World Scout Moot opnar dyr sínar fyrir skátum og almenningiSunnudaginn 30. júlí næstkomandi gefst gestum kostur á að upplifa það einstaka skátaævintýri sem nú stendur yfir því þá er á dagskrá sérstakur heimsóknardagur.

Svæðið opnar kl. 09:00 og eru gestir velkomnir að dvelja á svæðinu til kl. 17:00.

Fánar með merki mótsins. Ljósmynd: Nicolas Mercier

Það verður sérstaklega mikið um dýrðir þennan dag því þá munu ríflega 5.000 þátttakendur kynna land sitt og þjóð, menningu sína og annað sem hver og einn hópur vill miðla frá sínu landi til mótsgesta og annarra gesta.

Sérstaklega er vakin athygli á því að um þetta mót gilda aðrar reglur en við íslenskir skátar eigum að venjast, til dæmis sú að mótssvæðið er lokað meðan á mótinu stendur, ef frá er talin þessi sérstaki heimsóknardagur á milli kl. 09:00-17:00.

Nauðsynlegt er fyrir gesti að kaupa sér miða á svæðið. Aðeins 500 gestamiðar eru í boði og hefur sala gengið mjög vel til þessa. Það er því ekki hægt að reiða sig á að kaupa miða á mótsstað heldur er betra að tryggja sér miða á miðasöluvef mótsins: http://travel.worldscoutmoot.is/en/day-visitor-ticket/

Aðgangur fyrir fullorðna gesti kostar kr. 3.500, 6-18 ára greiða kr. 1.750 en frítt fyrir börn undir sex ára aldri. Innfalið í aðgangsmiða er gestakort og upplýsingabók.

Frá setningarathöfn mótsins í Laugardalshöll. Ljósmynd: Björn Larsson

„Hér hefur verið hörkustemmning frá því á þriðjudagskvöld þegar 9 rútur renndu í hlað í einni halarófu. Veðrið var meiriháttar þetta kvöld þannig að það má með sanni segja að við höfum fengið fljúgandi gott start” segir Magnea Tómasdóttir, einn fjölmargra sjálfboðaliða mótsins.

Það er Skátafélagið Kópar í Kópavogi ásamt Hjálparsveit skáta í Kópavogi sem annast tjaldbúðirnar í Heimalandi í Landssveit, rétt við Heklurætur.

Sjálfboðaliðar svöruðu kalli fljótt og vel

„Það gekk ótrúlega vel að manna þetta verkefni. Við leituðum til eldri skáta úr Kópavogi og undantekningalaust brugðust þeir hratt og vel við og við höfum átt frábærlega skemmtilegt undirbúningstímabil fram að móti“.

Magnea leiðbeinir þátttakendum

„Með okkur er einnig öflugur hópur frá Hjálparsveit skáta í Kópavogi og fleira þaulvant útivistarfólk. Það er því gaman að þetta skuli vera farið svona vel af stað og við uppskerum nú eins og við sáðum” bætir Magnea við.

Öll störf unnin með brosi á vör

Fjölbreytt og krefjandi dagskrá

Þátttakendum í Heimalandi gefst kostur á að taka þátt í fjölbreyttri og krefjandi dagskrá. „Við bjóðum upp á margvíslegar gönguferðir svo sem á Fimmvörðuháls frá Skógum og að Seljalandsfossi” segir Jóhanna Björk Másdóttir sem leiðir tjaldbúðina.

„Þá gefst þátttakendum einnig tækifæri til að spreyta sig í leitartækni, klifri og sigi og straumvatnsbjörgun svo nokkuð sé nefnt og að sjálfsögðu leggjum við okkar af mörkum í fjölbreyttum samfélagsverkefnum“.

„Í opnu dagskránni bjóðum við upp á magvíslega handavinnu, gaga-ball, risa-billiard og ferð í Paradísarhelli og allt hefur þetta mælst vel fyrir.” bætir Jóhanna Björk við.

Göngustígur lagfærður

Stemmning í samfélagsþjónustu

Mikil stemmning hefur skapast í samfélagsþjónustunni við Seljalandsfoss en þar hafa skátarnir tekið hressilega til hendinni, týnt sorp og lagfærðt göngustíga.

Upplifun fyrir allan peninginn

Jóhanna Björk segir að jarðskjálftarnir í gær hafi aukið á spennustig þátttakenda þótt engin hætta væri á ferðum en það væri klárt að erlendu gestirnir væru að upplifa íslenska náttúru fyrir allan peninginn!

Róverskáta rómantík

Sterk vinatengsl hafa myndast á meðal þátttakendanna og eru birtingarmyndir þess með ýmsum hætti. Sem dæmi skapaðist óvissuástand eitt kvöldið þegar kom í ljós að einn þátttakandi hafði ekki skilað sér í tjaldið sitt. Hann fannst þó skömmu síðar…í öðru tjaldi.

Vaðandi róverskátarómantík ríkir í Heimalandi

Ljósmyndir: Björn Larsson

/gp

Skátafélagið Mosverjar í Mosfellsbæ sér um tjaldbúð World Scout Moot á Þingvöllum. Þar er nú risið 400 manna fjölþjóðlegt þorp sem fellur eins og flís við rass í skipulag þjóðgarðsins, litrík prýði og umgengni öll til fyrirmyndar.

Svæðið skartaði sínu fegursta þegar blaðamann Skátamála bar að garði. Tjaldbúðir skátanna snyrtilegar og vel skipulagðar, sól skein í heiði og kjarrið grænt inn í Bolabás. Ármannsfellið sannarlega fagurblátt og fannir Skjaldbreiðar blöstu við. Hraunið fyrir sunnan Eyktarás var reyndar hvergi sýnilegt enda er það örnefni uppspuni bræðranna Jónasar og Jóns Múla úr leikritinu Deleríum búbónis og kemur fyrir í laginu „Einu sinni á ágústkvöldi”. Bræðurna hefur eflaust vantað eitthvað snjallt til að ríma á móti „Bolabás” – góð hugmynd og eiginlega synd að við séum ekki fyrir löngu búin að skýra einhvern hraunklattann þessu góða nafni „Eyktarás”.

Eiríkur „bæjarstjóri” nýjasta úthverfis Mosfellsbæjar

Bæjarstjóri í sjálfboðavinnu

„Ég hef nú ekki haft samband við bæjarstjóra Mosfellsbæjar varðandi starfsheiti mitt hér í þessu nýjasta úthverfi Mosfellsbæjar en ég titla mig bæjarstjóra hér” segir Eiríkur Eiríksson Hjartar sem leiðir öflugt starf sjálfboðaliða úr Mosverjum og hóp af erlendu starfsliði á svæðinu.

„Ég er í símanum nánast allan daginn í minni vinnu og þykir sumum nóg um en ég held að ég hafi náð að toppa það algjörlega hér á Þingvöllum því ég er búinn að vera stöðugt í símanum til að greiða úr allskonar viðfangsefnum sem upp hafa komið” segir Eiríkur.

Eiríkur er einn af hundruðum sjálfboðaliða fullorðins fólks sem hefur ákveðið að leggja World Scout Moot lið með því að gefa sitt sumarleyfi í undirbúning, framkvæmd og frágang þessa umfangsmikla verkefnis.

90 prósent í góðu lagi – restin reddast

„Þetta er að slípast allt til, eðlilega margt sem kemur upp með svona stóran hóp og flókið dæmi en ég held að ég geti fullyrt að við séum 90% réttu megin við strikið – svo eru einhver 10% af veseni sem þarf að glíma við og því þarf bara að mæta og leysa úr – án þess væri þetta ekki nein alvöru áskorun. Úrlausnin á þessum 10% verður okkar háskólapróf í viðburðastjórnun” segir Eiríkur.

Skátar í matinn?

„Nei þetta er algjör misskilningur” segir Eiríkur þegar blaðamaður bendir á matseðil kvöldsins en þar stendur stórum stöfum: „Scout Bolognese”. „Ég fékk flott nautahakk sem ég nota í kvöldmatinn og það fara engir skátar ofan í þann pott”. Þess má geta að Eiríkur er annálaður matgæðingur og samhliða því að stýra tjaldbúðinni á Þingvöllum er hann öllum stundum í matartjaldinu að gera og græja.

Guðmundur Þór (t.v.) leggur á ráðin með Gunnari Mosverja.

Mögnuð dagskrá

„Við erum á frábærum stað og með magnaða dagskrá” segir Guðmundur Þór, einn af lykilmönnum nýja bæjarfélagsins. „Gönguferðir á Ármannsfell, Leggjabrjót frá Botnsdal og ferðir á Botnssúlur fyrir þá hressustu svo ekki sé minnst á ferð í Adrenalín-garðinn. Fræðslugöngur af ýmsu tagi eru í boði, landbætur á svæðinu, málstofa um sögu lýðræðis á Íslandi og fleira mætti nefna en kannski er mest um vert að vera og njóta félagsskaparins sem er hreint frábær” bætir Guðmundur við.

„Lokapunkturinn hérna verður svo dúndrandi kvöldvaka á föstudagskvöld hér á helgasta stað okkar Íslendinga og við vonumst til að með kröftugum söng og gleði náum við að endurvekja stemmninguna sem ríkti hér á þingum áður fyrr” segir Guðmundur og rýkur í burt til að skipuleggja sundferð fyrir sitt lið.

Marcin og Aleksandra frá Póllandi

Bíða eftir vaktaskiptum…og svo…

„Við eigum aðeins fimm mínútur eftir af okkar öryggisvakt og ætlum þá að smella okkur í rómantíska gönguferð eftir Almannagjá og inn að Öxarárfossi” segja þau Marcin og Aleksandra frá Póllandi en þau eru hér sem sjálfboðaliðar í alþjóðlegu starfsliði mótsins.

„…þetta ljúfa leyndarmál…”

Hvað sem öllu líður þá er greinilega í mörg horn að líta í þessu nýjasta úthverfi Mosfellsbæjar sem Mosverjar stýra með glæsibrag en eitt er víst að sitthvað mun gerast í dulitlu dragi, dulítið sem enginn veit.

Nánari upplýsingar um Moot á Þingvöllum veitir Eiríkur Eiríksson Hjartar: 897 1682.

/gp

Frábær dagur er nú að kvöldi komin á Akranesi þar sem eitt af ellefu skátaþorpum World Scout Moot 2017 reis í gær. Þátttakendur gista á tjaldsvæði bæjarins, nánast í fjöruborðinu og eiga varla til orð yfir frábærum mótttökum heimamanna og fegurð svæðisins. Snæfellsjökull rammaði inn tjaldbúðina…alveg þar til þokan læddist inn.

Eitt þeirra ellefu þorpa sem risu í gær á vegum World Scout Moot er staðsett á Skaganum og þar dvelja um 400 skátar í tjaldbúðum næstu daga. Veðrið og vináttan leikur við hvurn sinn fingur og það voru glaðir skátar sem mættu blaðamanni Skátamála þegar hann kom í heimsókn.

Bergný Sophusdóttir leiðir tjaldbúðina á Akranesi

Ómetanlegt fyrir skátastarfið hér á Skaganum

„Að fá tækifæri til þess að taka á móti þessum stóra og fjölbreytta hópi hingað á Akranes er ómetanlegt fyrir skátastarfið hér á Skaganum” segir Bergný Sophusdóttir sem fer fyrir fjölmennum hópi sjálfboðaliða heimafólks. „Þetta er auðvitað heilmikill biti fyrir okkar skátafélag en mér sýnist við ætla að ná að gera hér mjög gott mót og ekki skaðar hvað veðrið leikur við okkur svona í upphafi” bætir Bergný við.

„Tjaldbúðin fjölgar íbúum tímabundið mjög mikið og það er gríðarlega dýrmætt fyrir okkar skátafélag að fá alla þessa gesti sem nú vekja svo um munar athygli bæjarbúa á skátastarfinu. Okkar gestir taka auðvitað þátt í fjölbreyttri og spennandi dagskrá á okkar vegum en samhliða því munu þeir einnig leggja af mörkum fjölmargar vinnustundir í margvísleg samfélagsverkefni hér í bænum svo eftir verður tekið”.

Ekki bara börn í skátastarfi

Bergný bætir við að það sé einnig magnað að fylgjast með upplifun bæjarbúa þann stutta tíma sem skátarnir hafa dvalið í bænum. „Sú upplifun er sterk og á eftir að magnast enn næstu daga. Eitt af því sem er greinilega að koma fólki á óvart er að það eru ekki bara börn að stunda skátastarf heldur einnig ungt fólk og fullorðnir. Gestir okkar eru á aldrinum 18-25 ára og ég hef séð að unga fólkið hér í bænum er forvitið og fylgist með jafnöldrum sínum frá ýmsum þjóðlöndum fara hér um bæinn hlæjandi og glöð – það á pottþétt eftir að skila sér í auknum áhuga.

Svo má ekki gleyma okkur „gamla genginu” sem stöndum á bak við þetta sem sjálfboðaliðar og berum þetta uppi með góðri hjálp fullorðinna sjálfboðaliða úr röðum erlendra skáta. „Eldra liðið” í bænum fær eflaust enn jákvæðara viðhorf til skátastarfsins eftir þetta ævintýri hér á Skaganum sem gaman verður að byggja á til sóknar enda á skátastarf hér í bænum sér langa sögu og stendur á gömlum merg þótt stundum hafi blásið örlítið á móti en nú blæs pottþétt með okkur og í rétta átt” segir Bergrún.

Ritesh Bhola frá Trinidad og Tobago

Jack Sparrow og Karabíska hafið

Það er svo sannarlega alþjóðleg stemmning á svæðinu og því til staðfestingar mæltum við okkur mót við nýjasta vin okkar, Ritesh Bhola frá Trinidad og Tobago. Ritesh byrjaði spjallið á að útskýra landafræðina til að koma okkur í skilning hvaðan hann væri en blaðamaður var ekki alveg með á nótunum, kannaðist reyndar við fátt nema enska framburðinn sem var mjög kunnuglegur og bar það upp í spjallinu. Þá færðist breitt bros yfir andlits Ritesh og hann spurði hvort við þekktum sjóræningja að nafni Jack Sparrow. Þá kviknaði loksins á perunni hjá blaðamanni sem hefur séð allar bíómyndirnar um þann kappa og ævintýri hans í Karabíska hafinu.

Á mótinu eru 7 skátar frá þessu fallega landi og þau mættu til landsins viku fyrir Moot og nýttu tímann til ferðalaga. „Við fórum Gullna Hringinn og ég hef aldrei séð neitt jafn fallegt og við sáum í þeirri ferð” segir Ritesh. Hópurinn heldur til Hollands eftir Moot og ætlar að ferðast um Evrópu í eina viku. „Við erum að gera eins mikið úr þessu og við getum enda hefur ekkert okkar komið til Evrópu áður”.

Öryggi þátttakenda í algjörum forgangi

Jón og Siggi félagsforingi stýra dagskránni við Langasand

„Þokan þvældist fyrir okkur eftir hádegið í dag og því ákváðum við að leyfa engar siglingar enda skiptir öryggi þátttakenda okkur öllu máli” segir Sigurður Óskar Guðmundsson, félagsforingi Skátafélags Akraness. „Við erum hér með helling af bátum frá Mosverjum og Úlfljótsvatni og hópurinn sem kom í morgun sigldi hér með okkur um svæðið og buslaði í sjónum en nú þegar þokan lagðist yfir verður erfitt fyrir bátinn frá björgunarsveitinni að hafa yfirsýn og því tók ég þá ákvörðun að leyfa ekki neinar siglingar, amk. þar til þokunni léttir”.

Þátttakendur létu það ekki á sig fá heldur brugðu sér í leiki og busl og skemmtu sér hið besta. „Ég reyni að bæta þessum hópi þetta upp einhvern næstu daga og kannski fá þau bara rómantíska kvöldsiglingu í sárabætur eitthvað kvöldið”.

 

Þröstur Ólafsson

Skógar-yoga, samfélagsverkefni og skemmtilegheit

„Við erum sæmilega slök þótt ýmislegt þurfi að gera og græja” segir Þröstur Ólafsson (Spörri) en hann er einn af fjölmörgum sjálfboðaliðum verkefnisins. Þröstur er skáti úr Borgarnesi og hefur mikla reynslu af alþjóðlegu skátastarfi, farið á Jamboree og tók þátt í World Scout Moot í Kandersteg í Sviss árið 1992.

„Við nýtum umhverfið okkar vel í dagskrá og bjóðum upp á fjallgöngu og klifur á Akrafjall, sólböð, sandkastalagerð og bátadagskrá á Langasandi, skógar-yoga á svæði Skógræktarfélagsins svo nokkuð sé nefnt. Auk þess hefur hópurinn nú þegar málað glugga skátaheimilisins, þrifið fjöruna hér við tjaldsvæðið og fleira sem eftir verður tekið og þau voru nú bara rétt að koma á svæðið” segir Þröstur hlægjandi.

Jákvæð áhrif

Af þessari heimsókn okkar á Akranes í dag er staðfest að áhrif Moot á þau svæði sem mótið hefur snertingu við verða bæði mikil og jákvæð. Skátamál.is munu fylgjast vel með á næstu dögum og flytja fréttir og fróðleik til ykkar sem heima sitjið.

:: Fleiri myndir á Facebook-síðunni „Skátarnir”

Mæðgurnar Guðný og Bergný bjóða upp á Skógar-yoga á svæði Skógræktarinnar.

Nánari upplýsingar um Moot á Akranesi veitir Bergný Sophusdóttir: 862 2035

/gp

Þeir Nikolaus og Alexander eru frá Graz í Austurríki og voru önnum kafnir við að koma upp tjaldbúð á Víðistaðatúni í Hafnarfirði þegar blaðamann Skátamála bar að garði.

Þeir eru báðir hér í sinni fyrstu heimsókn og eru gríðarlega ánægðir með heimsóknina fram að þessu. „Við erum rétt að átta okkur á því að draumurinn er að rætast“ segir Nikolaus og bætir við að þeir félagarnir séu búnir að telja dagana síðustu mánuðina. „Austurríki er fimmta stærsta þátttökuþjóðin á Moot enda er róverstarf mjög öflugt hjá okkur“ bætir Alexander við.

Aðspurðir um EM kvenna í knattspyrnu og leik Íslands og Austurríkis á morgun sögðust þeir heiðarlega ekki hafa það efst í huga þessa stundina en ef til þess kæmi að þeir myndu sjá leikinn þá væri líklega skynsamlegast að hvetja íslenska liðið.

Ætlar að njóta lífsins

Yaka frá Brasilíu

Yaka frá Brasilíu segir sitt markmið með þátttöku í mótinu vera einfalt: „Ég ætla að njóta lífsins, eignast helling af nýjum vinum og skemmta mér. Ég er að koma til Íslands í fyrsta skipti en kannski skiptir engu máli hvar ég er svo lengi sem ég er innan um svona mikið af frábæru fólki – þetta verður bara gaman“.

Sessunautur hennar Alex er líka frá Brasilíu og þau hafa nú þegar eignast dýrmætan vin; Billy frá Taiwan. „Það small eitthvað hjá okkur þremur og við erum að ná saman. Okkur hlakkar mikið til næstu daga og vonum bara að það verði ekki kalt”, segir Billy.

Alex frá Brasilíu og Billy frá Taiwan

Flottasta kaffihúsið

„Hér er flottasta kaffihúsið á landinu og þú verður að koma og skoða” segir Sigríður Júlía og kippir blaðamanni inn í stórt tjald sem er ævintýri líkast. „Hér höfum við sett upp kaffihús fyrir okkar gesti og útbúið það í alþjóðlegum stíl. Hér eru teppi á tjaldveggjum úr öllum heimshornum, stólar og sófi úr íslenskum heyböggum og sitthvað fleira notalegt. Kaffihúsið okkar er reyndar pínu sérstakt að því leyti að allir gestir þurfa að koma með sína eigin bolla – þannig spörum við auðvitað uppvask og leggjum okkar af mörkum við að standa fyrir sæmilega umhverfisvænum viðburði“.

Claus, Ásdís, Sigríður Júlía og Fríða bera ábyrgð á flottasta kaffihúsi landsins

Frábær byrjun

Guðni Gíslason leiðir tjaldbúð Moot í Hafnarfirði

„Þetta hefur farið frábærlega af stað” segir Guðni Gíslason sem fer fyrir fríðum flokki í Hafnarfirði en þegar blaðamann Skátamála bar að garði voru aðeins liðnar nokkrar klukkustundir frá því að hópurinn hafði mætt á svæðið. „Það eru allir búnir að koma upp sínum tjöldum til að gista í og nú erum við að setja upp sameiginlega aðstöðu í nokkrum stórtjöldum hér á túninu” bætir Guðni við. Hann er bjartsýnn á næstu daga enda veður gott, þátttakendur áhugasamir og starfsfólkið frábært. „Við Hafnfirðingar búum vel hvað varðar sjálfboðaliða, hér hafa Gildisskátar og fleiri komið að sem eru að vinna hreint frábæra vinnu og ég sé ekki betur en að sá hluti mótsins sem fram fer hér í Hafnarfirði verði bara tær gleði og hamingja“.

:: Sjá fleiri myndir frá Hafnarfirði

Nánari upplýsingar um Moot í Hafnarfirði veitir Guðni Gíslason: 896 4613

/gp

„Þið tilheyrið alheimsfjölskyldu sem telur ríflega 40 milljón fjölskyldumeðlimi. Stúlkur og drengir, konur og menn á öllum aldri af ólíkum kynþáttum sem aðhyllast mismunandi trúarbrögð, hafa ólíka menntun og félagslega stöðu. Við erum ólík en við höfum sameiginleg gildi; tryggð, virðingu, vináttu, umhyggju fyrir öðrum og hjálpsemi svo nokkur slík séu nefnd“, sagði Joao Consalves, formaður alheimsstjórnar skátahreyfingarinnar, í ávarpi sínu á opnunarathöfn World Scout Moot sem sett var í Laugardalshöll í morgun.

Ríflega 5.000 skátar frá 96 þjóðlöndum troðfylltu höllina á opnunarathöfninni en þetta alþjóðlega skátamót er fyrir ungt fólk á aldrinum 18-25 ára.

Uppfræðsla og umburðarlyndi

„Þrátt fyrir að ýmsilegt sé ólíkt með okkur þá viljum við öll það sama – að lifa hamingjusömu lífi í friðsælum heimi. Við viljum veröld þar sem við veljum að eiga vini en ekki óvini, þar sem börnin okkar alast upp við uppfræðslu en ekki fáfræði og umburðarlyndi er fyrir skoðunum okkar og viðfangsefnum“ sagði Hrönn Pétursdóttir, mótsstjóri World Scout Moot þegar hún ávarpaði mótsgesti.

Í ávarpi Hrannar kom einnig fram að íslenskir skátar hafa unnið hörðum höndum að undirbúningi mótsins frá árinu 2013 og nú þegar á hólminn er komið eru um 450 íslenskir sjálfboðaliðar í margvíslegum störfum fyrir mótið auk þeirra rúmlega 600 erlendu sjálfboðaliða sem mættir eru til leiks. Heildarfjöldi fullorðinna sjálfboðaliða er yfir 1.000 og notaði Hrönn tækifærið til að þakka þeim öllum fyrir sitt óeigingjarna framlag.

Hvatningar frá ráðherra og Reykjavíkurborg

Þeir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og Þórgnýr Thoroddsen, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur fluttu einnig ávörp og hvöttu mótsgesti til að nýta sér í botn þennan einstaka viðburð, eignast nýja vini, láta gott af sér leiða og skemmta sér. Þeir Guðlaugur Þór og Þórgnýr eru báðir skátar og sá síðarnefndi er sjálfboðaliði í undirbúningsteymi mótsins.

Að lokinni opnunarathöfn héldu skátar á 11 mismunandi staði, víðsvegar um landið þar sem þeir munu dvelja við leik og störf fram á laugardag en þá sameinast allur hópurinn á Úlfljótsvatni og dvelur þar saman til 2. ágúst.

Fleiri myndir frá setningarathöfninni koma inn síðar í dag.

/gp