Skátaþing hófst í kvöld og fyrir því liggja grundvallarbreytingar á lögum Bandalags íslenskra skáta (BÍS) og ný heildarstefnumótun.
Þingið er haldið í Fjölbrautarskólanum á Selfossi og í kvöld eru um 150 þátttakendur mættir og taka þátt í hefðbundum aðalfundarstörfum, tillögur verða bornar upp, gengið verður til kosninga og ársskýrsla stjórnar BÍS lögð fram, sem og reikningar.


Nokkrir einstaklingar voru heiðraðir í upphafi þings. Haukur Haraldsson, Atli Smári Ingvarsson og Tryggvi Marinósson voru sæmdir heiðursmerkjum og Erlendur Kristjánsson sem starfaði um árabil í mennta- og menningarmálaráðuneytinu fékk viðurkenningarvott frá skátum, en hann hefur verið skátum mjög hliðhollur og skilur gildi starfsins.
Gildin á Akureyri fengu viðurkenningu fyrir frábær og ómetanleg störf í tengslum við þau landsmót sem haldin hafa verið á Akureyri. Þá voru nýjum félagsforingjum afhent erindisbréf sín.
Þó formfesta sé á fundinum er létt yfir gestum og góður tónn í ræðum.
Í kvöld verða lögð fyrir þingið það sem kallað hefur verið „stóru málin“ í lagabreytingatillögum, en á morgun farið nánar í einstaka þætti. „Stóru málin“ sem rædd verða í kvöld eru þrjú. Í fyrsta lagi eru það ákvæði um félagsaðild að BÍS, í öðru lagi að tvískipta lögum í grunnlög sem krefjast aukins meirihluti til breytinga og almenn lög sem auðveldara er að breyra og halda í takt við tímans dægurflug, í þriðja og síðasta lagi er stillt fram tveimur möguleikum um hvernig verður kosið til stjórnar BÍS. Hvort stjórn verði í framtíðinni kosin í heild á einu þingi eða verði endurnýjuð að hluta á hverju þingi eins og nú er.

Í fyrramálið verður lögð fram stefnumótunartillaga og er betur sagt frá því í frétt sem birtist fyrr í vikunni. Sjá frétt um stefnumótun: Skátar horfa til framtíðar