Ungir skátar vilja aukið samstarf og námskeið

Fjölmargir áhugasamir og virkir skátar sóttu þing sem ungmennaráð hélt fyrir skáta á aldrinum 16 – 25 ára.  Þingið var haldið á laugardag í skátaheimili Árbúa í Hraunbæ og sóttu það um 30 skátar af suðvesturhorninu frá Reykjanesi upp á Skaga og einnig komu nokkrir frá Selfossi, en þar stóð til að halda fund sem féll niður vegna veðurs. Áður hafði verið haldinn fundur á Akureyri.
Góð eru ungmenna ráð

Góð eru ungmenna ráð

Leitað var svara við því hvernig skátar á aldrinum 16 – 25 ára vilja hafa skátastarfið og einnig voru kynntar leiðir hvernig hægt er að koma hugmyndum sínum á framfæri og var skátaþing kynnt sérstaklega. Lagðar voru fram hugmyndir af lagabreytingum með áherslu á að ná ungu fólki inn í fastaráð BÍS og einnig í stjórnir félaga.

Aukið samstarf milli skátafélaga er mikilvægt

„Ungmennaþingið gekk mjög vel og var rosalega skemmtilegt,“ segir  Bergþóra Sveinsdóttir formaður ungmennaráðs Bandalags íslenskra skáta (BÍS). „Eftir þingið og fundinn fyrir norðan finnst mér ég heyra að ungir skátar kalla eftir viðburðum út á landi. Samþykkt var einmitt ályktun þar sem skorað er á stjórn BÍS að auka samstarf milli skátafélaga sem eiga starfsstöðvar innan höfuðborgarsvæðisins annarsvegar og utan þess hinsvegar. Hætta á að sé starfi þessara félaga ekki haldið á lofti muni áhugi og þáttaka á sameiginlegum viðburðum minnka í félögum utan höfuðborgarsvæðisins og skátastarf á þeim svæðum líða fyrir það.“

Vilja styðja skátaforingja í starfi með námskeiðum

Bergþóra segir að einnig hafi verið samþykkt ályktun um foringjastörf. „Eins og við vitum eru margir ungir skátar að starfa sem foringjar og hafa því sterkar skoðanir á því. Skorað er á BÍS að gera það skilyrði fyrir foringja sem starfa innan skátahreyfingarinnar hér á landi að hafa sótt foringjanámskeið. Foringjar verða þá betur til þess fallnir að sjá um skátastarf,“ segir hún.

Bergþóra, t.v. á mynd, er ánægð með þingið.

Bergþóra, t.v. á mynd, er ánægð með þingið.

 Ungir skátar vilja hafa áhrif

„Ég veit að ungir skátar vilja hafa áhrif og hafa sterka rödd. Ég held með því að koma ungu fólki t.d. inn í ráð BÍS er hægt að tryggja að sú rödd heyrist. Á sama tíma vil ég líka hvetja unga skáta til að láta virkilega í sér heyra, koma sínum hugmyndum á framfæri og ekki vera hrædd um að biðja um aðstoð eða leiðsögn frá BÍS,“ segir Bergþóra.  Hún er fyrsti formaður ungmennaráðs, en kosið var í það í fyrsta sinn á Skátaþingi fyrir tæpu ári síðan.

Edda Anika Einarsdóttir í ungmennaráði var ánægð með ungmennaþingið

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar