Spennandi ævintýri á Írlandi

Hópur 11 rekkaskáta undir fararstjórn Silju Þorsteinsdóttur og Finnboga Jónassonar hélt af stað í leiðangurinn Auði djúpúðgu föstudaginn 7. apríl. Áfangastaðurinn var Larch Hill skátamiðstöðin skammt fyrir utan Dublin á Írlandi.

Með leiðangrinum Auði djúpúðgu er stigið nýtt skref í samstarfi BÍS og Scouting Ireland, en undanfarin ár hafa írskir dróttskátar komið til Íslands í febrúar og tekið þátt í The Crean Challenge Expedition ásamt íslenskum dróttskátum og ungliðum björgunarsveitanna.

Á meðan The Crean Challenge Expedition er ætlað að þjálfa þátttakendur í vetrarskátun er hugmyndin að baki leiðangrinum Auður djúpúðga að þjálfa rekkaskáta í sumarskátun í skóglendi.

Þegar komið var til Larch Hill tóku Írarnir á móti hópnum og skipt var í flokka og tjaldbúðin gerð klár. Þetta var algjör lúxus tjaldbúð með kojum í tjöldum og fleiri flottheitum. Fyrstu tveir dagarnir fóru í æfingar og undirbúning aðal leiðangursins sem farinn var á dögum 3-6. Farið var um skóglendi í nágrenni Larch Hill og gist í skála fyrstu nóttina en í skýlum, sem skátarnir byggðu sjálfir úr greinum sem þau fundi í skóginum, seinni næturnar. Á leiðinni voru stöðvar þar sem skátarnir lærðu ýmislegt sem Írarnir kalla „Backwood Skills“.

Að loknum leiðangrinum tóku við æfingar í háloftabrautinni í Larch Hill og var það mikil upplifun. Einnig ýmsir hópeflisleikir og annað skemmtilegt. Eins og Íslendinga er siður var líka kíkt „smá“ í búðir. Hópurinn kom svo sæll og glaður heim föstudaginn 14. apríl eftir skemmtilegan leiðangur.

BÍS og Scouting Ireland stefna að því að endurtaka leiðangurinn Auði djúpúðgu á næsta ári og viljum við benda rekkaskátum á að fylgjast með þegar auglýst verður eftir þátttakendum næsta haust.

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar