Ungmennaþing 2017

Það er laugardagurinn 11. febrúar. Ég vakna, lít á símann minn og sé að klukkan er 10. Ég kem mér fram úr rúminu, fæ mér morgunmat og geri mig klára í daginn. Ég rétt svo man að skella mér í skátaskyrtuna og setja á mig hátíðarklútinn áður en ég sest upp í bíl og keyri af stað. Stefnan er tekin á Hafnarfjörðin. Nánar tiltekið Hraunbyrgi (skátaheimili Hraunbúa). Það líður ekki langur tími þar til í ég sé stóra gráa húsið fram undan mér. Ég fer inn og sé að það eru um 10 manns nú þegar mættir. Eftir skamma stund stendur Berglind, formaður Ungmennaráðs upp og setur þingið.

Ég stend í miðjum hringnum með um 20 manns í kringum mig. Hvar er aftur Óli Björn? Ég reyni að slá hann með prikinu áður en hann segir næsta nafn. „Sæbjörg“ segir hann svo, rétt áður en ég næ honum. Mun ég einhvern tímann losna úr miðjunni? Við erum semsagt í nafnaleiknum Jónas og ég er hann… En áður en ég næ að koma næstu manneskju í miðjuna er tími komin að fara aftur inn og fá fræðslu um Skátaþing frá Baldri og Ylfu úr Segli. Það kom mér á óvart þegar kom í ljós að lang flestir í salnum höfðu áður farið á Skátaþing. „Áfram Unga fólkið!“Annars er ég núna orðin mun fróðari um Skátaþing og tilgang þess.

Hvað er stefnumótun BÍS? „Það eru markmið Bandalagsins fyrir árið 2020“ segir Berglind er hún segir okkur nánar frá þeim. Síðan er okkur skipt í þrjá hópa þar sem við ræðum spurningarnar „Hvað getur Bandalagið gert fyrir okkur?“ „Hvað geta félögin gert fyrir okkur?“ og að lokum „Hvað getum við sjálf gert?“. Eftir þessar umræður voru niðurstöður hvers hóps svo kynntar fyrir öllum hópnum. Ég get sagt ykkur að margar góðar hugmyndir komu fram en það tæki mig allan daginn að segja frá þeim öllum.

„Það eru komnar vöfflur“ heyrist úr eldhúsinu. Á næsta augnabliki koma Daði, Jón Egill og Ísak úr eldhúsinu með rjúkandi vöfflur, rjóma, sultu, súkkulaði, sykur og tilheyrandi. Það er komið kaffi! Aðeins seinna en áætlað var en óþarfi að fara nánar út í það… (það þarf annars 10L af vatni í vöffludeig er það ekki?)

Eftir kaffið fór ég svo fram á gang þar sem um helmingur krakkanna fór á trúnó með Ungmennaráði. Þar ræddum við um starf Ungmennaráðs og allt sem tengist rekka- og róverskátastarfi. Skemmtilegar umræður þar!

Klukkan er 16:40 og þingið er sett (Ef þið eruð orðin aðeins rugluð þá var núna verið að setja Ungmennaþingið. Hitt var bara dagskráin sem leiddi að Ungmennaþinginu). Þar sem ég nenni ekki að skrifa allt sem fór fram á þinginu get ég sagt ykkur að þingið studdi við tvær tillögur að lagabreytingu sem voru sendar inn á Skátaþing 2017. Síðan sagði Salka okkur hvað er helst á dagskrá fyrir rekka- og róverskáta á næstunni.

Klukkan 18:00 (slétt) var þinginu svo slitið. Þá var kominn tími til að fara heim á leið og borða kvöldmat með fjölskyldunni.

Ég vona samt að þið hafið haft gaman af því fylgjast með deginum mínum. Ég átti skemmtilegan dag á Ungmennaþingi og þakka fyrir mig!

 

Hérna má sjá Ungmennaráð BÍS sem stóð fyrir þinginu.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar