Hér kemur ferðasaga Pepphópsins frá Eyja-peppi;

Þátttakendur djúpt í skipulagningu…

Hundrað skáta hópur er kominn til Vestmanneyja, ferðalagið gekk mjög vel, allir hressir en margir þreyttir  Nú eru allir búnir að velja sér dagskrá fyrir daginn, og verður spennandi að sjá hvernig flokkunum gengur að þræða sig í gegn um dagskrárhringinn 

Peppaðir skátar í Herjólfi!

Hér í Eyjum hefur allt gengið eins og í sögu, hér eru hressir dróttskátar á leiðinni í sund og rekkaskátar og róverskátar eru að setja upp póstaleik fyrir skátana í Vestmanneyjum.

Brottför áætluð kl.16 með Herjólfi, skátarnir fá Selfossi fara einnig með rútunni þar sem strætó kemur ekki fyrr en seinna í kvöld. Gerum ráð fyrir að vera komin á Selfoss við FSU kl.18:00 og í Hraunbæ 123 kl.19:00.

Ferðasöguna og myndir má finna á Facebook síðu Skátapepps.

Í dag hófst 36. heimsþing kvenskáta sem haldið er í Delí, höfuðborg Indlands. Þingið er það fjölsóttasta frá upphafi og eru þar þáttakendur frá 119 lönd. Marta Magnúsdóttir (skátahöfðingi) og Dagmar Ýr Ólafsdóttir (aðstoðar skátahöfðingi) eru fulltrúar íslensku skátahreyfingarinnar á þinginu.

Það var mikil gleði sem ríkti í lok dagsins þegar 4 bandalög fengu formlega inngöngu í Heimshreyfingu kvenskskáta (e. WAGGGS). Við bjóðum eftirfarandi bandalögum hjartanlega velkomin:
Sýrland, Arúba, Azerbaijan og Palestína. 


Fylgist með komandi fréttum frá íslenska fararhópnum í Delí!

Einnig er hægt að fylgjast með opinberu facebooksíðu WAGGGS hér. 

 

Fríður flokkur frá Fræðasetri skáta tók þátt í ráðstefnu norrænna skátasafna sem fram fór í Finnlandi um síðustu helgi. Norrænu skátasöfnin hafa með sér þétt samstarf og hafa komið saman til skrafs og ráðagerða annað hvert ár síðan 1985. Af einhverjum ástæðum hafa íslenskir skátar ekki verið með í þessum hópi þar til nú.

Frá setningu ráðstefnunnar.

Stukkum á þetta tækifæri

Norðurlöndin hafa skipst á að halda ráðstefnuna og í ár var komið að Finnlandi. Formaður ráðstefnunefndar, Matti Helanko, hafði fregnir af starfsemi Fræðasetursins í gegnum vinkonu sína, Danfríði Skarphéðinsdóttur sem kom á tengslum á milli hans, Fræðasetursins og Minjanefndar skáta og í kjölfarið barst þessum aðilum boð um að taka þátt.

„Við hjá Fræðasetri skáta vorum ekki seinir á okkur og stukkum á þetta tækifæri“ segir Gunnar Atlason fararstjóri íslenska hópsins. „Okkar starfsemi hérlendis er ung að árum og við gerðum okkur strax grein fyrir því að það væri mikilvægt að mæta, byggja upp tengslanet, læra og fræðast af nágrönnum okkar“.

Gunnar segir að það sé umhugsunarefni að safnastarfsemi skáta skuli ekki hafa verið sýndur sami áhugi hérlendis og tíðkist t.d. á Norðurlöndunum en þar eru dæmi um lifandi söfn sem hafa starfað í meira en fimm áratugi og séu virkir gerendur í skátastarfinu með sínu starfi.

Safna, sýna og skapa upplifun

„Við hjá Fræðasetri skáta brennum fyrir því að safna og sýna skátamuni og minjar og því var gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að mæta á svæðið, segja frá okkar starfi og kynnast því sem aðrir eru að gera” segir Páll Viggósson, einn þátttakenda.

„Eitt af því mikilvægasta sem við tökum með okkur úr þessari ferð er metnaður norrænu safnanna til að vera virkir þátttakendur í skátastarfinu með lifandi safnastarfsemi – það er fáum til gagns að safna skjölum og dóti á bak við luktar dyr – ungu skátarnir þurfa að komast í tæri við söguna með áþreifanlegum hætti og það er einmitt það sem við höfum lagt áherslu á í Fræðasetrinu við Úlfljótsvatn“ bætir Páll við.

Í finnskum fjallaskála: Gauti, Gunnar, Páll, Atli og Sturla.

Nina frá Finnlandi að segja dönskum kollegum sínum eitthvað merkilegt.

Virk þátttaka skiptir máli

Atli Bachmann segir að virk þátttaka skipti máli. „Það var sérstaklega gaman að heyra frá dönsku söfnunum og samstarfi þeirra á landsmóti danskra skáta nú í sumar. Söfnin eru 8 talsins og þau sameinuðust flest í vinsælu dagskráratriði á landsmótinu þeirra. Um 36.000 skátar tóku þátt í mótinu og u.þ.b. 1.500 skátar fóru í gegnum safnatjaldið á degi hverjum.

„Þau settu upp áhugaverð verkefni, voru með bíótjald og buðu upp á dagskrá sem tengdi það gamla og nýja sem sló í gegn. Elda á gömlum tækjum, rata eftir áttavita, kveikja upp eld, máta gamla skátabúninga, prófa viðlegubúnað frá fyrri tíð o.s.frv. – við munum fá alla þessa pósta senda til okkar og getum vonandi nýtt þá á Fræðasetrinu“, segir Atli.

Gunnar Atlason og Atli B. Bachmann.

Sjálfborgandi sjálfboðaliðar

„Við leituðum til BÍS eftir fjárhagslegum stuðningi vegna þátttökunnar en fengum ekki“ segir Guðmundur Pálsson. „Það aftraði okkur hinsvegar ekki frá því að fara og var allur kostnaður greiddur úr vasa hvers og eins. Flug, ráðstefnugjald, gisting og fæði er u.þ.b. 150.000 kr. á mann. Það má því segja að við félagarnir í Fræðasetri skáta höfum fjárfest 900.000 kr. úr eigin vasa í að afla okkur þekkingar sem Bandalag íslenskra skáta hefði fyrir löngu átt að vera búið að fjárfesta í“ bætir Guðmundur við.

Er þá ótalinn kostnaður hvers og eins vegna sumarleyfisdaga og fjarvista frá fjölskyldu.

Hverrar krónu virði

„Þessi ferð var hverrar krónu virði og miklu meira en það” segja þeir Gauti Torfason og Sturla Bragason frá Fræðasetrinu. „Á þessari helgi fengum við staðfestingu og viðurkenningu á því að við værum að feta rétta leið með starfi okkar á Fræðasetrinu og auk þess erum við nú komin formlega í hóp viðurkenndra skátasafna á Norðurlöndunum og það er verulegur slagkraftur í því samstarfi” segir Gauti.

Sigling um skerjagarðinn.

Forskot á sæluna

„Við tókum smá forskot á sæluna og mættum til Helsinki þremur dögum fyrir ráðstefnuna og nýttum tímann til að kynna okkur söfnin á svæðinu og kynna okkur hvernig menn eru að setja upp sýningar“ segir Sturla. „Við heimsóttum þjóðminjasafn Finna, skoðuðum Sibelius-garðinn, steinkirkjuna og fleira en mest þótt mér koma til Nýlistasafnsins og Ólympiuþorpsins – af þessum stöðum má margt læra“.

Ráðstefnan á Íslandi 2021

Norðmenn munu halda næstu ráðstefnu sem fram fer í Osló árið 2019. Við slitin var borin upp formleg tillaga þess efnis að óska eftir að íslenskir skátar myndu taka að sér að halda ráðstefnuna árið 2021 og tóku íslensku fulltrúarnir vel í þá ósk og var því fagnað með lófataki.

Það er því ljóst að íslenskra skáta bíður ærið verkefni, undir stjórn Fræðaseturs skáta, að undirbúa næstu ráðstefnu.

:: Sjá fleiri myndir

 

Skráning lokar eftir tvo daga og álagið á Nóra fer stigvaxandi. Gert er ráð fyrir að það nái hámarki á sunnudag klukkan 17:00, þegar þeir sem ekki hafa skráð sig vakna af værum draumi og minnast þess að hugurinn ber þig aðeins hálfa leið og Herjólfur ber þig restina. Eða verður það Herjólfur?

Þeirri spurningu og svo ótalmörgum öðrum færð þú aðeins svar við ef þú mætir á EyjaPepp. Hvað sem úr verður, er skráning á viðburðinn lykillinn að þátttöku.

Pepphópurinn hefur að þessu sinni hugsað út fyrir landsteinana í leit að dagskrárefni og ævintýralegri umgjörð og mega þátttakendur búast við því að upplifunin verði hress og pepp.

Peppkveðja –

Pepphópurinn