Þrettándagleði Gilwell-skáta & útgáfupartý

gilwell-logo-250pixBreytt skipulag Gilwell-leiðtogaþjálfunar hefur svo sannarlega borið ríkulegan ávöxt á undanförnum misserum. Á árunum 2013 og 2014 hafa rúmlega fimmtíu   Gilwell-skátar útskrifast samkvæmt þessu nýja skipulagi og um nýliðin áramót höfðuríflega 40 skátar lokið 1. og 2. skrefi og munu útskrifast á þessu ári.

„Það var því sannarlega ástæða til að fagna góðum árangri og það gerðum við svikalaust á Þrettándagleði Gilwell-skáta sem haldin var í skátaheimili Kópa í gærkvöldi,“ segir Ólafur Proppé, skólastjóri Gilwell-skólans. Til þrettándagleðinnar komu um 60 Gilwell-skátar en boðið var upp á söng og glens, glæsilegar kaffiveitingar voru í umsjón Jellý-systra úr Kópum, flutt voru stutt fræðsluerindi og skátabandið Dos Sardinas flutti nokkur lög. „Þetta tókst frábærlega, notaleg kaffihúsastemmning, hæfilega mikil dagskrá og góður tími til að spjalla,“ segir Ólafur. Björn Hilmarsson hélt stutt erindi um World Scout Moot 2017 og ræddi um mikilvægi þess að fullorðnir sjálfboðaliðar létu ekki sitt eftir liggja í undirbúningi og framkvæmd mótsins en gert er ráð fyrir að mótið þurfi allt að 1.000 starfsmenn!

Ólafur Proppé, skólastjóri, kynnti nýja skólastjórn sem skipuð var af stjórn BÍS síðastliðið haust. Hana skipa, auk Ólafs, þau Björk Norðdahl, Víking Eiríksson, Benjamín Axel Árnason og Guðmundur Pálsson. Stjórnin hefur unnið hörðum höndum síðustu mánuði að ýmsum skipulagsmálum enda í mörg horn að líta.

Neðangreind skýringarmynd sýnir verkskiptingu skólastjórnarinnar og yfirlit yfir helstu ábyrgðasvið og verkefni.

skolastjorninjpg

Ingvar Jónsson, stjórnendamarkþjálfi hjá Profectus, hélt erindi um markþjálfun sem fékk góðar undirtektir og vakti upp fjörugar umræður. „Við munum innleiða markþjálfun í framhaldsnámskeiðin okkar og því var kjörið að fá Ingvar til að kynna þessa hugmyndafræði fyrir hópnum,” segir Benjamín Axel sem leiðir mannauðsmál í skólastjórn Gilwell-skólans. „Við þurfum að byggja upp breiðan hóp Gilwell-tengla sem hafa það hlutverk að styðja við þá skáta sem leggja upp í spennandi vegferð Gilwell-leiðtogaþjálfunarinnar. Aðferðafræði markþjálfunarinnar kemur að góðum notum í þjálfun Gilwell-tenglanna og fyrsta framhaldsnámskeiðið sem sérstaklega er þeim ætlað fer fram núna í janúar og febrúar“ segir Benjamín Axel. Námskeiðið sem hann vísar hér til nefnist Markþjálfun og hlutverk Gilwell-tengla og verður kennt á tvo laugardaga, 24. janúar og 14. febrúar.

Á þrettándagleðinni leit nýtt fréttabréf dagsins ljós sem fengið hefur nafnið „Gilwell-tíðindi“ og er nýtt fréttabréf Gilwell-skólans á Íslandi. Fyrirhugað er að gefa slíkt fréttabréf út eftir því sem þurfa þykir en hægt er að skoða fyrsta tölublaðið hér.

:: Gilwell-tíðindi, 1.tbl., 1.árg.

:: Myndir á Facebook

/gp

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar