Sýnilegra leyndarmál

Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni tekur þátt í kynningarátakinu Leyndardómar Suðurland sem stendur nú yfir. „Við ætlum að bjóða upp á okkar sívinsæla útieldunarnámskeið með helmingsafslætti,“ segir Guðrún Ása dagskrárstjóri á Úlfljótsvatni.

„Við viljum gera Útilífsmiðstöðina sýnilegri meðal almennings. Láta alla vita að hér er opið allan ársins hring og margir möguleikar í boði,“ segir Guðrún Ása. Þátttaka útilífsmiðstöðvar í samstarfi ferðaþjónustuaðila á Suðurlandi er mikilvægur þáttur í þeirri miðlun.

Hlóðakaffi og gómsætir réttir

Námskeiðið verður haldið sunnudaginn 6. apríl og stendur frá kl. 13 til 16. Það verður eldað í orðsins fyllstu merkingu. Þátttakendur kveikja eld og elda yfir honum. Þeir læra að baka brauð og kökur í „Hollendingum“ (Dutch oven) sem eru steypujárnspottar. Einnig verður kennt að búa til hlóðakaffi og nota eldinn til að búa til einfalda og gómsæta rétti. Allir fá að borða á námskeiðinu og enginn fer svangur heim, lofar Guðrún Ása. Hún hvetur alla til að mæta vel klæddir því námskeiðið verður utandyra.

Þátttaka í námskeiðinu 6. apríl er á kynningarverði og kostar 3.900,- kr. og innifalið í því er kennsla og hráefni. Skráing er á vefsíðunni www.ulfljotsvatn.is  en þar er bókunarvélin hægra megin á síðunni.

Margvíslegar upplýsingar um starfsemina á Úlfljótsvatni er að finna á vefsíðunni má www.ulfljotsvatn.is

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar