Stærstu tjaldbúðir Íslandssögunnar! 30.000 fermetrar af tjöldum

Í dag kom síðasti gámur af búnaði og tjöldum til landsins en 230 tjöld verða  samkomustaður og eldunaraðstaða fyrir 4000 þátttakendur á meðan á mótinu stendur. Seinnihluta mótsins koma allir þátttakendur saman á Úlfljótsvatni þar sem stærstu tjaldbúðir Íslandssögunnar munu rísa á meðan að alþjóðlega skátamótið World Scout Moot stendur yfir. Til viðbótar verða stór samkomutjöld fyrir miðbæinn, matarúthlutun fyrir þátttakendur, mötuneyti fyrir 1000 sjálfboðaliða, móttöku gesta, svið ofl. Björgunarsveitir, skátafélög og Rauði krossinn koma með viðbótar tjöld fyrir sína starfssemi. Fjallakofinn mun útvega sérstök indjánatjöld sem nýtt verða undir aðstöðu fararstjórna frá hverju landi fyrir sig. Að auki koma skátarnir sjálfir með eigin íverutjöld.

Við ætlum að byggja upp alþjóðlegt samfélag á Úlfljótsvatni sem verður tíunda stærsta ”sveitarfélag” landsins þessa mótsdaga. Allur tjaldbúnaður mótsins er um 30.000 fermetrar og jafnast á við heildarfermetra Egilshallar“ segir Hermann Sigurðsson framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta,. Samfélagið verður byggt upp á 10 manna flokkum með hámarki tveim frá hverri þjóð. Þátttakendur koma frá 106 þjóðum og eru á aldrinum 18-25 ára. Hermann segir að ekki sé hægt að treysta á íslenska veðráttu og því verðum við að vera við öllu búinn. Hann segir jafnframt að þetta samfélag eigi að vera sjálfbært og  þátttakendur kaupa í matinn í verslun mótsins og sjá sjálfir um sig. Í þjónustutjöldunum verða 120 eldavélar til þess að framleiða mat í 400 pottum. Má ætla að ýmis konar matarilmur blandist saman, halal, kosher, vegan og grænmetisréttir, auk hefðbundinnar íslenskrar matarlyktar.

Skátamótið hefst í Laugardalshöll á þriðjudagssmorguninn 25. júlí með hátíðlegri athöfn, en síðan dreifast skátarnir víða um land þar sem þeir munu m.a. stunda sjálfboðastörf á 11 ólíkum stöðum. Fjóra síðustu daga mótsins dvelur allur hópurinn, alls um 5000 manns, í tjaldbúðum á Úlfljótsvatni.

”Það krefst mikils undirbúnings að koma þessum stóru tjaldbúðum upp á Úlfljótsvatni”, segir Hermann. Hann segir að undirbúningur á svæðinu standi nú sem hæst en mennta- og menningarmálaráðuneytið lagði um 40 milljónir króna til verksins. Þessi vinna mun nýtast íslenskum skátum og þeim fjölskyldum sem nýta sér tjaldsvæðið um ókomna tíð, segir framkvæmdastjórinn.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar