Dróttskátasveitin Andrómeda fór í sveitarútilegu í Lækjarbotnaskála yfir helgina. Sveitarforingjarnir Unnur, Tryggvi og Brynjar segja að margt hafi verið brallað þrátt fyrir smá rigningu og rok. Veðrið hafi bara gert það að verkum að kósýkvöldið hafi fyrir vikið orðið mun meira kósý.
Í Lækjarbotnaskála
Í Lækjarbotnaskála
andromeda-leikur
Traustæfingar

Á laugardag var skipt í flokka og flakkað á milli pósta að hætti skáta þar sem ýmis verkefni voru leyst.  Sjálfboðaliði settur í spelkur, eldað var á prímus og traustæfingar gerðar svo fátt eitt sé nefnt.

Í Andrómedu eru þrír árgangar og eru hátt í fjörtíu félagar í sveitinni, sem gerir sveitina líklega að þeirri stærstu á landinu. Ds. Andrómeda byggir á gömlum grunni og er meðal elstu starfandi skátasveita á landinu. Sveitin tekur nafn sitt af stjörnuþoku og það er ávallt áfangi meðal skáta í Kópum að komast til stjarnanna og margir bíða spenntir eftir þeim áfanga. Um helgina voru nýir félagar vígðir í sveitina.

andro-spelkur
Tilbúin í skyndihjálpina.

Foringjarnir, að eigin sögn, dekra að sjálfsögðu við krakkana og á laugardagskvöld var slegið upp með hamborgaraveislu.  Nýtt sönghefti Andrómedu var vígt á kvöldvökunni og nýir gítarleikar léku ljós sitt skína.

Það verður líf og fjör í vetur hjá Ds. Andrómedu. Fyrir utan reglulega vikulega fundi eru nokkrar útilegur og dagferðir á dagskránni.  Aðra helgi í október er félagsútilega með Kópum og seinni hlutann í sama mánuði verður stefnan tekin á Skáta Peppori og síðan verður mánaðarprógramminu slúttað með kvöldferð. Í nóvember eru dagsferð og innilega á dagskrá.  Lokapunktur starfsins á þessu ári verður  viðburðurinn Á norðurslóð sem haldinn er í nokkra daga milli jóla- og nýárs.