Jakob Guðnason hefur verið ráðinn staðarhaldari Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni og mun hann hefja störf 1. febrúar n.k.

Jakob hefur starfað lengi í skátahreyfingunni og gegnt mörgum trúnaðarstörfum. Hann var í núverandi stjórn BÍS en hefur nú sagt sig frá þeim störfum.

Jakob hefur fjölbreytta starfsreynslu og kemur úr starfi sem afgreiðslustjóri hjá Set hf. Hann starfaði sem dagskrárstjóri við Útilífsmiðstöð skáta á árunum 2010-2013.

Skátar bjóða Jakob velkominn til starfa.

Sæl öll

Nú er loksins komið almennilegt plan fyrir aldursbilamótin næsta sumar.

Landsmót drekaskáta verður haldið á Úlfljótsvatni 9.-10. júní. Þau félög sem vilja lengja helgina eru boðin velkomin frá föstudegi. Mótsstjórn drekamóts var ráðin til þriggja ára í fyrra og verður þetta því annað mót þeirrar mótsstjórnar.

Landsmót fálkaskáta verður að Laugum í Sælingsdal 5.-8. júlí. Á þessu móti verður einnig fjölskyldumót/búðir. Við leggjum áherslu á að mótsstjórnin standi saman af skátum á vestur og norðurlandi og auglýsum hér eftir áhugasömum.

Landsmót dróttskáta verður í Viðey 20.-24. júní. Mótsstjórn er í höndum Landnema auk annarra sem þeir leita til.

Landsmót rekka og róverskáta verður í Þórsmörk 12.-15. júlí, gengið er frá Landmannalaugum dagana á undan. Mótsstjórn hefur verið skipuð, en áhugasamir eru velkomnir að slást með í vinnuhópa.

Við gerum ráð fyrir að sameiginlegar auglýsingar sem þið getið nýtt verði tilbúnar fljótlega.

Kveðja frá dagskrárráði

Síðastliðinn laugardag, 4. nóvember, áttu fálkaskátar á Suðurlandi frábæran dag í Laugardalnum þar sem þeir tóku þátt í Fálkaskátadeginum. Í ár var dagurinn samstarfsverkefni skátafélaganna Skjöldunga og Garðbúa.

Hressir Mosverjar í Ásabolta.

 

Það voru hátt í 70 skátar sem mættu í Goðheima og þurftu skátarnir að takast á við hinar ýmsu þrautir eins og Ásabolta, Mjölniskast, Skátatafl, Fenrisúlfinn og fleira. Þema dagsins var einmitt norræn goðafræði og því var dagskráin í takt við það.

 

(Óskar) Þór með Mjölni.

 

Þrátt fyrir kalsaveður og vind skemmtu krakkarnir sér við að kynnast goðafræðinni nánar og enduðu daginn á síðdegisvöku…. sem er eins og kvöldvaka nema fyrr um daginn… svona ef þið voruð að velta því fyrir ykkur!

Áður en Bræðralagssöngurinn var sunginn og deginum slitið fengu krakkarnir kakóbolla og kex til að hlýja sér fyrir heimferðina.

 

 

 

 

Hér má finna fleiri myndir af deginum.

 

Skátastarf á Íslandi er 105 ára í dag og það er hægt að líta björtum augum til framtíðar. Skátastarf á erindi til ungmenna í dag alveg eins og það gerði fyrir hundrað árum. Það er verkefni okkar sem að skátastarfi stöndum að tryggja það að skátastarf sé traustur og öruggur vettvangur fyrir ungmenni til að eiga margar af bestu stundum lífs síns, öðlast aukið sjálfstraust, meiri víðsýni, meiri gleði og vaxa á alla vegu. Það tryggjum við með því að gera hlutina vel og hlúa að kjarnanum. Ef kjarninn er í lagi stækkar hann af sjálfu sér.

Til hamingju með afmælið!

Marta Magnúsdóttir,
skátahöfðingi