Í kvöld var á skátaþingi gengið til leiðbeinandi atkvæðagreiðslu um það sem laganefnd hefur kallað „stóru málin“ í lagabreytingatillögum, en á morgun verður nánari umræða um lagabreytingar og endanleg afgreiðsla á sunnudag.
Úr þingsal
Úr þingsal

Óhætt er að segja að vel undirbúnar tillögur laganefndar hafi farið vel í þingheim og var afgerandi niðurstaða í atkvæðagreiðslu. Jón Þór formaður laganefndar var að vonum ánægður með niðurstöðu þingsins og segist hlakka til umræðu helgarinnar.

Fyrsta stóra málið var ákvæði um félagsaðild að BÍS og var tillaga laganefndar um breytt fyrirkomulag samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta, sem þýðir að fleiri hópar geta átt aðild að Bandalagi íslenskra skáta.

Í öðru lagi lá fyrir tillaga laganefndar um að tvískipta lögum í annars vegar grunnlög sem krefjast aukins meirihluti til breytinga og hins vegar almenn lög sem auðveldara er að breyta og halda í takt við tímans dægurflug. Tillaga laganefndar var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta.

Í þriðja og síðasta lagi óskaði laganefnd eftir leiðbeinandi atkvæðagreiðslu um hvernig ætti að skipa stjórn BÍS.  Boðið var upp á tvo valmöguleika um hvernig kosið verði til stjórnar BÍS. Annars vegar að  stjórn verði í framtíðinni kosin í heild á einu þingi eða hins vegar að stjórn verði endurnýjuð að hluta á hverju þingi eins og nú er. Seinni hugmyndin hlaut yfirgnæfandi meirihluta.

Umræður verða eins og áður segir á morgun og endanleg atkvæðagreiðsla á sunnudag. Tillögur fyrir skátaþingi má finna í heild á upplýsingasíðu þingsins.

:: Skoða upplýsingasíðu skátaþings