Yfirlýsingar BÍS

fridur

Yfirlýsing Bandalags íslenskra skáta um frið

Skátahreyfingin er fjölmennasta æskulýðshreyfing heims, hreyfing með skýra framtíðarsýn og uppeldisleg markmið. Um allan heim starfa skátar að því að „skapa betri heim“ (creating a better world) með það fyrir augum að skilja við veröldina örlítið betri en komið var að henni.

Skátahreyfingin er uppeldishreyfing og skátar vilja fara fram með góðu fordæmi. Í samræmi við tilgang sinn og markmið vill Bandalag íslenskra skáta stuðla að friði meðal manna og þjóða, leggja lið aðgerðum í þágu málefna barna, friðar og jafnréttis og leggur áherslu á að skátar beri virðingu fyrir umhverfi sínu (sjá í 8. grein laga BÍS).

Sem virkir og ábyrgir samfélagsþegnar vilja skátar hafa áhrif til góðs á nærumhverfi sitt og samfélag, bæði heima fyrir og um heim allan. Friður er eitt af þeim fjölmörgu gildum sem skátar vinna eftir og skátar stuðla markvisst að friði hvar sem þeir koma. Jafnvel á erfiðum stundum þegar ágreiningur rís er áhersla lögð á það sem sameinar frekar en það sem sundrar. Hver einasti skáti getur stuðlað að friði. Við erum hluti af alþjóðlegu samfélagi skáta og styðjum við skátasystkini okkar sem á þurfa að halda, hvar sem þau eru í sveit sett.

Bandalag íslenskra skáta hvetur því alla skáta til að hafa ávallt sameiginleg gildi skátahreyfingarinnar hugföst og vinna markvisst að því að stuðla að friðsamlegri lausn ágreiningsmála. Skátahreyfingin hvetur alla til að taka virkan þátt í samræðu um frið og rétta fram hjálparhönd til þeirra sem á þurfa að halda sökum hvers kyns hamfara eða stríðsátaka.

Saman sköpum við betri heim!

Stjórn Bandalags íslenskra skáta, 2. apríl 2014

 

Yfirlýsing Bandalags íslenskra skáta um mannréttindi

Mannréttindi eru almenn, óafsalanleg, ódeilanleg og háð innbyrðis. Samkvæmt 8. grein laga Bandalags íslenskra skáta skal skátastarf miðast við þarfir allra einstaklinga að svo miklu leyti sem aðstæður hvers skátafélags leyfa.

Þar segir jafnframt að „Bandalag íslenskra skáta virðir sérhverja lífsskoðun sem samræmist skátaheitinu og skátalögunum. Í skátastarfi og við inngöngu nýliða skal virða og engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis, kynhneigðar eða annarra ástæðna“.

Þetta er jafnframt í samræmi við lög alþjóðahreyfinga skáta og Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna en gengur í raun skrefinu lengra þar sem kynhneigð er sérstaklega bætt inn í upptalninguna í lögum BÍS. Skátastarf er, og á að vera, opið fyrir alla sem vilja vinna að markmiðum skátahreyfingarinnar. Skátar fara ekki í manngreiningarálit, mismuna ekki heldur viðurkenna fjölbreytileika meðal manna og stuðla að umburðarlyndi og gagnkvæmum skilningi manna á meðal.

Bandalag íslenskra skáta leggur áherslu á að mannréttindi séu virt í öllu skátastarfi og vill stuðla að því að svo sé gert alls staðar í samfélaginu. Sem hluti af alþjóðlegri uppeldishreyfingu vilja skátar taka þátt í mannréttindafræðslu og opinni og heiðarlegri umræðu um mannréttindamál innan og utan hreyfingarinnar og leggja sitt að mörkum til að efla virðingu fyrir mannréttindum í samfélaginu öllu.

Skátar vinna markvisst gegn hvers kyns mismunun!

Stjórn Bandalags íslenskra skáta, 2. apríl 2014