Ungmennalýðræði tekið upp

Skátarnir hafa unnið markvisst að því um nokkurt skeið að efla ungmennalýðræði innan hreyfingarinnar. Á Skátaþingi í apríl verður kosið í fyrsta sinn til ungmennaráðs og tekur formaður þess sæti í stjórn Bandalags íslenskra skáta (BÍS). Tillaga um stofnun ungmennaráðs var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta á Skátaþingi í fyrra.

Á þinginu sem haldið verður fyrstu helgina í apríl er boðið til frumsýningar á myndbandi sem tekið var upp í undralandinu við Úlfljótsvatn um liðna helgi. Vinnuhópurinn Rödd ungra skáta stendur að baki gerð myndbandsins, en hópurinn hefur það að markmiði að efla þátttöku 16 – 25 ára skáta í ákvarðanatöku innan skátahreyfingarinnar. Í myndbandinu er farið yfir hvernig skátafélögin geta stuðlað að ungmennalýðræði í sínu starfi og virkjað þannig þá auðlind sem felst í þessum aldurshópi.

Þátttakendur í Vídeóinu

Þátttakendur í Vídeóinu

 

Voru fljót í karakter

Una Guðlaug Sveinsdóttir, talsmaður vinnuhópsins, segir að tökur á myndbandinu hafi gengið vel enda frækinn hópur skáta á ferð, mestmegnis drótt- og rekkaskátar. Tökurnar fóru fram á sunnudegi og strax eftir hádegi var samlestur þar sem leikarar fengu tækifæri til að koma með ábendingar varðandi handritið. „Þegar allir voru komnir „í karakter“ þrammaði hópurinn út í snjóinn og sló þar upp lítilli tjaldbúð. Tökur gengu eins og í sögu og var sérlega gaman að sjá hversu samstilltur hópurinn var og hversu skemmtileg orka myndaðist innan hans. Í lokin voru þau farin að leikstýra hvort öðru,“ segir Una Guðlaug.

Voru fljót að skella í sig handritinu.

Voru fljót að skella í sig handritinu.

Una Guðlaug hefur leitt vinnu hópsins

Una Guðlaug hefur leitt vinnu hópsins

Myndbandsgerðin er styrkt af Evrópu unga fólksins og Styrktarsjóði skáta. Eins og áður segir er stefnt á að frumsýna myndbandið á Skátaþingi í apríl.

Vinnuhópurinn Rödd ungra skáta hefur starfað frá hausti 2011. Áhugasamir um starf hans geta haft samband við Unu Guðlaugu – una@hraunbuar.is eða í síma 848-7585

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar