Úlfljótsvatn: allir á batavegi

Skátarnir sem fengu magakveisu á Úlfljótsvatni eru allir á góðum batavegi og munu væntanlega langflestir útskrifast af fjöldahjálparstöðinni í kvöld eða á morgun. Búið er að gera ráðstafanir vegna gistingu fyrir þá þegar þeir útskrifast. Þeir sem þurfa munu fá nýjan viðlegubúnað í stað þess sem eyðilaðist í veikindunum. Það eru skátar að taka saman eigur skátana og koma þeim til þeirra í Hveragerði en skátarnir þurftu að skilja allan búnaðinn sinn eftir í nótt þegar þau fóru í fjöldahjálparstöðina í Hveragerði. Búið er að senda skátana sem ekki veiktust í Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði og skátaheimilið í Hveragerði. Sóttvarnarlæknir hefur gefið út staðfestingu á því að um sé að ræða Nóróveiru. Skátarnir sem veiktust munu hins vegar búa áfram í grunnskólanum í Hveragerði fram á sunnudag. Það voru alls 63 erlendir skáta sem sýktust af Nóró veirunni. Fylgst verður með skátunum áfram og gripið til aðgerða ef vart verður við einkenni að nýju.

Heilbrigðiseftirlitið vann við rannsóknir við Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni í dag og tók sýni. Heilbrigðisteftirlitið gaf skátunum leyfi til þess að grípa til viðeigandi aðgerða til að sótthreinsa svæðið þannig að unnt sé að opna það að nýju. Stefnt er að því að opna svæðið strax á sunnudagskvöld.

Hermann Sigurðsson framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta segir að Bandalagið harmi þennan atburð en segist vera ánægður hve skjótt var brugðist við og að allir skátarnir sem sýktust muni ná sér að fullu. Hann segir að ennfremur að fyrirhugað skátamót ,,Camp Iceland“ sem átti að vera á Úlfljótsvatni hefur verið fært í Hafnarfjörð þar sem dagskrá mótsins verður aðlöguð nýjum aðstæðum.

Hermann segir að það sé ljós í myrkrinu að Nóró veiran hafi ekki farið að grassera þegar voru um 5.000 erlendir skátar á svæðinu á alþjóðlega skátamótinu sem er nýlokið.

Hermann þakkar heilbrigðisyfirvöldum og viðbragðsaðilum fyrir skjót viðbrögð.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar