Talið í fyrir Landsmót

Trylltur og taumlaus hasardagur sem reyndi á samvinnu, sköpunargleði, skátaanda og hreysti þátttakenda var haldinn á laugardag fyrir Rekka- og Róverskáta, en það eru skátar á aldrinum 16 – 22 ára.  Final Countdown kallaðist dagskráin og er hún hluti af undirbúningi fyrir Landsmótið í sumar enda tímabært að hita upp fyrir mótið.

Tjölduðu blindandi

Leikurinn barst um víðan völl í Reykjavík eða frá Austurvelli upp í Öskjuhlíð með viðkomu á mörgum stöðum þar sem biðu verkefni af ýmsum toga, allt frá því að semja stemmu og flytja í versluninni Tólf tónum í að matreiða egg með frjálsri aðferð. Þátttakendur fengu aðeins eggin en engan búnað og þurftu því að bjarga sér í borgarsamfélagi til dæmis með því að biðja um aðstoð, nokkuð sem skátar eru reyndar þekktari fyrir að veita en þiggja. Einnig leystu þau hefðbundnari skátaverkefni eins og að tjalda, en munurinn sá að núna var það gert blindandi, eins og sjá má.

Svartamyrkursæfingar

Svartamyrkursæfingar

Tilbreyting að vera þátttakandi

Í lok dags beið enn eitt borgarverkefnið en það var að skipta um dekk á bíl.  Eftir klifur og sig í Öskjuhlíð hélt hópurinn í Landnemaheimilið þar sem boðið var upp á pizzu.

Þátttakendur voru ánægðir með daginn og óskuðu eftir fleiri viðburðum fyrir rekka- og róverskáta. „Ég er alltaf að skipuleggja dagskrá fyrir aðra, það var gaman að fá að vera þátttakandi“ sagði Berglind Lilja Björnsdóttir róverskáti úr Klakki.

Öllum verkefnunum fylgdi að taka myndir sem deilt var á samfélagsmiðla jafnóðum, og geta áhugasamir skoðað þær á Instagram með því að leita að merkingunni #landsmotskata .

Landsmót skáta verður haldið 20. – 27. júlí að Hömrum við Akureyri – sjá nánar á http://www.skatamot.is/

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar