Alþjóðleg gæðaúttekt Skátahreyfingarinnar 2015

SGS_Logo_500px_RGBBandalag íslenskra skáta (BÍS) stóðst alþjóðlega gæðaúttekt í nóvember 2015

Alþjóðleg gæðaúttekt Skátahreyfingarinnar 2015

Gerð var alþjóðleg gæðaúttekt á starfi Bandalagi íslenskra skáta (BÍS) í nóvember 2015. GSAT (Global Support Assessment Tool) gæðaúttektinni er ætlað að sýna hversu vel starfsemi BÍS samræmist alþjóðlegu skátastarfi WOSM (World Scout Movement). Úttektinni er ætlað að spegla hvar BÍS er statt miðað við skátastarf í öðrum löndum, sýna styrkleika BÍS og hvar má bæta starfið og leggja til hugmyndir um aðgerðir í þeim efnum. Úttektin styður BÍS í að samræma starfið alþjóðlegu skátastarfi. BÍS hefur í nokkur ár unnið að því að efla gæði skátastarfsins, m.a. með öflugri forvarnastefnu, sett upp ferla sem taka á einelti, kynferðisbrotum og boðið upp á ýmis námskeið þessu tengt. Alþjóða skátahreyfingin WOSM er í samstarfi við SGS (Société Générale de Surveillance) með gæðaúttektir en SGS er leiðandi á sviði gæðaúttekta í heiminum. 20-25 úttektir verið gerðar á skátahreyfingum víðs vegar um heim þegar þetta er skrifað (desember 2015).

Það eru 91 atriði alls sem eru skoðuð í eftirfarandi tíu flokkum:

1. BÍS-WOSM stofnanasamningur

2. Stjórnskipulag BÍS

3. Rammi stefnumörkunar

4. Heiðarleiki og siðferði stjórnunar

5. Samskipti, málsvörn og ímynd

6. Fullorðnir í skátastarfi

7. Fjármögnun og úthlutun fjármagns

8. Dagskrá ungs fólks

9. Möguleiki á fjölgun og aukningu í skátastarfi

10. Stöðugar umbætur

Niðurstöður úttektarinnar eru þær að BÍS er í hópi 10% bestu landa í úttektum á skátahreyfingunni í heiminum, með 76,9% niðurstöðu. Rekstrarkröfum WOSM er fullnægt á öllum sviðum. Úttektaraðilar hrósuðu BÍS sérstaklega fyrir heiðarlegt starf og gegnsæi í rekstri.

BÍS er að vonum ánægt með niðurstöðurnar og þakkar stjórnvöldum og styrktaraðilum kærlega fyrir allan stuðning við starfið.

Sóknarfæri BÍS liggja í tveimur síðustu liðum úttektarinnar, þ.e. möguleika á fjölgun og aukningu í skátastarfi og að vinna að stöðugum umbótum í starfi. BÍS hefur lagt mikla vinnu í stefnumótun á undanförnum misserum og hér má sjá niðurstöðu stefnumótunar varðandi meginmarkmið og framtíðarsýn:

Meginmarkmið skátahreyfingarinnar er að veita ungu fólki tækifæri til að verða sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu með því að stuðla að uppeldi og menntun með lífsgildum sem byggja á skátaheitinu og skátalögunum. Leitast er við að skapa betri heim þar sem hver einstaklingur hefur tilgang og gegnir mikilvægu hlutverki til uppbyggingar samfélagsins.

Framtíðarsýn: Árið 2020 verður skátahreyfingin á Íslandi orðin þekkt af stjórnvöldum og almenningi í landinu sem ein fremsta uppeldishreyfing á Íslandi með yfir 5000 starfandi skátum í öllum helstu

þéttbýliskjörnum landsins, sem deila sameiginlegum gildum og hafa áhrif til góðs í samfélagi sínu og í heiminum öllum.

Leiðir til að vinna að þessum markmiðum eru komnar inn í framkvæmdaáætlun fyrir næstu ár.

Niðurstaða gæðaúttektarinnar sýnir skýrt að skátastarf á Íslandi er á réttri leið og nýtir vel alla miðla til að hlúa að starfi ungs fólks í þessari stærstu friðarhreyfingu heims. Það er von okkar að við höldum áfram okkar ágæta samstarfi og náum með því að vinna að framtíðarsýn BÍS börnum og unglingum til heilla. Framundan eru stórir og mikilvægir atburðir hjá skátum á Íslandi, Landsmót í júlí 2016 og heimsskátamót World Scout Moot (WSM) sem haldið verður hér á landi í júlí árið 2017.