Undralandsvorið er komið

Það er í mörg horn að líta í Undralandinu eins og skátar kalla paradís sína við Úlfljótsvatn.  Um helgina mátti finna að vorið er komið og mikill fjöldi gesta naut staðarins.  Tvær félagsmiðstöðvar voru í  gistingu, Hagkaup með hópeflisferð, ferðahópur á vegum Cursus Iceland var í mat, fyrstu tjaldgestirnir voru búnir að koma sér fyrir, útieldun og klifur var kennt á námskeiðum og sjálfboðaliðar frá Seeds dreifðu áburði á tún,  auk þess sem eldri skátar dyttuðu að Gilwell skálanum og aðrir flokkuðu gögn í nýju fræðasetri skáta.

Þau eru ærin verkefnin sem Guðmundur Finnbogason framkvæmdastjóri og  Guðrún Ása Kristleifsdóttir dagskrárstjóri Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni þurfa að sinna. Síðasta helgi gefur líklega forsmekkinn að því sem koma skal í sumar.

Heilgrillað félagsmiðstöðvarlamb

Heilgrillað félagsmiðstöðvarlamb

 Fyrirmyndarhópur úr félagsmiðstöðvum

„Félagsmiðstöðvarnar Jeman og Þeba úr Kópavogi komu með fyrirmyndarhóp til okkar og dvöldu eina nótt. Bæði voru leiðbeinendurnir frábærir og krakkarnir ekki síðri. Þau heilgrilluðu lamb og voru með varðeld svo eitthvað sé nefnt.  Ég held þau hafi farið í vatnasafaríið líka. Það var mjög gaman að fá að stússast í kringum þau og væri kannski gaman að fá við þau viðtal um ferðina og reynsluna af Úlfljótsvatni,“ segir Guðmundur og bætir við að einn leiðbeinandinn hafi verið í sumarbúðum skáta fyrir tíu árum síðan.

Hagkaup með hópefli

„Við vorum með Hagkaupsfólk hérna í hópefli og hamborgaraveislu.  34 stk. – Fólkið sko, ekki hamborgararnir. Þau skemmtu sér konunglega og voru sömuleiðis til fyrirmyndar.  Guðrún Ása er að skrifa verslunarstjóranum bréf til að hrósa þeim. Frábær hópur, óaðfinnanleg umgengni og vel haldið utan um hann af henni Diddu“.

Kræsilegir gestir

Kræsilegir gestir

eld(hús)verkin

eld(hús)verkin

 Krásir yfir eldi í rigningunni

Á laugardag var haldið námskeið í útieldun og mættu fimm manns bæði kennarar og áhugafólk um útieldun.  „Við nutum þess að búa til krásir yfir eldi í rigningu og stilltu veðri. Námskeiðið gekk vel og ef maður getur eldað yfir eldi í rigningu þá er allt hægt,“ segir Guðmundur, en hann hefur staðið fyrir slíkum viðburðum í nokkur ár og frætt marga.

Þriggja barna faðir í tjaldi

„Fyrstu tjaldgestirnir komu til okkar á föstudag og voru til laugardags.  Þetta var pabbi með þrjú börn og þau létu veðrið ekki á sig fá. Gistu í tjaldi og nutu þess að skottast í fjölmörgum leiktækjum okkar,“ segir hann.

 Standard lambalæri og meððí

„Þá kom Cursus Iceland til okkar og fengu standard Lambalæri og með því. Þeir Cursus félagar hafa komið nokkrum sinnum  í vetur með hópa af kennurum frá Evrópu.  Flottur hópur og flott verkefni, sem tengist Comeniusar áætluninni og núna Erasmus +.  Hér enda þau vikuna með veislu eftir góðan dag í skoðunarferð um Suðurlandið. Hópurinn hefur þá verið heila viku að læra um útikennslu og útinám,“ segir Guðmundur, en hann er menntaður matreiðslumaður og fer því ekki í hnút þó verkefni af þessu tagi detti inn.

 

 Gilwell gaurarnir í gamla skálanum og skráning skátaminninga

„Gilwell gaurarnir í Gilwell-Hringnum komu eins og oft áður og héldu áfram að vinna í skálanum. Væri gaman að smíða smá drottningarviðtal við þá við tækifæri og fá alla söguna um þessa framkvæmd við endurbygginguna sem hefur staðið í nokkur ár. Það hillir undir lokin á þessu ef þessu þá líkur einhvern tímann. Það er alltaf gaman að sjá þá hér, flaggað við skálann og heitt á könnunni fyrir mig,“ segir hann glaður í bragði.  „Í Fræðasetrinu héldu Smiðjumenn áfram að skrá skátaminniningar og minjar inn í safnagrunn Íslands. Frábært framtak sem á án efa eftir að verða enn flottara og vafalítið eina af skrautfjöðrunum okkar. Við stefnum að tvinna bæði Gilwell-Hringinn og Fræðasetrið inn í prógramm sumarsins á tjaldsvæðinu.“

 Ómetaleg hjálp sjálfboðaliða

„Núna eru hjá okkur 5 sjálfboðaliðar frá SEEDS sem komu hingað í tvo daga til að hjálpa okkur. Þau hafa nú þegar borið ein 600 kg af áburði á tjaldflatirnar og öðrum 600 kílóum verður dreift á morgun. Þetta er ómetanleg hjálp og gerir það að verkum að við komum áburði á einni til tveimur vikum fyrr en ella þar sem að ekki er óhætt að setja stórar vélar inn á flatirnar strax,“ segir Guðmundur.  Hann er þó hvergi banginn með að taka á móti tjaldgestum um næstu helgi.

„SEEDS liðar hafa líka dittað að beðum og aðstoðað í eldhúsinu og skálunum. Þetta er annað árið sem við fáum SEEDS sjálfboðaliða en við tókum á móti hópum í 4 vikur í fyrra. Hingað kemur svo hópur í lok maí og tveir hópar í ágúst og september. Flott verkefni sem væri gaman að segja nánar frá,“ segir Guðmundur sem hefur nóg að gera og er jafnframt með mörg áhugaverð verkefni sem hann vill koma á dagskrá.

 

Fleiri myndir og fróðleikur:

 

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar