Táningarnir eru mikilvægasti hópurinn

Ég mun áfram leggja áherslu á að bæta samskipti og stuðning við skátafélögin,” segir Fríður Finna Sigurðardóttir  aðstoðarskátahöfðingi, en hún var endurkjörin á Skátaþingi í byrjun apríl.  Þetta vill hún gera með beinum tengslum við skátafélögin  og stofnun vinnuhóps um hinar ýmsu  áskoranir þeirra.
Fríður Finna

Fríður Finna

En það eru fleiri mál sem brenna aðstoðarskátahöfðingjanum og við á Skátamálum fengum hana í viðtal á þessum tímamótum.

Mér finnst táningarnir vera okkar mikilvægasti hópur í skátastarfinu. Þar höfum við gríðarleg tækifæri til að hafa bein áhrif á líf skátans, og til að bjóða upp á spennandi áskoranir sem víkka sjóndeildarhringinn og reynsluheim ungs fólks sem verður öllum að gagni, einstaklingnum, skátahreyfingunni og samfélaginu öllu – þarna finnst mér að við eigum að setja fókusinn og rækta sérstaklega,” segir Fríður Finna aðspurð um hverju hún telji mikilvægast til að hlúa að innan skátahreyfingarinnar.

 Spennandi skátasumar framundan

Hvernig leggst starfið í Fríði Finnu, verður þetta gott skátaár?

 Starfið leggst gríðarlega vel í mig. Þetta verður spennandi skátasumar með fjölda skátamóta og fjölmennasta landsmóti síðan 2002! Einnig eru margir hópar á leið erlendis í spennandi reisur sem er alltaf gaman að upplifa. Þar fyrir utan er margt að gerast á öllum vígstöðvum, fjöldi fólks sem velur að gefa frítíma sinn og krafta skátahreyfingunni til gagns, í hinum ýmsu vinnuhópum og undirbúningsteymum, t.d. vegna landsmótsins. Meðan við höfum allt þetta flotta fólk þurfum við engu að kvíða,” segir Fríður Finna, sem samhliða störfum innan stjórnar BÍS er mótsstjóri Landsmóts skáta í sumar.

Hvaða væntingar hefur hún til starfs innan stjórnar BÍS?

Það urðu talsverðar breytingar á stjórninni á skátaþingi og 3 nýir aðilar komnir til liðs við okkur, auk þess sem meðalaldurinn hefur lækkað um 11 ár. Við höfum einungis hist á einum fundi síðan og ekki gátu allir verið með okkur þá, en það var skemmtileg stemning í hópnum og ég held að hann eigi eftir að verða samhent heild.

Nú er einungis eitt ár síðan ég tók sæti fyrst í stjórninni svo það hafa ekki orðið svo miklar breytingar á verkefnum okkar, en hins vegar eru mörg stór verkefni að komast á lokapunkt eins og t.d. Gilwell. Það mun gefa stjórninni tækifæri til að beina augum sínum aftur að beint að skátafélögunum og þeim áskorunum sem að þeim snúa hverju og einu”.

Á Jamboree 2007

Á Jamboree 2007

 Vinnuhópur um málefni skátafélaganna

Meðal þeirra verkefna sem Fríður Finna ræddi um á Skátaþingi var stofnun félagsmálaráðs innan BÍS. Óskað hefur verið eftir framboðum frá fólki sem vill taka sæti í vinnuhópi um félagsmál og reynt var að höfða til fólks með breiðan bakgrunn og innsýn í daglegan rekstur skátafélaga. „Ég held að félagsmálaráð muni setja málefni skátafélaganna í fastari skorður en hefur verið, og þá sérstaklega hvað varðar stuðning og samskiptin”, segir Fríður Finna.

Hún leggur áherslu á góð tengsl við stjórnir skátafélaganna og að vinna stjórnar BÍS nýtist skátafélögunum sem best. Ég vil einnig leggja áherslu góða þátttöku í þeim viðburðum og námskeiðum sem í boði eru, hvort heldur sem er á innlendum eða erlendum vettvangi. Til þess að svo verði þurfum við að tryggja að framboðið sé áhugavert, spennandi og í samræmi við þarfir skátafélaganna”.

Landsbyggðastelpa sem fór í lækninn

En að lokum –  Hver er Fríður Finna og hvað leiddi til þess að þú tókst sæti í stjórn BÍS?

„Ég er landsbyggðastelpa sem byrjaði í skátafélaginu Eilífsbúum  9 ára, tók þar við minni fyrstu skátasveit 14 ára og rataði svo i félagsstjórnina nokkrum dögum fyrir 18 ára afmælið mitt. 21 árs flutti ég suður til að hefja nám og byrjaði þá að vinna með skátafélaginu Vogabúum sem seinna urðu að Hamri, en fékk fjótlega líka tækifæri til koma inn í alþjóðaráð þar sem ég sat þar til ég flutti til Danmerkur árið 2005. Auk þess hafði ég á þeim tíma náð að koma að hinum ýmsu verkefnum innan hreyfingarinnar, t.d. skipulagningu evrópuráðstefnunnar 2004 og tveimur landsmótum. .  Það leiddi einhvern veginn eitt af öðru og alltaf kom eitthvað meira krefjandi og spennandi upp. Eftir að ég flutti út hélt áfram að sinna ýmsum verkefnum fyrir BÍS, td. Í kringum landsmótin 2008 og 2012, en einnig sat ég í Evrópustjórn WAGGGS frá 2007 til 2010 og var í sænska skipulagsteyminu við að skipuleggja Jamboree 2011”.

Hefur ávallt eitthvað á prjónunum

Hefur ávallt eitthvað á prjónunum

Fríður Finna hefur eins og flestir Íslendingar breiða starfsreynslu, allt frá því að afgreiða í sjoppu til þess að stýra Fjölskyldugarðinum. Hún er læknir að mennt og bjó í Köben í tæp 8 ár í námi og vinnu.

Um áhugamál segir Fríður að þau séu útivist í sinni breiðustu mynd – skíði, klifur, fjallgöngur og ferðalög en bakpokaferðalög um framandi lönd ásamt ferðum í íslenskri náttúru eru þar í uppáhaldi. Hún fór á Kilimanjaro og svo til Kúpu í feb og mars á þessu ári, en hún á sér einnig rólegri áhugamál en tónlist, lestur góðra bóka, samvera með fjölskyldu og vinum og spilakvöld eru meðal þess sem Fríður metur hátt.  Hún segist alltaf þurfa að vera með eitthvað í höndunum og prjónarnir eru yfirleitt á flugi ef því er komið við.

Á Facebook síðu skáta eru fleiri myndir frá Fríði Finnu

 

 

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar