Á stjórnarfundi 6. febrúar 2018 undir liðnum “Úrvinnsla úr vinnugögnum félagsforingjafundar 3. febrúar” var ákveðið að setja í gang nokkra vinnuhópa með tilheyrandi útköllum

1. Vinnuhópur um félagaþrennuna Tímabil: 3. mars – 31. maí 2018

Stjórn BÍS hefur undanfarið kynnt sér nýjungar sem Finnar eru að taka í notkun varðandi stjórnir skátafélaga og við köllum „félagaþrennuna“.

Í stuttu máli byggir félagaþrennan á því að í hverju skátafélagi eru þrír aðilar sem mynda innsta kjarna stjórnar, þ.e. félagsforingi, dagskrárforingi og sjálfboðaliðaforingi. Markmiðið er að dreifa ábyrgð innan félagsins skipulega og veita markvissari stuðning inn í félögin í gegnum þessi nýju hlutverk. Vinnuhópur um félagaþrennuna myndi skilgreina hvað felst í þessu verkefni, gera lýsingar fyrir hvert hlutverk og ábyrgðarsvið þess.

Almennur áhugi er meðal skátafélaga á þessu fyrirkomulagi og nokkur félög hafa lýst sig reiðubúin að prufukeyra félagaþrennuna.

Við leitum að öflugu fólki með áhuga/þekkingu á stjórnun skátafélaga, einkum á sviði:

· Mannauðsmála

· Dagskrármála og viðfangsefnum skátastarfs

· Félagsstjórnunar skátafélaga

Nánari upplýsingar veitir: Björk Norðdahl formaður fræðsluráðs, bjork@skatar.is Umsóknir sendist á netfangið veramemm@skatar.is

::Umsóknareyðublað má finna hér.

Umsóknarfrestur er til 28. febrúar 2018.

Fulltrúar úr stjórn BÍS skipa í vinnuhópinn og umsækjendum verður svarað fyrir 3. mars nk.

2. Vinnuhópur um fræðslu og námskeið

Tímabil: 3. mars – 31. maí 2018

Hvernig námskeið eiga að vera í boði á vegum BÍS?

Hópurinn vinnur að því að þróa innihald fræðslu og uppbyggingu námskeiðahalds. Fræðslan er ætluð skátum frá 16 ára aldri til að búa þá undir foringjastörf sem og að styrkja eldri foringja í starfi.

Við leitum að öflugu fólki með áhuga/þekkingu á skátastarfi.

Æskileg er að umsækjendur hafi reynslu af einhverju af eftirfarandi:

· Reynsla af foringjastörfum í skátastarfi

· Reynsla af kennslu á námskeiðum

· Þekking á uppeldis/kennslufræðum

Nánari upplýsingar veitir: Harpa Ósk Valgeirsdóttir formaður dagskrárráðs harpa@skatar.is Umsóknir sendist á netfangið veramemm@skatar.is

::Umsóknareyðublað er að finna hér.

Umsóknarfrestur er til 28. febrúar 2018.

Fulltrúar úr stjórn BÍS skipa í vinnuhópinn og umsækjendum verður svarað fyrir 3. mars nk.

3. Vinnuhópur um einföldun á stjórnskipulagi BÍS

Tímabil: 3. mars – 15. febrúar 2019

Í dag starfa 7 ráð með 4 kjörnum fulltrúum ásamt formanni sem einnig situr í stjórn BÍS. Á félagsforingjafundi í febrúar sl. kom í ljós að margir telja að kerfið okkar gæti verið skilvirkara. Markmið þessa vinnuhóps verður því að finna leiðir til að einfalda stjórnskipulagið og „minnka báknið”.

Við leitum að öflugu fólki með áhuga á að einfalda stjórnskipulag BÍS.

Æskileg er að umsækjendur hafi reynslu af einhverju af eftirfarandi:

· Áhugi/þekking á stjórnun og skipulagi félagasamtaka

· Þekking á starfsemi skátafélaga og Bandalagi íslenskra skáta

Nánari upplýsingar veitir: Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi marta@skatar.is Umsóknir sendist á netfangið veramemm@skatar.is

::Umsóknareyðublað má finna hér.

Umsóknarfrestur er til 28. febrúar 2018.

Fulltrúar úr stjórn BÍS skipa í vinnuhópinn og umsækjendum verður svarað fyrir 3. mars nk.

4. Vinnuhópur um endurskoðun á skátabúningnum

Tímabil: 3. mars – 15. febrúar 2019

Mikil umræða hefur verið um íslenska skátabúninginn. Markmið verkefnisins er að gera skátabúninginn að samstöðutákni íslenskra skáta og jafnframt sýnilegan í íslensku samfélagi með það að markmiði að fleiri ungmenni gerist merðlimir í skátahreyfingunni og upplifi skátaævintýrið.

Vinnuhópurinn mun vinna eftir ferli sem miðar því að svara spurningunni „Hvernig vilja íslenskir skátar að skátabúningurinn verði í framtíðinni og hvenær vilja þeir nota hann“? Miðað er að því að koma með tillögur að nýjum skátabúning. Ef nýja hugmyndin verður samþykkt af 2/3 hluta atkvæða á Skátaþingi 2019 fer skátabúningurinn í framleiðslu og sölu og verður opinber búningur íslenskra skáta sem starfa undir merkjum Bandalags íslenskra skáta. Sjá nánar drög að vinnuferli um skátabúninginn.

Auglýst er eftir:

Ráðgjöfum með menntun, reynslu og þekkingu:

· Á sviði hönnunar

· Á sviði markaðsmála/ímyndarmála

Jafnframt er auglýst eftir 6 rekka- og róverskátum.

Skátarnir skulu vera aðilar sem þykja vera til fyrirmyndar í skátastarfi og hafa brennandi áhuga á að nútímavæða ímynd skátastarfs til að hreyfingin vaxi og dafni.

Nánari upplýsingar veitir: Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi marta@skatar.is Umsóknir sendist á netfangið veramemm@skatar.is

::Umsóknareyðublað má finna hér.

Umsóknarfrestur er til 28. febrúar 2018.

Fulltrúar úr stjórn BÍS skipa í vinnuhópinn og umsækjendum verður svarað fyrir 3. mars nk.

Vetraráskorun Crean lauk í gær og tókst ótrúlega vel til!

Á Crean takast dróttskátar á við hin ýmsu verkefni og upplifa magnaðar áskoranir og krefjandi útivist.

Dagskráin á Crean er full af skemmtilegri og spennandi reynslu! Þátttekendur spreyta sig í rötun, útivist og skyndihjálp. Þau læra og æfa sig í samvinnu, leiðtoga hæfileikum, eignast nýja vini og lenda í ótrúlegum ævintýrum í baráttu sinni við íslenska veðráttu!

Hópur af írskum skátum komu til Íslands og tóku þátt í þessum skemmtilega viðburði með íslensku skátunum en Crean hefur verið samstarfsverkefni milli íslenska og írska bandalagsins til nokkura ára.

Eins og Íslendingar hafa tekið eftir hefur veðrið ekki verið að leika við landsmenn þessa dagana en skátarnir á Crean létu það ekki stoppa sig!

 

 

Í fyrsta skipti í sögu Crean þurfti að aflýsa gönguferðinni frá Úlfljótsvatni upp á Hellisheiði, sem er fastur liður í dagskránni, vegna veðurs. Þau hafa

 frestað göngunni áður vegna veðurs en í ár þurftu þau að finna aðra lausn á málinu. Þau breyttu dagskránni nokkrum sinnum, en alltaf var veðrið að stríða þeim. Þau gátu ekki gengið í Hveragerði og enduðu svo á að vera hreinlega veðurteppt á Úlfljótsvatni megnið af tímanum. Seinasta daginn fóru þau í um 16 km göngu í kringum Mosfellsbæ og upp á Úlfarsfell. Jafnvel þó þau hefðu verið veðurteppt fóru þau samt í margar gönguferðir og léku sér í snjónum ásamt því að læra ýmsa hluti um vetrarskátun og útivist. Þau fengu meðal annars að upplifa útivist í allt að -20°c frosti og 150 cm djúpum snjó! Þátttakendur voru mjög ánægðir með viðburðinn og þau fengu vonda veðrið sem þau höfðu verið að vonast eftir fyrir helgi, til að skapa kjör aðstæður fyrir krefjandi reynslu vetrarskátunar. Þeim tókst með afbragði vel að framkvæma alla dagskrá þrátt fyrir ofsaveður og mikil snjóþyngsli, og fengu frábært tækifæri til að upplifa áskoranir vetrarins!

 

 

*Frétt send á helstu fjölmiðla landsins 09.02.18

Snjókoma og veðurofsi eru á óskalista ungra skáta frá Ísland og Írlandi sem ætla meðal annars að gista í snjóhúsum og læra grunnatriði vetrarferðamennsku.  Vetraráskorunin er vikulöng, skátarnir verða á Úlfljótsvatni 9.-13. febrúar nk við þjálfun og fræðslu. Þaðan verður gengið upp á Hellisheiði 13. febrúar og dvalið í tvær nætur þar sem reynir á flest það sem skátarnir hafa lært. Írarnir fljúga síðan heim á leið 16. febrúar. Þessi vetraráskorun mælst vel meðal skáta á undanförnum árum og komast færri að en vilja. Skátarnir eru á aldrinum 13-15 ára og eru búnir að fara í gegnum undirbúningsnámskeið.

Skátahöfðingi Íslands, Marta Magnúsdóttir, segir þetta mikilvæga æfingu fyrir ungt fólk sem margt hvert þekkir bara vetrarveður í gegnum gluggann á heimilinu sínu.  ”Reynsla undanfarinna ára sýnir að skátarnir sem taka þátt í þessu upplifa þessa útivist sem ógleymanlega og eru duglegir við að segja frá og miðla áfram því sem þeir lærðu.”

Þetta verkefni er samstarfsverkefni íslenskra og írskra skáta og gengur undir nafninu Crean í höfuðið á írska landkönnuðinum Tom Crean. Marta segir að þessi vetraráskorun sé gott dæmi um ögrandi vetrarverkefni sem hjálpar þátttakendum að læra og eflast í takt við markmið skátahreyfingarinnar.

Um helgina var haldið stærsta Ungmennaþing skáta á Íslandi fram til þessa þegar hátt í 40 skátar mættu á Úlfljótsvatn.

Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi setti þingið á föstudagskvöldið. Hún flutti ávarp þar sem hún talaði um mikilvægi þess að unga fólkið tæki virkan þátt í skátastarfi í dag og að þeirra skoðun skipti miklu máli.

„Unga fólkið er ekki framtíðin, það er nútíðin“.

Þessi orð frá Mörtu voru svo sannarlega lýsandi fyrir anda helgarinnar. Dagskrá föstudagsins endaði með spurningakeppninni „Ertu skarpari en fálkaskáti?“ en þau Benedikt Þorgilsson og Hulda María Valgeirsdóttir unnu keppnina.

Ungmennaþing 2018

Skátarnir að þinga!

Á laugardeginum fræddust þátttakendur um Skátaþing og hvernig á að komast í ráð og nefndir.  Einnig var fjallað um jafningjafræðslu og radíóskátun. Þátttakendur fengu kynningar á alþjóðlegum viðburðum framundan s.s. Agora, Jamboree 2019 og Landsmóti rekka- og róverskáta í sumar. Í Skátamasinu var rætt um hin ýmsu málefni eins og vefsíðu skátanna, fjölgun í skátastarfi, róverskátar 100 ára, sveitaforingjann o.fl. Ekki má gleyma leikjunum sem var farið í á milli dagskrárliða en það var Urður Björg Gísladóttir sem vann stólaleikinn mikla.

 

Þá var komið að þinginu sjálfu. Þar var mikið rætt og þá sérstaklega um aldur félagsforingja og að ungmenni hefðu aukin atkvæðarétt fyrir hönd skátafélaga á skátaþingi. Eftir þinghöld var komið að því sem allir biðu eftir. Fyrstu árshátíð rekka- og róverskáta á Íslandi. Allir fóru í sitt fínasta púss og komu saman í matsalnum þar sem boðið var upp á þriggja rétta máltíð. Síðan var haldið í Norðursal þar sem dansað var fram eftir kvöldi.

Þegar búið var að þrífa Úlfljótsvatn á sunnudeginum var ákveðið að kíkja á Fræðasetur skáta þar sem Gunnar Atlason fræddi okkur um sögu skátastarfs á Íslandi. Helginni lauk svo í sundlaugarpartýi á Selfossi og fóru þátttakendurnir fullir eldmóðs heim, sannfærðir um að unga fólkið muni breyta heiminum!