Skátaþing 2017 var formlega sett í gærkvöldi í Háskólanum á Akureyri. Fríður Finna, starfandi skátahöfðingi bauð gesti velkomna. Ávörp héldu Matthías Rögnvaldsson, bæjarfulltrúi og forseti bæjarstjórnar Akureyrar, Jóhann Malmquist, nýkjörinn félagsforingi skátafélagsins Klakks og Hrefna Hjálmarsdóttir, fulltrúi Akureyrargilda og stórskáti. Skátastarf á Akureyri fagnar nú í ár 100 ára afmæli og er þingið hluti af dagskrá afmælisársins sem félagið leggur mikið í.

 

Fundarstjórar í ár eru þeir prýðismenn Ingimar Eydal og Kjartan Ólafsson. Þingið var komið á fullt skrið þegar Fríður Finna veitti heiðursmerki bandalagsins. Heiðursmerki eru afhent fyrir vel unnin störf í þágu skátahreyfingarinnar. Þau sem fengu viðurkenningu að þessu sinni voru:

 

  • Bergný Dögg Sóphusdóttir, Skátafélag Akraness – Þórshamarinn úr bronsi
  • Brynja Þorsteinsdóttir, Skátafélag Borgarness – Þórshamarinn úr bronsi
  • Elín Ester Magnúsdóttir, Úlfljótsvatni – Þórshamarinn úr bronsi
  • Hildur Haraldsdóttir, Eilífsbúum – Þórshamarinn úr bronsi
  • Hreiðar Oddson, Kópum – Þórshamarinn úr bronsi
  • Ólöf Jónasdóttir, Klakki – Þórshamarinn úr bronsi
  • Jón Þór Gunnarsson, Stjórn BÍS – Þórshamarinn úr bronsi
  • Hafdís Bára Kristmundsdóttir, Vífli – Þórshamarinn úr silfri

 

Þá veitti Fríður Finna eftirfarandi nýjum félagsforingjum skipunarbréf. Kosið var í allsherjarnefnd og kjörnefnd og voru frambjóðendur sjálfkjörnir í þær stöður.

Eftir þá kosningu var haldið í kaffipásu sem heppnaðist vel. Eftir góða pásu var farið í dagskrárbreytingartillögur en það tók lengri tíma en áætlað var þar sem kjörnefnd var ekki búin að fara yfir öll nauðsynleg gögn og þar af leiðandi enginn kominn með atkvæði. Þess í stað skellti þingið sér í skýrslu stjórnar og umræður um hana.

 

Við störf þingsins núna um helgina er notast við eitt magnaðasta tækniundur 21. aldarinnar en þetta eru litlar fjarstýringar sem tengjast tölvukerfi, þessar fjarstýringar nýtast einkar vel við atkvæðagreiðslu á þinginu en það fór þó óhóflega mikill tími í að setja sjálft kerfið upp.

 

Annað tækniundur kynnti fundarstjórinn Kjartan Ólafsson fyrir þinginu í gær þegar hann henti stórum rauðum kubb í átt að saklausum viðmælanda, kom þó í ljós að mjúki kubburinn var hljóðnemi. Endaði þetta þó ekki betur en svo að kubburinn hitti einn kakóbollann og úr varð að gott kakó fór til spillis.

 

Svo var farið yfir í fjármálin en sá liður þingsins hefur orð á sér að verða lengri en dagskrá gerir ráð fyrir. Sonja Kjartansdóttir, formaður Fjármálaráðs stal algjörlega senunni með einum mögnuðustu fjármálaglærum sem sést hafa við kynningu ársreikninga hjá BÍS.

 

Þrátt fyrir að gengið hafi vel að komast í gegnum dagskrá þingsins og öflugar uppbyggjandi umræður vöknuðu ýmiss málefni þá náðist ekki að klára þá dagskrárliði sem taka átti fyrir í gærkvöldi og var því gert fundarhlé til 9 í morgun. Hefst nú spennandi þingdagur þar sem nýr skátahöfðingi verður kosinn

 

Höfundar: Magnús Geir Björnsson, Halldór Valberg Skúlason, Sunna Líf Þórarinsdóttir