Slökkviliðsdrekar og Græna túrbótalningarvélin

Mikil spenna lá í loftinu hjá stórum hópi 8 – 9 ára drekaskáta sem safnaðist saman í Mosfellsbænum síðasta sunnudag. Mætingin var góð – 36 drekaskátar og foringjar, en hvert skyldi ferðinni heitið?  Það eina sem þau vissu var að endað yrði með vígslu og samveru með foreldrum í Litlaskógi, en það er skógarrjóður sem staðsett er fyrir hliðiná nýju slökkvistöðinni sem verið er að byggja við Skarhólabraut í Mosfellsbæ.

Eins og alltaf var forvitnin alveg að fara með drekaskátana í rútuferðinni á fyrsta áfangastað… –Erum við að fara á Korputorg? –Erum við að fara í Nóa Síríus? – Erum við að fara á Árbæjarsafn? Hugmyndirnar voru óteljandi en enginn giskaði á rétt fyrr en rútunni var lagt við Slökkvistöðina að Tunguhálsi. Þar tók svo á móti okkur stórskátinn Lárus St. Björnsson, Hraunbúi.

Að vera skáti er grunnurinn að þessu öllu

Slökkviliðsgallinn er pínu stór fyrir Drekaskáta

Slökkviliðsgallinn er pínu stór fyrir Drekaskáta

Lárus sagði drekaskátunum leyndarmálið á bak við að vera sjúkraflutningamaður og slökkviliðsmaður og björgunarsveitarmaður og alþjóðabjörgunarsveitarmaður. Það að vera SKÁTI er grunnurinn að öllu. Drekarnir fengu svo að skoða sjúkrabíl og slökkviliðsbíl og hin og þessi tæki. Einnig fengu þau að máta hjálm og jakka slökkviliðsmanna.

Að lokinni skoðun í slökkvistöðinni lá svo leið okkar í Skátamiðstöðina í Hraunbæ 123, en þar fengum við að skoða Túrbótalningarvélina hjá Grænum skátum. Nú vita allir drekaskátar í Mosverjum hvað verður um dósirnar sem lenda í dósakassanum okkar.

Drekaskátarnir og Græna túrbótalningarvélin

Drekaskátarnir og Græna túrbótalningarvélin

Vígsla í bræðralagið og sykurpúðagrill

Loks lá leið okkar í Litlaskóg en þar hittum við foreldra og systkini. Við kveiktum varðeld og 30 drekaskátar hlutu vígslu inn í bræðralag 48 miljón skáta um heim allann. Punktinn yfir i-ið í „Óvissuferð Drakó 2014“ settu svo sykurpúðagrill og notalegheit við eldinn.

 

:: Hvað eru Drekaskátar

Myndir: Andrés Þórarinsson og Mosverjar

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar