Þriggja richtera sápurennibraut

Vormót Hraunbúa í Krísuvík er árvisst  um Hvítasunnuna og er þetta í 74. skipti sem skátafélagið Hraunbúar í Hafnarfirði stendur fyrir mótinu. Þema mótsins er „Þrír á Richter“ sem táknar bæði jarðfræðilega virkni á svæðinu og það dúndrandi fjör sem verður undir Bæjarfelli um Hvítasunnuna.

María Björg Magnúsdóttir mótsstjóri segir að dagskráin sé sniðin fyrir fálka og dróttskáta.  „Póstaleikir, útieldun, sig í klettum, FlyFox, skyndihjálp og svo er sápurennibrautin alltaf vinsæl,“ segir María Björg.  Kvöldvaka er á sunnudeginum og hún er opin fyrir alla. María segir að margir eldri Hraunbúar geri sér ferð til Krísuvíkur á kvöldvökuna og njóti stemningarinnar. Ingó veðurguð verður á tónleikum á laugardagskvöld og segir María þá hafa heppnast vel í fyrra.

Fjölskyldubúðir eru í tengslum við mótið og þar eru dagskráratriði fyrir yngri krakka. María segir að í fyrra hafi við um 200 manns á svæðinu, en mögulega verði eitthvað færri núna þar sem Landsmót skáta er síðar í sumar.

Prímusbökuð pizza og kakóhavarí

Vormótslagið sviptir hulunni af mörgum leyndardómum Vormótanna og hjúpar aðra dulu. Hér er textinn fyrir þá sem vilja æfa sig fyrir mót.

Með tjaldhiminn
og pokann minn
af stað — gleðin bíður mín
Ég festi hæl
er himinsæl
með spork — ávallt viðbúin

Elsku Krýsuvík
þú ert engu lík
massa Arnarfellshlaup
Setjumst vinur minn
kringum varðeldinn
yndisleg þessi laut

Ég fer á Vormót Hraunbúa
og prímusbaka pizzuna
hitti alla hraustu skátana
það er tryllingur hér
komdu með mér
ó já komdu með mér

Ég fer í hæk
og busl’í læk
mér finnst rigningin svo góð
Ég gleymi ræs
það er svo næs
ó nei — mótsstjórnin er óð
Vatnasafarí
kakóhavarí
allt svo ógleymanlegt
Skátakrafturinn
jarðarmátturinn
þetta er lygilegt

Ég fer á Vormót Hraunbúa
og prímusbaka pizzuna
hitti alla hraustu skátana
það er tryllingur hér
komdu með mér

og Krýsuvíkin tryllist með
tekur þátt í öllu fjöri hér
á reiðiskjálfi jörðin er
það er tryllingur hér
3 á Richter
Ó já 3 á Richter

 

Tengdar fréttir:

Skátamótin í sumar

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar