Skátasveitin

form_2jadalka_skatasveitin

Skátasveitin er stuðningskerfi flokkanna og er samsett úr öllum flokkunum sem eru á sama aldursstigi, ásamt fullorðnu sveitarforingjunum sem styðja við starf þeirra. Þegar margir skátar eru á hverju aldursstigi í skátafélagi eru stundum myndaðar fleiri en ein skátasveit. [quote_box_right]Helsta hlutverk skátasveitanna er að hafa umsjón með og styrkja flokkakerfið og styðja frjálsræði og sjálfstæði skátaflokkanna.[/quote_box_right]

Hvers vegna skátasveit?

Af hverju þurfum við skátasveit ef skátaflokkarnir geta starfað einir og sér?

 • Vegna þess að flokkar þurfa á lágmarks skipulagsramma að halda til að uppfylla tvíþætt hlutverk sitt, annars vegar sem hópur jafningja og hins vegar sem lærdómssamfélag.
 • Vegna þess að flokkar þurfa vettvang þar sem skátarnir geta haft áhrif hver á annan, verið fyrirmyndir og metið sína eigin frammistöðu.
 • Vegna þess að leiðtogar lítilla hópa þurfa á lærdómssamfélagi að halda þar sem þeir geta lært leiðtogafærni.
 • Vegna þess að flokkarnir þarfnast umhverfis þar sem hægt er að fá hvatningu frá fullorðnum, án þess þó að þeir skipti sér beint af starfinu innan flokkanna.

Sveitarforingjarnir og aðrir fullorðnir sjálfboðaliðar verða að vera meðvitaðir um ábyrgð sína en gæta þess um leið að skipta sér ekki of mikið af starfi flokkanna. Skátasveitin má ekki taka yfir starfssvið flokksins eða skapa aðstæður sem hefta, takmarka eða draga úr sjálfstæði hans með beinum eða óbeinum hætti.

Skátasveitin ber ábyrgð á að beita öllum þáttum Skátaaðferðarinnar á samræmdan hátt, með öðrum orðum að tryggja að börn, unglingar og ungmenni upplifi það sem við köllum skátastarf. Unga fólkið gerist ekki skátar til að „mennta sig“ heldur heillast fyrst og fremst af því ævintýri sem felst í að kanna ný svið og nema nýjar lendur með vina- og jafningjahópnum.

Stærð skátasveitarinnar

Kjörstærð skátasveitar er 3-5 skátaflokkar – hver um sig með 5-8 skátum. Reynslan hefur sýnt að þrír til fimm flokkar í sveit er hagstæðasta fyrirkomulagið. Með því móti gefast góð tækifæri til samstarfs og sameiginlegu verkefnin verða áhugaverðari. Í skátasveit þar sem aðeins eru tveir flokkar eru gagnkvæm áhrif í lágmarki og sameiginleg verkefni ekki eins spennandi. Ef flokkarnir eru hins vegar fleiri en fimm þyngir það allt skipulag. Það minnkar möguleika á persónulegum stuðningi sveitarforingjanna við flokksforingjana, aðstoðarflokksforingjana og einstaka skáta.

Annað eða bæði kynin í sömu skátasveit?

Eins og á við um flokkana eru skátasveitir ýmist blandaðar eða kynjaskiptar. Ákvörðun um samsetningu sveitarinnar er tekin af sveitarráði og hverjum skátaflokki fyrir sig á grundvelli hefða, reynslu og uppeldislegra möguleika.
Í blandaðri skátasveit er mikilvægt að muna:

 • Koma þarf eins fram við alla flokkana. Þeir hafa sömu réttindi og skyldur, sama hvernig þeir eru samsettir og ekki má mismuna þeim á nokkurn hátt.
 • Verkefni sveitarinnar mega ekki ýta undir staðalímyndir kynjanna eins og þær birtast oft í samfélaginu. Ekki skal gera neinn greinarmun á verkefnum stelpna og stráka. Ferlið við að velja verkefni fyrir næsta dagskrárhring, sem er oftast 2-4 mánaða starfstímabil, hjálpar til við að sporna gegn slíkri mismunun kynjanna þar sem að það býður hverjum flokki upp á sjálfstætt verkefnaval.
 • Skátasveitin ætti að bæta vitund um kynjamun inn í uppeldisáætlun sína og leggja áherslu á þá möguleika sem felast í því að vera karl eða kona.
 • Sveitarstarfið ætti að tryggja að kynin viðurkenni og þekki hvort annað og virði vináttu hvort annars. Samstarf og samvinna flokkanna ætti að stuðla að því að kynin bæti hvort annað upp.
 • Foringjaflokkurinn, sem samanstendur af sveitarforingja og aðstoðarsveitarforingjum, þarf að vera blandaður og það er ráðlegt að sá sveitar- eða aðstoðarsveitarforingi hvers skáta sem er honum innan handar við markmiðasetningu og endurmat sé af sama kyni og hann. Það gerir skátunum bæði kleift að fylgjast með og læra af samvinnu fullorðnu sjálfboðaliðanna í foringjaflokknum og að samsama sig fyrirmyndum af sama kyni.

Starfið í skátasveitinni

Starfið í skátasveitinni er í rauninni allt það sem gerist í skátaflokkunum og sveitinni sem heild. Skátasveitin er lítið samfélag sem samanstendur af ungu fólki og fullorðnum sjálfboðaliðum. Þegar góður andi ríkir í sveitarstarfinu og tekið er tillit til þarfa og áhuga allra leggur hver og einn sitt af mörkum til að starfið gangi vel.

Þegar markmiðin, verkefnin, sveitarstarfið og uppbygging sveitarinnar mynda samhæfða heild er mun meiri kraftur í skátastarfinu. „Lýðræði“ er mikilvægt málefni sem þarf að leggja áherslu á. Hæpið er að ungmenni þrói með sér lýðræðislega hugsun með því að leggja eingöngu áherslu á verkefni sem auka fyrirfram ákveðna þekkingu. Sveitarforingjarnir þurfa alltaf að spyrja sig eftirfarandi spurninga:

 • Gefur val og framkvæmd verkefnisins tækifæri til að kynnast lýðræði?
 • Deila allir í hópnum með sér ábyrgð og leggja sitt af mörkum til þess að starfið gangi vel?
 • Hafa sveitarforinginn eða aðstoðarsveitarforingjarnir getu til að hlusta á unga fólkið og bjóða því upp á tækifæri til að taka ábyrgð miðað við getu?

Til að draga þetta saman: Hverju er hægt að breyta í sveitarstarfinu, í tengslum fullorðnu sjálfboðaliðanna og skátanna, í verkefnunum sem skátarnir framkvæma, til þess að styðja betur við uppeldismarkmið skátastarfs?

Uppbygging skátasveitarinnar

Auk skátaflokkanna starfa í hverri skátasveit þrjár aðrar skipulagseiningar:

 • Sveitarþingið
 • Sveitarráðið
 • Foringjaflokkurinn

Þær eru hluti af sveitinni og virka sem stuðningskerfi fyrir flokkakerfið.

Sveitarþingið

Sveitarþing er fundur þar sem grunnreglur og markmið sveitarinnar eru ákveðin af skátunum. Sveitarþing getur verið hluti af dæmigerðum sveitarfundi, til dæmis eitt korter í upphafi hans þegar mikilvægar ákvarðanir liggja fyrir.
Hver skáti tekur þátt í sveitarþingi sem einstaklingur en ekki sem fulltrúi flokks síns. Sveitarþingið fundar að minnsta kosti tvisvar í hverjum dagskrárhring (sem spannar oft 2-4 mánuði) eða oftar ef aðstæður krefjast þess. Sveitarþingi er stjórnað af skáta sem kosinn er til verksins við upphaf þess. Sveitarforingjarnir taka þátt í sveitarþingum þó að þeir hafi ekki atkvæðisrétt.
Þar sem reglurnar sem samþykktar eru á sveitarþingi snerta alla fá allir skátarnir að segja álit sitt á þeim og taka þátt í ákvarðanatökunni. Sveitarþingið:

 • Tekur árlega ákvörðun um markmið sveitarinnar eins og þau koma fram í áætlun hennar. Með öðrum orðum, það skapar framtíðarsýnina.
 • Ákveður sameiginleg verkefni sem framkvæma á í hverjum dagskrárhring og samþykkir sveitaráætlunina þegar hún hefur verið sett upp af sveitarráðinu.

Sveitarráðið

Sveitarráð skátasveitar er samsett af sveitarforingjaflokki sveitarinnar, ásamt flokks- og aðstoðarflokksforingjum hvers flokks. Hlutverk þess er fyrst og fremst að skipuleggja sveitarstarfið, samhæfa viðburði og verkefni og stýra þjálfun flokks- og aðstoðarflokksforingjanna.

Sveitarráðið fundar að minnsta kosti einu sinni í mánuði og er yfirleitt stjórnað af sveitarforingjanum, þó að aðstoðarsveitarforingjarnir geti gripið inn í þegar þarf. [quote_right]Sveitarráðið skipuleggur sveitarstarfið, samhæfi viðburði og verkefni og stýrir þjálfun flokks- og aðstoðarflokksforingjanna. [/quote_right]

Þar sem allir flokks- og aðstoðarflokksforingjar eru í sveitarráðinu taka allir flokkarnir þátt í ákvarðanatöku um sameiginleg verkefni. Til þess að þetta fyrirkomulag skili árangri þurfa skátarnir að vita fyrirfram um það sem taka á fyrir á sveitarráðsfundi svo að þeir geti látið skoðanir sínar og flokksins síns í ljós. Allir skátarnir í sveitinni sýna einhug um þá ákvörðun sem tekin er hver svo sem þeirra persónulega skoðun kann að vera.
Sveitarráðið stýrir samhæfingu viðburða og verkefna sveitarinnar og hefur því góða yfirsýn yfir samskipti og samvinnu flokkanna.

Foringjaflokkurinn

Í sveitarforingjaflokknum, sem oftast er einfaldlega kallaður „foringjaflokkur“, eru fullorðnir sjálfboðaliðar hverrar skátasveitar, þ.e. sveitarforinginn og allir aðstoðarsveitarforingjarnir. Hann metur starf sveitarinnar og framfarir skátanna og veitir uppeldisfræðilega leiðsögn og stuðning.

Æskilegt er að foringjaflokkur sveitarinnar samanstandi af einum sveitarforingja eða aðstoðarsveitarforingja fyrir hverja 8-10 skáta í sveitinni. Fjögurra flokka skátasveit með 20-28 ungum skátum þarf því þrjá til fjóra fullorðna sjálfboðaliða, einn sveitarforingja og tvo eða þrjá aðstoðarsveitarforingja. Það skiptir miklu máli að vinnan við stjórnun sveitarinnar leggist ekki öll á einn eða tvo einstaklinga. Ef það gerist er hætt við að fólk gefist upp og dragi sig í hlé.

[quote_box_left]Það er mikilvægt að starfið í foringjaflokknum sé skemmtilegt og gefandi.[/quote_box_left]Foringjaflokkurinn hittist að jafnaði viku- til hálfsmánaðarlega og er stjórnað af sveitarforingjanum. Það er mikilvægt að starfið í foringjaflokknum sé skemmtilegt og gefandi. Félagslegri þörf sveitarforingjanna innan jafningjahóps þarf að sinna til þess að sveitarforingjastarfið verði áhugavert en ekki óþægileg byrði. Foringjastörfin með skátunum verða þá ánægjulegur afrakstur vandaðrar undirbúningsvinnu – nokkurs konar uppskeruhátíðir. Upplagt getur verið að vinahópur, jafnvel tvenn hjón eða sambýlisfólk, sæki leiðtogaþjálfun skátahreyfingarinnar og taki svo að sér að leiða skátasveit í tvö eða þrjú ár.

Hlutverk sveitarforingjanna

Sveitarforingjarnir eru fyrst og fremst í hlutverki óbeinna leiðbeinenda um uppeldi og menntun, bæði sem hópur og einstaklingar, með því að:

 • Skapa aðstæður fyrir sveitarstarfið.
 • Hvetja skátana til dáða og hjálpa þeim að vaxa og þroskast.
 • Vekja athygli á markmiðum skátahreyfingarinnar og framtíðarsýn sveitarinnar.
 • Ganga úr skugga um að allir þættir Skátaaðferðarinnar séu nýttir í sveitarstarfinu og skapa skilyrði fyrir lærdómsvettvang í flokkunum.
 • Vinna sem liðsheild, skynja áhættu og stýra forvörnum.
 • Undirbúa sveitarþing og sveitarráðsfundi og gæta þess að þar séu teknar ákvarðanir sem hæfa þroska skátanna í sveitinni.
 • Fylgjast með og meta framfarir hvers skáta, gæta vel að persónuverndar sjónarmiðum og vernda börn og ungmenni fyrir hvers kyns ofbeldi, einelti eða misbeitingu valds.
 • Stuðla að virku foreldrasamstarfi.

Sveitarforingjarnir skipta á milli sín verkum eftir persónuleika, reynslu, þekkingu og aðstæðum hvers og eins. Ef skátasveitin er kynjablönduð er mikilvægt að foringjaflokkurinn sé það líka.