Söfnunarkassarnir skynja þegar þeim er nóg boðið

Dósasöfnun skáta gengur vel og til að tryggja að söfnunarkassarnir yfirfyllist ekki hafa verið settir í þá skynjarar sem senda boð þegar tími er kominn á tæmingu. „Það má segja að þeir skynji þegar þeim er nóg boðið,“ segir Torfi Jóhannsson framkvæmdastjóri Grænna skáta, sem heldur utan um dósasöfnun skátanna.
Tvær kynslóðir söfnunarkassa. Nýir kassar taka meira magn og nú eru komnir í þá skynjarar

Tvær kynslóðir söfnunarkassa. Nýir kassar taka meira magn og nú eru komnir í þá skynjarar

„Það er fátt leiðinlegra fyrir þá sem vilja gefa okkur dósir en að koma að yfirfullum kassa,“ segir Torfi og bætir við að hagræðið sé einnig töluvert. „Nú fáum við boð þegar þarf að tæma kassana og erum að fullnýta ferðirnar. Með þessu móti skila gjafadósirnar sér betur í skátastarfið,“ segir hann, en dósirnar eru helsta fjáröflun skátanna.

Torfi segir þessa tækninýjung einnig öryggisatriði því einnig berist boð ef kassarnir fara á hliðina vegna veðurs eða af öðrum ástæðum.  „Við viljum hafa gámana í lagi og pláss í þeim þegar velunnarar okkar koma með dósir,“ segir Torfi sem hefur til þessa notið velvilja vegfarenda sem hafa látið vita þegar gámar hafa fyllst hraðar en tæmingarplanið gerði ráð fyrir.

Skynjararnir eru framleiddir af Finnska nýsköpunarfyrirtækið Enevo sem hefur 5 ára reynslu í þróun og framleiðslu á sjálfvirkum skynjurum fyrir ruslatunnur.  „Það er gaman að geta þess að framkvæmdastjóri og hugmyndasmiðurinn af þessum skynjurum, Fredrik Kekäläinen,  er gamall skáti sjálfur og hann á tvo unga skáta. Hann er mjög velviljaður þessu verkefni hjá Grænum skátum og fylgist vel með hvernig gengur,“ segir Torfi.  Reynslan af þeim skynjurum sem settir hafa verið í gáma lofar góðu og hefur þetta nýja fyrirkomulag þegar skilað sér í skilvirkari umsjón og þjónustu.

 

Tengd frétt: Margir njóta góðs af dósasöfnun skáta

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar