Tímamót á skátaþingi

Á skátaþingi sem haldið var um helgina urðu mikil tímamót. Ný stefna með sóknarhug til 2020 var samþykkt, grundvallarbreytingar voru gerðar á lögum Bandalags íslenskra skáta (BÍS) og einnig leit nýtt skátaheit leit dagsins ljós eftir miklar umræður á liðnum árum.
BB-myndir

Miklar breytingar lágu fyrir skátaþingi.

Í stefnumótuninni var hnykkt á meginmarkmiði skátanna, sem er að veita ungu fólki tækifæri til að verða sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu.  Skátahreyfingin vill stuðla að uppeldi og menntun með lífsgildum sem byggja á skátaheiti og skátalögum. Leitast er við að skapa betri heim þar sem hver einstaklingur hefur tilgang og gegnir mikilvægu hlutverki til uppbyggingar samfélagsins.

Fjölbreytni og samfélagsleg þátttaka eru áherslumál

Stefna á að fjölgun starfandi skáta þannig að árið 2020 verði yfir 5000 skátar starfandi í öllum helstu þéttbýliskjörnum landsins.  Í stefnuskjalinu eru markmiðin sett fram í sex flokkum en þeir eru:

 • Þátttaka ungmenna. Skátastarf á að veita ungu fólki tækifæri til að þroska hæfileika sína og efla þekkingu sem gagnast við virka þátttöku í hreyfingunni, sem og í samfélaginu í heild.
 • Samráð á skátaþingi

  Samráð á skátaþingi

  Uppeldis og menntunaraðferðir. Starfsgrunnur skáta skapar aðstæður fyrir óformlegt menntakerfi þar sem Skátaaðferðinni er beitt við að efla getu ungs fólks til að takast á við verkefni framtíðarinnar.

 • Fjölbreytni og samþætting. Skátar ætla að endurspegla margbreytileika samfélagsins og bjóða með virkum hætti öllum að taka þátt. Fjölbreytileikinn á ekki eingöngu að birtast í þátttökunni heldur einnig verkefnum sem skátarnir taka sér fyrir hendur.
 • Samfélagsleg þátttaka. Allir skátar ættu að taka virkan þátt í starfi samfélagsins og deila þeirri reynslu sinni öðrum til hvatningar þannig að fleiri taki þátt í ákvörðunartöku í samfélaginu, nýti sér kosningarétt og stuðli að virku lýðræði. Með virkni og verkefnum leiða skátar til jákvæðra breytinga.
 • Miðlun og samskipti. Skátar eiga að sýna hvað þeir gera og hvers vegna með vísan í gildi sín. Þeir miðla upplýsingum með virkri samskiptatækni og velja sér samstarfsaðila í takt við markmið sín.
 • Opnari stjórnsýsla. Stjórnskipun skátahreyfingarinnar á að vera gagnsæ, ábyrg, skilvirk og í samræmi við grunngildi BÍS með áherslu á að þjóna markmiðum og framtíðarsýn skátahreyfingarinnar. Gott samstarf er á milli skátafélaga, stjórnar BÍS og skátamiðstöðvarinnar.

:: Nánar um stefnumótun skátastarfs – þingskjal

Fríður Finna Sigurðardóttir aðstoðarskátahöfðingi í ræðustól. Hermann Sigurðsson framkvæmdastjóri BÍS og Sigurður Konráðsson fundarstjóri hlíða á

Fríður Finna Sigurðardóttir aðstoðarskátahöfðingi í ræðustól. Hermann Sigurðsson framkvæmdastjóri BÍS og Sigurður Konráðsson fundarstjóri hlíða á

Mikil sátt um lagabreytingar

Ný lög Bandalags íslenskra skáta (BÍS) voru samþykkt með miklum meirihluta atkvæða og var laganefnd þakkað sérstaklega fyrir mikla og óeigingjarna vinnu.  Fjölmargir opnir fundir hafa verið haldnir frá síðasta skátaþingi og margir komu af vinnu undir forystu Jóns Þórs Gunnarssonar formanns nefndarinnar.  Stóru breytingar á lögunum snúast um félagsaðild að bandalaginu, skipun stjórnar BÍS og þá var samþykkt að tvískipta lögunum í annars vegar grunnlög sem krefjast aukins meirihluta til breytinga og hins vegar almenn lög sem auðveldara er að breyta.

Samþykkt var að stjórn BÍS myndi ganga endanlega frá nýjum lögum og birta á Skátamálum innan tveggja vikna.

Valkvætt skátaheit

Nýtt skátaheit var samþykkt en undanfarin ár hefur stækkandi hópur skáta hvatt mjög til að þeim hluta skátaheitisins sem innifelur „guð og ættjörðina“ yrði breytt.  Niðurstaðan varð sú að skátar geta nú valið um hvort þeir heita að gera skyldu sína við „guð“ eða „samvisku“ annars vegar og síðan hins vegar er val á milli þess að gera skyldu sína við „ættjörðina“ eða „samfélag“.

Bragi Björnsson skátahöfðingi leiðir stjórn með endurnýjað umboð.

Bragi Björnsson skátahöfðingi leiðir stjórn með endurnýjað umboð.

Mikil ánægja ríkti meðal þeirra sem hafa hvatt til breytinga.  „Hér er langþráðu takmarki náð. Þetta eru bestu úrslit sem hugsast getur. Enginn vanvirðir skoðanir annars. Virðing, virðing, virðing. Við höfum sigrað, íslenska skátahreyfingin hefur sigrað,“  sagði meðal annars í færslum á Facebook.

Sjá nánar í frétt um skátaheit  :: Nýtt skátaheit samþykkt

Stjórn með nýtt umboð

Stjórn Bandalags íslenskra skáta er endurnýjuð að hluta á hverju skátaþingi og í ár var sjálfkjörið í þau fjögur embætti sem laus voru.  Dr. Ólafur Proppé, prófessor emeritus, var kjörinn sem formaður fræðsluráðs, Bergþóra Sveinsdóttir,  tómstunda- og félagsmálafræðingur sem formaður ungmennaráðs,  Jón Þór Gunnarsson, verkfræðingur, í stöðu formanns alþjóðaráðs og Una Guðlaug Sveinsdóttir, meistaranemi í nytjaþýðingum, í embætti formanns dagskrárráðs.  Una Guðlaug er eini nýliðinn í stjórn en er þó enginn nýgræðingur í skátastarfi. Hún hefur undanfarin þrjú ár verið félagsforingi Hraunbúa í Hafnarfirði.

Sjá nánar í frétt :: Una Guðlaug leiðir dagskrárráð

 

Félagar í skátafélaginu Klakki buðu til skátaþings 2017.

Félagar í skátafélaginu Klakki buðu til skátaþings 2017.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar