Sumt á bara að vera í lagi

Þeir sem leiða æskulýðsstarf lenda flestir einhvern tíma í aðstæðum þar sem reynir á að bregðast  rétt, örugglega og hratt við til að tryggja velferð þátttakenda.  Auðvitað er ekki hægt að sjá allt fyrir en flestir eru sammála um að viðbragðsáætlun skáta sé gott veganesti sem  þarft er að rifja upp af og til.
Una Guðlaug: Við þurfum ávallt að vera meðvituð um hvað er að gerast

Una Guðlaug: Við þurfum ávallt að vera meðvituð um hvað er að gerast

Viðbragðsáætlun á fyrst og fremst að auðvelda skátaforingjanum að bregðast rétt við, draga úr frekari skaða og tryggja velferð þess sem í hlut á. Slys, áföll eða aðstæður geta verið af margvíslegum toga, allt frá minniháttar óhappi í útilegu til eineltis eða kynferðislegt áreitis. Í öllum tilvikum skiptir máli að bregðast rétt við af festu og yfirvegun.

Fyrirbyggjandi hugsun

En hvernig minnkum við líkur á óhöppum og hver eru rétt viðbrögð gegn einelti eða kynferðislegu áreiti?  Við fengum Unu Guðlaugu Sveinsdóttur, félagsforingja í Hraunbúum í Hafnarfirði til að gefa góð ráð.

Hún segir mikilvægt að fræða foringja um þessi mál svo þeir séu reiðubúnir fyrir aðstæður sem kunna að koma upp. Hraunbúar leggja áherslu á að allir 18 ára og eldri fari á námskeiðið „Verndum þau“ og þá verða allir foringjar að gefa heimild vegna sakavottorðs.  „Verndum þau námskeiðið er ítarlegt. Sumir segja að það sé ekki nógu skemmtilegt, en þetta er nokkuð sem maður verður að tileinka sér,“ segir Una.

Í handbók sveitaforingja í Hraunbúum er samantekt úr viðbragðsáætluninni og einnig eru þessi mál rædd reglulega á fundum félagsráðsins. „Almennt er miðað við að sveitarforingi sé tvítugur eða eldri,“ segir Una.  „Viðmið er að í sveitarútilegu sé einn foringi orðinn tvítugur og í öðrum ferðum er lágmark að ábyrgðarmaður sé 18 ára að lágmarki.

Opin umræða mikilvæg

„Við leggjum áherslu á að hafa  góðan anda innan félagsins, þar sem einelti þrífst ekki og þar eru foringjarnir mikilvæg fyrirmynd,“ segir Una og nefnir gott upplýsingaflæði og opin samskipti sem mikilvæga þætti í að byggja upp jákvætt andrúmsloft. „Við gerum hluti saman og foringjarnir fara í sameiginlegar ferðir.  Við þurfum ávallt að vera meðvituð um hvað er að gerast í foringjahópnum og foringjarnir meðvitaðir um það sem er að gerast á meðal barnanna,“ segir hún.

„Ef við heyrum eitthvað sem er mögulega ekki í lagi, þá getum við ekki hunsað það – við verðum að bregðast við,“ segir Una og rifjar upp að fyrir nokkru síðan leituðu Hraunbúar aðstoðar vegna eineltismáls, fengu þá fræðslu frá Skátamiðstöðinni og stóðu fyrir þemamánuði innan félagsins um þessi mál.

 

Tengt efni  – nánari upplýsingar:

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar