átak til að virkja eldri skáta og bjóða þeim að koma aftur inn í hreyfinguna á sínum forsendum. Það er spennandi verkefni og liður í því er fyrirhuguð söfnun netfanga eldri skáta og uppfærsla á félagatalinu“.

Heiður grípur það sem er nýjast á samfélagsmiðlun skáta. „Instagram! Við stofnuðum Instagram aðgang núna í haust og ég vona að það verði vinsælt. Ætlunin er að það sé vettvangur fyrir skátamiðstöðina og skátafélögin til að kynna og auglýsa viðburði eða einfaldlega sýna hvað er í gangi hverju sinni. Ég hvet alla til að bæta skatarnir inn á sitt Instagram og nota #skatarnir í hvert skipti sem eitthvað skemmtilegt gerist í skátastarfinu,“ segir Heiður.

„Við erum á góðri leið í þeirri vegferð sem við lögðum af stað fyrir nokkrum árum. Það er gaman að því hvað margt er orðið sýnilegt og við þurfum að hlúa að því sem komið er á laggirnar, auk þess að leggja grunn að áframhaldinu,“ segir Jón Halldór.  „Mikilvægast er að fá meiri virkni skáta og þátttöku fleiri í þessum málum. Skilningur hefur vaxið. Það var til dæmis frábært að koma inn á fund hjá stjórn BÍS nú í haust – mikil jákvæðni og baráttuandi.“

„Við þurfum að vera vakandi yfir því hvað skátarnir segja, fá að vita hvaða áherslur þeir vilja leggja og við eigum að mæta óskum þeirra eftir því sem við mögulega getum. Það var gaman að hitta rekkaskáta í Fantasíu nú í vikunni. Þau settu App efst á óskalistann,“ segir Jón Halldór.  „En talandi um lista þá er af nægu að taka. Eigum við ekki bara að láta vaða og taka Contról-Peist á þetta.  Hér er listi sem gekk á milli okkar í upplýsingaráði um daginn þegar Gulli óskaði eftir veganesti fyrir stjórnarfund BÍS.“

„Þetta er að sjálfsögðu bara vinnuplagg, en er ekki opin stjórnsýsla í tísku núna,“ segir Jón Halldór og nýtur þess að lifa á „cut-and-paste“ tímum.

 Cut and paste úr vinnuplaggi

Aðalvefir skáta (skatarnir.isskatamal.is)
 • Hér undir kemur efnisvinna, textagerð og þróun vefsins í heild.  Mjög mikilvægt ef við ætlum að halda úti lifandi vef.
 • Þá eru hér einnig ýmsir praktískir hlutir s.s. hýsing, kostnað vegna léna, vefumsjónarkefi og tengdir þjónustusamningar.
 • Til viðbótar væri áhugavert að keyra inn leitarvélabestun og  notendaprófanir.
 • Fræðsla um vefinn og virkja fleiri til verka er ákaflega eftirsóknarvert og væri hægt að gera með námskeiðum
 • Greining, fræðsla og þjálfun hvernig við notum vefinn sem tæki til markaðssetningar.
Notendakönnun – samskipta- og vefmiðlar / og tölvupóstar
 • Við þurfum að kanna hug skáta og hegðun þeirra á rafrænum miðlum og jafnvel hvernig þeir sjá miðlun BÍS í heild sinni.
 • Könnun hjá úrtaki skáta
 • Úrvinnsla
 • Kynning og hagnýting á niðurstöðum
Enski vefurinn – Scout.is                

Þetta er óskalista frá alþjóðaráði en umfangið getur verið mjög mismunandi eftir því hvað á gera – mögulega er um að ræða þrjá vefi:

 1. almennt um skátastarf á Íslandi
 2. upplýsingar fyrir visitors  – erlendir skátar sem við viljum ná til sem ferðalanga. (möguleg samtenging við ferðþjónustur skáta (t.d. Hraunbyrgi vegna gistingar, Úlfljótsvatns vegna gistingar og afþreyingarmöguleika … )
 3. upplýsingar fyrir foreldra barna sem vilja byrja í skátunum og þá mögulega bæði á ensku og pólsku. /  Hugsanlega má leggja af stað með verkefni sem leiðir síðar til þýðingu á vefnum.
Ýmsir ,,sjálfstæðir vefir“

Við eigum slatta af vefjum sem svífa um úníversið og eru misgagnlegir. Sumir gera mögulega ógagn meðan aðrir eru úník. Við þurfum að ná þeim saman sem sjá um þessa vefi og leggja hvert öðru lið – hér er upptalning á nokkrum af þessum vefjum.

 • Skátabúðin,
 • Grænir skátar
 • Tjaldaleiga skáta
 • Landsmótsvefur 2014
 • Landsmótsskráingavefur – Jmanager
 • Jamboree 2015 – er-í-vinnslu-vefur
 • World Scout Mood 2017
 • Friðarþingsvefurinn
 • Góðverkadagavefur
 • Úlfljotsvatn
 • Sumarbúðir skáta
 • Ferðaþjónusta skáta
 • Friðarloginn
 • Útilífsskóli skáta – sumarnámskeið
 • is
 • Skátakórinn
 • ,,Eitt sinn“ vefurinn

 Svo eru nú nokkrir vefir sem segja má að séu „Gamlir dauðir vefir“ eða viljum við gæða þá „sögulegu lífi“.   Þetta eru t.d. Roverway, gömul landsmót og NordJamb

Samskiptamiðlar

Flaggskipið okkar er Facebook og við eigum að fylgja árangri þessa árs betur eftir.

Hér eru kostnaðarliðir í þessu sambandi birtingarkaup, verlaunaátak, námskeið fyrir Facebook hópinn og ráðgjöf frá Facebook sérfræðingi.

Einnig taka inn fleiri víddir og horfumst í augu við það að það kostar fyrirhöfn > Twitter, Instagram … o.fl. þjónustur bíða eftir okkur.

Félagakerfi og póstlistar

Nýtt félagaskráningakerfi er á dagskrá og það þarf að innleiða það.  EKKI gleyma að taka frá fjármuni til þróunar og innleiðingar >> þjálfun – stuðningur — hvatning  og svo endurtaka.

 Öflun nýrra netfanga

Sjálfstætt verkefni sem mun gagnast frábærlega vel þegar við verðum komin með betra félagakerfi og útsendigarkerfi, sem og nýtt rafrænt fréttabréf.

 Skarpara SKÁTADAGATAL

Fyrir utan að gera skátadagatalið aðgengilegra á vefnum eigum við að gera það aðgengilegra á tilkynningatöflum skátafélaganna. Þetta kallar á hönnun og síðan uppsetningu í þann ramma og prentun og dreifingu líklega 10 x yfir árið.

Það má einnig skoða þann möguleika að taka skátadagatalið út sem App.

Dagskrár-verkefnavefur

Dagskrárverkefnavefurinn er langt kominn og gæti orðið snilldarlegur hornsteinn í stuðningi BÍS við skátastarfið í landinu.  Það skiptir máli að innleiða þetta með glæsibrag og síðan tryggja viðvarandi kynningu og stuðning við kerfið.

Veit ekki á þessari stundu hve mikill kostnaður verður að setja efnið inn í kerfið, þe. það efni sem nú er til, en hins vegar væri frábært að hafa svigrúm fyrir nýsköpun og koma nýjum hugmyndum inn í kerfið með myndum, teikningum og/eða öðrum ljóðrænum hætti og yndislegheitum.

Skátamál – Rafrænt fréttabréf

Hér er eftir að velja kerfi – setja það upp og aðlaga útsendingarkerfinu.

Gera verður ráð fyrir hönnun á fréttabréfi. Grunnútlit.  Og síðan er textavinna, myndvinnsla, uppsetning og útsending x 40 rafskinnur.

Fréttastjórn

Áframhaldandi fréttastjórn eins og á þessu ári.

Fræðsla um skrif á vefinn. Ungir blaðamenn og starfsmenn skátafélaga gætu verið markhópur.

Almannatengsl – „förum alla leið“

Keyrum upp af krafti almannatengslin hjá okkur – „förum alla leið“ og höfum birtingu frétta sem árangursviðmið hjá okkur

Bjóðum upp á fræðslu fyrir stjórnir skátafélaga og skáta 18+ um fréttamiðlun og almannatengsl.

Veitum árlega hvatningarverðlaun fyrir besta fjölmiðlagiggið og árangurinn.

Bjóðum einnig upp á námskeið 2 x á ári fyrir „Unga talsmenn“  (Liljar er í Tékkó að læra – þar erum við komin með einn mentor og ég þykist vita að Heiður hafi það sem þarf í þetta)

 

Ljósmyndasafn  / ljósmyndun og ljósmyndavinnsla

Ekki hefur endanlega verið valið kerfi til að vista myndir miðlægt. Og síðan er eftir að setja myndir í kerfið með skipulegum hætti.  Spurning hvort það verði 2 eða 3 tíma.  😉

Videó

Myndböndin sem gerð voru á Landsmótinu vöktu almenna lukku.  Við eigum að hafa svigrúm til að taka fleiri Vídeó og yfir lengri tíma. Hér getum við virkjað mun betur yngri kynslóðina og dregið Rekka og Róverskáta inn í skemmtileg verkefni.

Muna að eiga fé til að veita verðlaun og viðurkenningar.  „Besta skátaræman 2015 er …“

Við eigum góðan séns á að koma Vídeóum frá okkur inn í forvarnardagsprógrammið.

Ljósmyndatökur

Áfram verður að halda tökum á topp prófessional myndum eins og við höfðum úr að moða í haust. Það hefur skilað sér og mun kikka inn af meiri krafti þegar við náum þessu á reglubundið flug.

Við eigum einnig að hafa svigrúm til að halda ljósmyndanámskeið og verðlauna og veita viðurkenningar fyrir bestu skátaljósmyndina – sumar og vetur.

Skátablaðið

Það er vanmetinn sá kraftur sem prentuð útgáfa hefur og það er viss sjarmi í Skátablaðinu – Það ætti að koma út að minnsta kosti 3 x á ári.

 • 2x lágmark sent beint á skáta og biðstofur og stuðningsaðila.
 • Og síðan 1 x í dreifingu með dagblaði í tengslum við innritunarviku skáta.

Það er lágmark að við reynum að plægja inn stuðning við slíka útgáfu.

Innritunarvika skáta

Hér þarf að keyra með tíföldum krafti á við það sem gert var síðasta haust.  Tryggja að við fáum extra dreifingu á blöðum, plakötum og bæklingum.

Góðverkadagar

Ég held að Góðverkadagarnir sem keyrt var af stað með fyrir nokkrum árum hafi potential til að fólk tengi skáta við almannaheill.  Gefur okkur færi á að tala um gildi okkar, hjálpsemi og vináttu, án þess að vera að sníkja pening eða leita eftir innritun. Tickar inn á fínum tíma ársins og skilur eftir Goodwill.

Upplýsingastuðnings-pakki fyrir skátafélög, sveitir og flokka

Vera með margvísleg skapalón fyrir skátafélögin og eða sveitir, jafnvel flokka, þannig að þessir aðilar geti sótt grunnefni, fyllt út og prentað með sómasamlegum hætti litlar auglýsingar í fáum eintökum.

Það þarf einnig að skilgreina hvernig námskeið félögin þurfa eða hvort hægt sé að setja upplýsingasjónarmið inn í fræðsluna til skátafélaganna.

Einnig má leggja skátafélögunum til stuðning hvernig þau taka á móti nýliðum. Hugmyndir að foreldrafundum, glærur, handout o.fl.  Bara þannig að allir þurfi nú ekki að gera það sem búið er að gera.   Mögulega er þetta til í einhverju fyrirmyndarfélagi

Kynningarbæklingur um skátastarf

Til er handrit að kynningu á skátastarfi, held frá WOSM, sem við ættum að reyna eftir megni að gefa út á árinu.

Skoðanakönnun meðal almennings um skáta og skátastarf

Við erum oft að þreifa okkur áfram í myrkrinu. Vitum ekki nákvæmlega hvar við stöndum ímyndarlega. Nauðsynlegt að fá einhverja mynd af skoðun almennings á skátum og skátastarfi þannig að við vitum síðar hvort einhver árangur sé af okkar starfi.

Samskiptaáætlun skáta

Við þurfum að vinna samskiptaáætlun skáta, þannig að ljóst sé hvaða áherslur við ætlun að leggja – hvar og hvenær og hvað við viljum segja.

Undir þennan hatt kemur einnig miðlun og fræðsla um þessi mál til skáta þannig að þeir geti tileinkað sér þær áherslur sem við leggjum. Hér undir fellur kynningar á ímyndarstefnu BÍS  — Já, var ekki annars búið að finna pening til að prenta bæklinginn?

 

 

 

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar