Nýkjörin stjórn BÍS
Skátaþingi 2017 er nú lokið en það fór fram í Háskólanum á Akureyri núna um helgina. Þingið var haldið á Akureyri í tilefni 100 ára afmælis skátastarfs þar. Skátaþing valdi sér nýja forystu í stjórn BÍS en 6 af 8  stjórnarmeðlimum koma nýjir inn í stjórn í ár. Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi. Dagmar Ýr Ólafsdóttir, aðstoðarskátahöfðingi. Anna G. Sverrisdóttir, gjaldkeri. Björk Norðdal, formaður Fræðsluráðs. Harpa Ósk Valgeirsdóttir, formaður Dagskráráðs. Jakob Guðnason, formaður Upplýsingaráðs. Þar af voru endurkjörinn Jón Þór Gunnarsson, formaður Alþjóðarráðs og Berglind Lilja Björnsdóttir, formaður Ungmennaráðs.

Landsmót skáta haldið 2020

Skátaþing 2017 samþykkti að næsta Landsmót skáta verður haldið árið 2020. Landsmót skáta var seinast haldið sumarið 2016 á Úlfljótsvatni og má því gera ráð fyrir því að næsta Landsmót verði að Hömrum á Akureyri . Það eru því fjögur ár í næsta Landsmót. Til að stytta biðina fram að næsta Landsmóti er áætlað að halda aldursbilamót sumarið 2018 fyrir hvert aldursbil fyrir sig, sbr. Drekaskátamót fyrir drekaskáta, Fálkaskátamót fyrir fálkaskáta osfrv. Áætlað er að hafa þessi aldursbilamót veglegri árið 2018 en vanalega.

Ákvörðunin kom í kjölfar umræðuhóps um tímasetningu næsta Landsmóts. Fleiri umræðuhópar voru haldnir á laugardeginum og voru umræðuefnin meðal annars um nýju Forsetamerkisbókina og stuðningur við fullorðna sjálfboðaliða. Þá skelltu einhverjir sér í skemmtigöngu um Glerárdal.

Hækkun róverskátaaldurs upp í 25 ára

Nokkrar lagabreytingar voru samþykktar á Skátaþingi. Lagabreytingartillaga um breytingu á 19. grein laga sem snýr um aldursdreifingu atkvæða var samþykkt svo að nú er æskilegt að í hverju skátafélagi sé ungmennafulltrúi á aldrinum 18–25 ára með atkvæði á Skátaþingi.

Lagabreytingartillaga frá Ungmennaþingi um að hækka róverskáta aldurinn upp í 25 ára var samþykkt en áður var róverskáta aldurinn einungis upp í 22 ára. Einnig var kosið um hvort að aðild B að BÍS skyldi hækkað upp í 26 ára. Ákveðið var að aðild B helst óbreytt og verður áfram fyrir 23 ára og eldri. Þá var starfsáætlun BÍS til næstu fimm ára einnig samþykkt.

Heiðursmerki

Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi, veitti fráfarandi stjórnarmeðlimum heiðursmerki fyrir vel unnin störf í þágu hreyfingarinnar:

 • Bragi Björnsson, fyrrverandi skátahöfðingi – Silfurúlfurinn og gullmerki BÍS
 • Fríður Finna Sigurðardóttir, fyrrverandi aðstoðarskátahöfðingi – Þórshamarinn úr silfri
 • Sonja Kjartansdóttir, fyrrverandi gjaldkeri – Skátakveðjan úr silfri
 • Una Guðlaug Sveinsdóttir, fyrrverandi formaður Dagskrárráðs – Þórshamarinn úr bronsi
 • Heiður Dögg Sigmarsdóttir, fyrrverandi formaður Upplýsingaráðs – Þórshamarinn úr bronsi

Ólafur Proppé, fyrrverandi formaður Fræðsluráðs hefur nú þegar unnið sér inn æðstu heiðursmerki BÍS og því fékk hann afhentan blómvönd í staðinn í þakklætisskyni fyrir sín störf.

Meðlimir Pepphópsins voru heiðruð með þjónustumerki BÍS, Silfraða Liljan og Smárinn fyrir vel heppnuð og vinsæl Skátapepp:

 • Benedikt Þorgilsson
 • Sigurgeir B. Þórisson
 • Egill Erlingsson
 • Sif Pétursdóttir
 • Anna Marta Söebech
 • Berglind Lilja Björnsdóttir
 • Marta Magnúsdóttir
 • Harpa Ósk Valgeirsdóttir
 • Elínborg Ágústdóttir
 • Kári Gunnlaugsson
 • Ragnheiður Ásta Valgeirsdóttir
 • Jón Freysteinn Jónsson

Bleiki Ramminn og nýtt Skátaskaup

Bleiki Ramminn, verðlaun Upplýsingaráðs voru veitt í fyrsta skipti á þinginu. Verðlaunin hljóta þau félög eða einstaklingar sem hafa skarað fram úr í upplýsingamálum á liðnu ári en verðlaunahafar fyrir árið 2016 eru:

 • Skátafélagið Landnemar fyrir bestu heimasíðuna
 • Skátafélagið Faxi fyrir skemmtilegustu Facebook síðuna
 • Ævar Aðalsteinson, Mosverjum, fyrir bestu fréttagreinina
 • Roverwayhópurinn Rif fyrir skemmtilegasta snappið

 

Fyrsta skátaskaupið síðan 2012 var einnig frumflutt við góðar viðtökur þingsgesta. Skátaskaupið var skrifað, framleitt, klippt og leikið af rekka og róverskátum. Þingi lauk um hálfsjö en nýkjörinn skátahöfðingi, Marta Magnúsdóttir leiddi slit í fyrsta sinn með bræðralagssöngnum.

Ljósmynd tók Halldór Valberg.