Tækifæri fyrir ungt fólk

„Mig langar að skapa lýðræðislegan grundvöll þar sem ungt fólk fær tækifæri til að láta sínar skoðanir í ljós. Við sem störfum í ungmennaráði eru þeirra fulltrúar og gefum ungu fólki sterkari rödd,“ segir Bergþóra Sveinsdóttir nýkjörinn formaður ungmennaráðs skáta, en það var kjörið í fyrsta sinn á Skátaþingi sem haldið var í byrjun mánaðarins.
Bergþóra Sveinsdóttir

Bergþóra Sveinsdóttir

Bergþóra væntir þess að nýtt ungmennaráð leiði til þess að tengslanet ungra skáta á Íslandi við aðra skáta víðsvegar í heiminum muni eflast.

Aukin þátttaka ungra skáta

„Ég mun leggja áherslu á að skapa þennan grundvöll þar sem ungir skátar geta komið hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri. Einnig langar mig að skapa vettvang þar sem ungir skátar fá tækifæri til að taka meira þátt í að skipuleggja og framkvæma viðburði á vegum BÍS. Við eigum svo mikið af duglegu og flottu ungu fólki innan hreyfingarinnar sem hægt er að virkja til að gera hana öflugri,“ segir Bergþóra.

Ungmennaráðið stórt skref

Bergþóru finnst sú ákvörðun að stofna ungmennaráð vera virkilega stórt skref fram á við fyrir hreyfinguna og mikilvægt að styðja við ungt fólk því það er framtíð hreyfingarinnar.

„Þetta hlutverk leggst mjög vel í mig og ég er spennt að takast á við þessa áskorun,“ segir Berþóra um sitt nýja hlutverk.  „Mér finnst áskorunin líka felast í því að móta starf ungmennaráðsins þar sem það hefur aldrei starfað áður. Ég tel mig vera vel í stakk búna að takast á við þetta hlutverk og geri það af heilum hug. Það eru bjartir tímar framundan og þetta verður spennandi verkefni“.

Ungmennaráð mun efla tengslanet ungra skáta á Íslandi

Ungmennaráð mun efla tengslanet ungra skáta á Íslandi

Útilífsskóli, alheimsmót og frístund með fötluðum í Hinu Húsinu

Bergþóra Sveinsdóttir er starfandi dróttskátaforingi í félaginu Segli í Breiðholti. „Ég byrjaði í skátunum í kringum 11 ára aldur og hef eiginlega ekki stoppað síðan. Ég var starfandi í Skátafélagi Akraness þar sem ég ólst upp áður en ég flutti til Reykjavíkur. Ég hef einnig verið skólastjóri Útilífsskóla skáta hjá Segli tvö síðustu sumur,“ segir hún.

Skátamótin hafa verið stór þáttur í skátastarfi Bergþóru. „Ég hef farið á tvö alheimsmót ásamt því að fara síðasta sumar til Kanada á Moot. Einnig hef ég farið í gegnum tíðina á fjölmörg skátamót hér á landi. Núna er ég í skipulagsteymi fyrir landsmót skáta sem verður haldið í sumar“.

Hún er í námi við Háskóla Íslands og útskrifast í vor sem tómstunda- og félagsmálafræðingur.  Samhliða námi starfar hún í Hinu Húsinu í frístundastarfi með ungmennum með fötlun ásamt því að vera með sértækt hópastarf. „Ég hef líka verið mikið í tónlist og stundaði tónlistarnám í mörg ár og nýverið við FÍH en er í smá pásu frá því núna. Mér finnst líka mjög gaman að útivist og reyni að stunda hana eins og mikið og ég get“, segir hress formaður ungmennaráðs að lokum.

Fleiri svipmyndir úr skátastarfi Bergþóru eru á Facebook síðu okkar

Við afhendingu forsetamerkisins

Við afhendingu forsetamerkisins

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar