Hluti af nýrri dagskrá sem skátarnir hafa verið að innleiða undanfarin ár er hvatakerfi, en það eru verkefnaspjöld fyrir skátana til að gera sýnilegra það sem þeir gera. Nú í haust voru spjöldin og límmiðarnir tilbúnir og hafa verið tekin í notkun hjá fjölmörgum skátasveitum.

Dagskrárráð hefur nú í haust notað heimsóknir til skátafélaganna sem tækifæri að kynna þetta nýja hvatakerfi og hugmyndina á bak við það. Hugmynd dagskrárráðs er að innleiða kerfið í áföngum til einföldunar og fyrsta skrefið eru hvataspjöld og límmiðar.

Staðfesting á að hafa lokið verkefni og náð markmiðum

Hvataspjaldið, sem hver og einn skáti hefur fyrir sig er sexstrent. Hvataspjöldin eru víðast hengd á vegg í skátaheimilinu og þá geta spjöld allra í sveitinni eða flokknum myndað skemmtilegt munstur. Ekki þarf þó að hengja þau á vegg heldur er hægt að geyma með öðrum hætti ef aðstæður bjóða svo.

Verkefnaflokkar-og-merking3Límmiðarnir eða merkin eru af ýmsu tagi til hvatningar og viðurkenningar. Verkefnamerkin og útilífsmerkin verða innleidd í fyrstu atrennu og þá límmiða setur skátinn á hvataspjaldið sitt og getur fylgst með árangri sínum og framförum.

Í kynningu dagskrárráðs er lögð áhersla á verkefnaflokkana og merkingu þeirra.  Verkefnaflokkarnir eru fimm í takt við skátadagskrána til að gæta jafnvægis í ólíkum þroska og þekkingarþáttum:

  • Hjálpsemi og samfélagsþátttaka
  • Útilíf og umhverfisvernd
  • Listir og menning
  • Íþróttir og heilsurækt
  • Tækni og vísindi

image4vefbEf verkefni eru umfangsmikil eða taka yfir lengri tíma geta þau fallið í tvo eða fleiri verkefnaflokka og getur sveitarráð skátasveitarinnar ákveðið að veitt séu fleiri en eitt merki fyrir slík verkefni.

Útilífsmerkin er svo þrenns konar og eru einfaldlega fyrir:

  • Dagsferð
  • Útilegu
  • Skátamót

Útilífsmerkin geta tengst eða verið hluti af öðrum flokks- eða sveitarverkefnum í skátastarfinu.

Hvenær fá skátarnir límmiða?

Skátastarfið snýst ekki um að fá merki, heldur tengist það því starfi sem unnið er og árangri.  Þar er horft til skipulags skátastarfsins og lýðræðislegra ákvarðana. Þannig þurfa verkefni að vera valin og samþykkt af flokknum eða sveitinni og sveitarforingja. Verkefnin þurfa einnig að vera undirbúin, framkvæmd og endurmetin af skátaflokknum eða sveitinn í sameiningu. „Við mælum með því að skátarnir sjálfir ræði það hvaða límmiða þeir eigi að fá fyrir verkefni,“ segir Una Guðlaug formaður dagskrárráðs. „Þannig þurfa þeir að hugsa um á hvaða svið þeir voru að reyna“.  Hún segir að ígrundun verkefnisins sé mikilvæg og eigi að vera hluti af flokksfundum eða sveitarþingum. Það þurfi ekki að vera flókið, engar skýrslur, heldur má taka það inn í umræður t.d. 5 mínútur foringjans í lok fundar.

Dagbjört og Una Guðlaug hafa verið að kynna hvatakerfið
Dagbjört og Una Guðlaug hafa verið að kynna hvatakerfið

Gegnumgangandi í skátadagskránni eru skrefin undirbúningur, framkvæmd og endurmat. „Samvinna í öllum þessum þáttum er mikilvæg,“ áréttar Una Guðlaug. Verkefnin séu unnin á skátafundum, í ferðum eða útilegum flokksins eða sveitarinnar.

Margar spurningar hafa vaknað um framkvæmdina eins og t.d. „Hvað ef Palli er veikur, fær hann þá ekki límmiða eins og restin af flokknum?“  Svarið er Nei, því miður, enda snýst þetta um þátttökuna.

Jöfn og þétt innleiðing er farsæl

Una Guðlaug og Dagbjört Brynjarsdóttir, verkefnisstjóri í Skátamiðstöð segja mikilvægt að innleiða hvatakerfið í áföngum og ná tökum á að nota það jafnt og þétt.

Merkjakerfið hefur nú verið útbúið fyrir þrjú aldursstig, drekaskáta, fálkaskáta og dróttskáta. Byrjað er að innleiða fyrstu hluta á hverju stigi. Þeir sem vilja fá alla útgáfuna strax þá voru útskýringar fyrir skátaforingja upplýsingar dregnar saman í bæklinga og í fyrstu atrennu gefnir út fyrir tvö aldursstig, drekaskáta og fálkaskáta:

Það er þó hvatt til þess að innleiða jafnt og þétt þannig að skátarnir nái tökum á hverjum lið fyrir sig.

Nánari upplýsingar: