Styrktarpinninn

styrktarpinninn_250pxHugmyndin á bak við Styrktarpinna skáta er tvíþætt. Í fyrsta lagi er um fjáröflun fyrir skátahreyfinguna að ræða og í öðru lagi er verið að tengja stóran hóp eldri skáta við skátahreyfinguna með því að senda honum árlega Styrktarpinnann.

Er farið var af stað með verkefnið fór mikil vinna í að safna saman nöfnum og heimilsföngum eldri skáta úr gögnum hreyfingarinnar og þjóðskrá. Þegar upp var staðið var til listi með rúmlega tíu þúsund nöfnum og er ekki vafi á að með réttu ættu nöfnin að vera nokkur tugþúsunda til viðbótar. Síðan hefur lítillega fjölgað á listanum og árlega er bætt í hópinn þeim skátum sem verða 18 ára það árið.

Árlega er framleitt barmmerki sem sent er þessum skátum ásamt gíróseðli. Gjarnan er tækifærið notað og hópnum sendar upplýsingar er tengjast starfinu og talið að snerti þennan hóp skáta. Öllum er frjálst að eiga barmmerkið og fólk hvatt til að bera það í hversdagsklæðnaði sínum.

Styrktarpinninn 2014

Markmið Styrktarpinnans 2014 er að gera sérstakt átak til þess að efla skátastarf á landsbyggðinni og stofna ný skátafélög eða skátasveitir á þeim fjölda staða þar sem ekkert skátastarf er í dag. Með stuðningi
þínum getum við vonandi veitt börnum og ungmennum víða um land tækifæri til að taka þátt í skátastarfi og boðið upp á vandaða þjálfun fyrir leiðtoga og skátaforingja til þess að leiða það starf.

:: Skoða kynningarbæklinginn „Gefum öllum tækifæri”.