Sváfu úti til upphitunar

Nú um helgina tóku nær 20 skátar á aldrinum 14 – 15 ára þátt í Vetraráskorun og sváfu í tjöldum. Einnig fékk hópurinn góða leiðsögn í fjallaferðamennsku og fyrstuhjálp hjá reyndum fjallagörpum og plástrasnillingum.
Hluti tjaldbúðanna

Hluti tjaldbúðanna

Helgin var upphitun fyrir stóru stundina, sem verður þegar um þrjátíu írskir skátar koma til landsins og hópurinn allur tekur þátt í vikulangri dagskrá sem verður í Útilífsskólanum á Úlfljótsvatni og á Hellisheiði 13. – 20.febrúar. Skítkalt var um helgina og því óhætt að segja að veðrið hafi reynt á þolrifin og búnaðinn þegar gist var í tjöldum eina nótt. Engum varð þó meint af.

Nú um helgina var sérsstök áhersla lögð á fræðslu um rétta hegðun á fjöllum og góðan búnað. Eitt af því sem kennt var er að haga ferðum eftir veðri og reynslu þátttakenda. Fyrsta áætlun gerði ráð fyrir að tjalda á Hellisheiði en ferðaáætlun var breytt og sofið var í tjöldum í nágrenni við Lækjarbotna. Það má því segja að farið hafi saman orð og æði.

Jú, það var skítkalt - en þessir skátar eru svalari ...

Jú, það var skítkalt – en þessir skátar eru svalari …

Samstarf tveggja landa

Upphitun

Upphitun

Vetraráskorunin er samstarfsverkefni íslenskra skáta, Slysavarnarfélaginu Landsbjargar og írskra skáta. Þátttakendur sem eru á aldrinum 14 og 15 ára koma frá Íslandi og Írlandi. Vetraráskorunin heitir fullum fetum Vetraráskorun Crean og er hún tileinkuð Tom Crean írskum landkönnuði og tekur dagskráin mið af því. Gerð eru snjóhús eða skýli, sofið í tjöldum og æfð er fjallabjörgun svo fátt eitt sé nefnt.  Þátttakendur undirbúa sig fyrst hver í sínu heimalandi en í febrúar er síðan sameiginleg vikudvöl á Hellisheiði og á Útilífsskóla skáta á Úlfljótsvatni.

Aðeins takmarkaður fjöldi getur tekið þátt í Vetraráskorun Crean hverju sinni og í ár eru 19 þátttakendur frá Íslandi og eru þau fædd 1999 og 2000. Í hópnum eru 14 skátar frá nokkrum skátafélögum og 5 félagar frá ungmennasveitum Landsbjargar. Frá Írlandi koma svo um 20 þátttakendur.

Bakhjarlar Vetraráskorunar nú yfir helgina voru Finnbogi Jónasson, Inga Ævarsdóttir, Gísli Örn Bragason, Vala Hauksdóttir, Guðmundur Finnbogason og Silja Þorsteinsdóttir.

Ljósmyndir tók Finnbogi Jónasson.

Guðmundur Finnbogason og Silja Þorsteinsdóttir hafa skorað veturinn á hólm og leiða verkefnið hér á Íslandi.

Guðmundur Finnbogason og Silja Þorsteinsdóttir hafa skorað veturinn á hólm og leiða verkefnið hér á Íslandi.

 

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar