Söngur á Safnahelgi

Í dag hófst Safnahelgi á Suðurlandi en hátíðin er nú haldin í sjöunda sinn. Hátíðin í ár er með áherslu á söfn og sýningar og verður margt spennandi á dagskrá enda ríkt menningarlíf á Suðurlandi. Fræðasetur skáta Úlfljótsvatni og Skátakórinn láta ekki sitt eftir liggja og taka þátt af krafti!

Fræðasetur_skáta_Úlfljótsvatni_hefur_aðsetur_í_byggingu_Landsvirkjunar_við_Ljósafoss.„Fræðasetrið verður opið á morgun laugardag frá kl. 13:00-17:00 og þar gefst fólki kostur á að koma og kynna sér starfsemina” segir Gunnar Atlason fulltrúi Fræðasetursins. „Við höfum haft opið nánast allar helgar frá því við opnuðum formlega í febrúar á þessu ári og setrið er að stimpla sig sterkt inn á svæðinu. Hingað kemur fólk úr öllum áttum og svo hefur verið talsvert mikið um að skátahópar komi í heimsókn og þá sérstaklega þegar félögin eru með útilegur á Úlfljótsvatni” segir Gunnar.

„Á sunnudaginn ætlar Skátakórinn að leggja Safnahelgi lið og troða upp með söngdagskrá í Hellisheiðarvirkjun kl. 15:00, ekki síst í tilefni af afmælisdegi skátastarfs á Íslandi en hér í Fræðasetrinu látum við duga að smella góðri vínilplötu á grammafóninn með skátamúsík” bætir Gunnar brosandi við. Í Hellisheiðarvirkjun verður einnig kynning á skátastarfi og sýndar myndir og fleira skemmtilegt og eru allir sem vettlingi geta valdið hvattir til að kíkja þangað í sunnudagsbíltúrinn.

Hvað er að frétta af Fræðasetrinu?

„Af okkur er allt gott að frétta – hér gerast góðir hlutir hægt enda allt starf hér unnið í sjálfboðaliðavinnu. Áherslan í starfseminni verður að gera staðbundinni náttúru og sögu skil ásamt því að fræða um orkunýtingu og eru þessir efnisflokkar í markvissri vinnslu hjá okkur. Aðaláherslan síðustu mánuði hefur fyrst og fremst snúið að því að skrá og flokka þá skátamuni og -minjar sem okkur hafa borist. Búið er að skrá ríflega 600 bækur og blöð og mikil vinna hefur verið lögð í að flokka þau myndasöfn sem við höfum fengið. Áherslan er á að koma öllum ljósmyndum á stafrænt form og reyna að afla eins mikilla upplýsinga um hverja mynd og kostur er” segir Gunnar.

Þekkingaröflun

Gunnar bætir við að undanfarnir mánuðir hafi einnig verið nýttir vel í þekkingaröflun. Hópurinn hefur sótt ráðstefnur og kynningar á vegum Safnaráðs og er að byggja upp samstarf við fagaðila á þessu sviði. „Þetta er auðvitað langhlaup og við erum að horfa til næstu 10 ára í okkar áætlunum en draumurinn er að geta miðlað menningarfjársjóði skátastarfs á Íslandi í gegnum sýningar, opið hús í Fræðasetrinu og síðast en ekki síst á vefnum en til stendur að ljósmynda alla muni og sýna þá á vefnum auk þess sem Fræðasetrið er aðili að menningarsögulega gagnagrunninum Sarpur (www.sarpur.is) og vonir standa til að birta þar efni fljótlega á nýju ári.“

Staðsetningin

Fræðasetrið er staðsett í rúmgóðu húsnæði sem stendur 100 metra austan við Ljósafossstöð. Húsnæðið er í eigu Landsvirkjunar sem styður Fræðasetrið myndarlega með því að leggja til þetta húsnæði.

fsuSkátamunir og -minjar

„Við hvetjum alla þá sem vilja koma sínum munum og minjum í örugga varðveislu að hafa samband við okkur. Hægt er að hafa samband í síma 696 4063, senda tölvupóst á netfangið eittsinn@eittsinn.is eða koma efni í Skátamiðstöðina í Hraunbæ. Nauðsynlegt er að láta eins góðar upplýsingar og mögulegt er fylgja með. Við tökum svo við efninu, skráum, flokkum og leitumst svo við að sýna það og gera aðgengilegt eftir bestu getu“ segir Gunnar og bætir svo við að þeir sem eiga lausa stund og hafa áhuga á að taka þátt í starfinu séu endilega hvattir til að koma og vera með!

:: Nánari upplýsingar um Fræðasetur skáta
:: Nánari upplýsingar um Safnahelgi á Suðurlandi 2014

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar