Skógarrjóður tekið í fóstur

Skátar í skátafélaginu Strók í Hveragerði tóku formlega við skógarrjóðri í fóstur þann 23.febrúar síðastliðinn. Félagið hefur ávallt gert sér dagamun í tengslum við fæðingardag Baden-Powell og nú var ákveðið að hafa það skógarferð um kvöld.
Eldurinn heillar  ... og bræðir sykurpúða

Eldurinn heillar … og bræðir sykurpúða

Skógarrjóðrið tilheyrir Skógrækt Hveragerðis og er undir Hamrinum fyrir ofan bæinn.  Þar var byrjað að planta trjám árið 1950 og núna er kominn myndarlegur skógur með bæði göngustíg og reiðvegi. Víða eru merkingar þar sem lesa má upplýsingar um ætt og uppruna einstaka trjáa og í skógarjaðrinum er útistofa grunnskólans, frumleg leiktæki úr afurðum skógarins og eldstæði  sem  mikið er notað af bæjarbúum jafnt sem grunnskólanum.

Hugmyndina að fóstrun rjóðursins á Guðrún Rósa Hólmarsdóttir skátamamma og drekaskátaforingi en sem slík er hún mjög meðvituð um  hvað drekar þurfa til að geta dafnað í sátt við náttúruna og í samveru við aðrar lifandi verur. Guðrún Rósa er líka skógarfræðingur hefur starfað hjá Hveragerðisbæ um nokkurra árabil og þekkir skóginn býsna vel  „Hérna var skógrækt, þá voru lítil tré sem þurftu umhyggju svo þau gætu lifað og vaxið, svo leið tíminn og núna er hérna skógur sem þarf umgengni og umönnun sem slíkur,“ segir Guðrún Rósa og bætir því við að skógar og fólk eigi góða samleið í leik og starfi, en við á Íslandi kunnum bara ekki alveg á það en sem komið er.

Skógarrjóðrið um vetur

Skógarrjóðrið um vetur

Helguðu sér land með skærlitu garni

Það var á haustmánuðum að skátar fóru í göngutúr og „helguðu sér land“ þetta gerðu þau með skærlitu garni sem foringinn var með í vasanum, römmuðu inn óskasvæðið, rjóðrið sitt.  Garnið var skilið eftir svo forsvarsmenn skógarins gætu áttað sig á staðsetningunni, þrátt fyrir mótmæli nokkurra  ungmennanna sem töldu að svona lagað gerði maður bara ekki, þetta garn myndi örugglega ekki eyðast í náttúrunni.

Vættir skógarins eru margar

Vættir skógarins eru margar

Þeir sem höfðu tekið þátt í helgun landsins um haustið töldu sig þekkja leiðina þegar haldið var af stað inn skóginn þetta febrúarkvöld.  En um vetur  í snjó og myrkri var þetta allt öðruvísi, allt nýtt ,allt framandi og ekki jafn augljóst að vita hvar rjóðrið er.  Sem betur fer höfðu forsjálir foringjar hengt upp nokkur ljós í rjóðrinu svo ekki þurfti að rangla um og leita að kennileitum í snjónum og skuggum trjánna. Þetta var því  tiltölulega auðvelt ferðalag.

Dulúð og álfaglimmer

Viðburðurinn var vandlega skipulagður, gestum boðið og veðrið pantað. Manneskjur komu saman á tilsettum tíma við útistofuna , gengu síðan fylktu liði með vasaljósin sín í vestur meðfram Hamrinum. Veðurpöntunin hafði   vissulega gengið eftir, smávegis frost, smávegis vindur sem þyrlaði  snjó dagsins fram og aftur um fótboltavöllinn  fyrir neðan skóginn og svo smávegis tunglsljós sem sendi dulúðlega geisla  inn í skóginni, á milli trjánna og fengu hjarnið og skafrenninginn til að glitra eins og fágætasta  áfaglimmer.

Á áfangastað las Sæbjörg Lind skátaforingi úr síðasta bréfi Baden-Powell.  Hún las það á ensku í tilefni þess að dróttskátarnir eru að fara til Bretlands í sumar, en í bréfinu segir m.a.: „ Reyndu að kveðja þennan heim ofurlítið betri og fegurri en hann var þegar þú komst í hann.  Þá veistu að þú hefur ekki lifað til einskis.“

Saga innblásin af ævintýraheimi skógarins

Þegar búið var að rannsaka rjóðrið um stund, skoða skuggana undir grenitrjánum, finna steininn sem er eins og borð (eða hús), hnjóta um brotin tré og hnoðast smávegis í snjónum var haldið til baka. Sumir þræddu sporin sín eftir stígnum aðrir styttu sér leið í gegn um skóginn og komu aðeins seinna að útistofunni þar sem búið var að tendra eld í eldstæðinu og draga fram sykurpúða, orkuríkt  kex með viðbættum sykri og heitan skógarsafa úr gómsætum berjum.

Ellen drekaskátaforingi sögu sem drekaskátar höfðu samið í sameiningu. Sagan var augljóslega innblásin af skóginum og þeim ævintýraheimi sem þar má finna, smellinn og skemmtileg og vel við hæfi að lesa í bjarmanum af eldinum og tunglsljósinu.

Það voru örlítið þreyttir skátar með kaldar tær en glampa í augum sem héldu heim á leið þetta kvöld, frekari verkefni í rjóðrinu bíða þar til snjóa leysir og jörðin vaknar af vetrardvala.  Verkefnið þangað til er að finna nafn á rjóðrið, hugsa ný ævintýri og hvernig sé hægt að gera heiminn betri og fegurri  og hlakka til.

 

 

 

 

 

 

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar