Skátahreyfingin er uppeldishreyfing

form_2jadalka_skatastarfermenntun

Skátahreyfingin er uppeldishreyfing sem stefnir að því að hver skáti læri smám saman á þroskaferli sínum frá barnsaldri til fullorðinsára að vera sjálfstæður, virkur og ábyrgur og láta gott af sér leiða í samfélaginu.  Skátastarf er óformlegt uppeldisstarf sem byggir á því að efla sjálfsnám ungs fólks með því að nýta tómstundir þess til uppbyggjandi verkefna.

Hvað er menntun?

Samkvæmt skilgreiningu alþjóðasamtaka skáta er skátahreyfingin fyrst og fremst uppeldishreyfing. Uppeldi og menntun er ævilangt ferli sem felur í sér alhliða þroska og aukna færni. Hugtakið menntun á því ekki eingöngu við um formlegt nám eða skólagöngu.

Ævilangt ferli:

Manneskjan byrjar að þroskast í æsku og heldur því áfram alla ævi. Í þroskaferlinu eru tímabil sem einkennast af auðveldum og erfiðum viðfangsefnum og stundum er mikil þörf á stuðningi.

 • Þroskinn er alhliða: Tilgangurinn með menntun er að einstaklingurinn verði sjálfstæður, virkur og ábyrgur þjóðfélagsþegn:
  • Sjálfstæður: Geti tekið eigin ákvarðanir og stjórnað eigin lífi.
  • Virkur: Hafi frumkvæði, sé til staðar fyrir aðra, standi við orð sín og ljúki því sem hann byrjar á.
  • Ábyrgur: Beri ábyrgð á afleiðingum gjörða sinna. Leitist við að fylgja eigin gildismati og lifa samkvæmt eigin sannfæringu.
 • Sem einstaklingur: Aukin færni á öllum þroskasviðunum sex: Í líkamsþroska, vitsmunaþroska, tilfinningaþroska, persónuþroska, félagsþroska og andlegum þroska.
 • Sem hluti af samfélagi: Einstaklingurinn sýnir æ meiri umhyggju fyrir öðrum eftir því sem hann þroskast og á auðveldara með að setja sig í spor annarra. Hann áttar sig á því að hann er hluti af sögu og þróun samfélags.

Hugtökin menntun og þroski fylgjast allaf að. Menntun leiðir af sér þroska og eykur hæfni til að lifa í samfélaginu.

Fjórar grunnstoðir menntunar

Grunnstoðir menntunar eru fjórar:

 • Að auka þekkingu með því að  tengja nýja þekkingu við það sem áður var lært og endurnýja sífellt þekkingu sína. Þannig eykst hæfnin til að njóta þess sem lífið býður upp á.
 • Að læra að framkvæma og starfa með öðrum. Þetta eflir færni í samskiptum og nýtist á vinnumarkaði sem og í lífinu almennt.
 • Að læra að lifa í samfélagi við aðra, geta sett sig í spor annarra og vinna með öðrum. Í þessu felst skilningur á lýðræðislegri hugsun og aukin færni í að jafna ágreining og að stuðla að friði og réttlæti.
 • Að eflast sem manneskja, öðlast aukinn þroska og sjálfstæði og að læra að taka skynsamlegar og ábyrgar ákvarðanir. Í þessu samhengi er augljóst að við menntun og sjálfsmenntun þarf að taka tillit til allra eiginleika hvers einstaklings og byggja á styrk og færni hvers og eins.

Þrjú menntakerfi

Hver einstaklingur tekur út þroska sinn og menntast á fleiri en einum vettvangi. Sameinuðu þjóðirnar (UNESCO) skilgreina þrjú menntakerfi.

 • Formlegt menntakerfi (formal education) er stigskipt og aldursskipt menntakerfi sem nær frá leikskóla yfir í æðri menntastofnanir. Yfirleitt rekið af eða viðurkennt af opinberum aðilum – ríki eða sveitarfélögum.
 • Óformlegt menntakerfi (non-formal education) er skipulögð dagskrá og viðburðir – jafnvel námsbrautir – sem eiga sér stað utan formlega menntakerfisins og er ætlað að þjóna tilteknum hópi fólks með skilgreind lærdóms-, menntunar- og uppeldismarkmið. Oftast rekið af óopinberum aðilum, félagasamtökum eða sjálfseignarstofnunum.
 • Formlaust nám (informal education) er sá þroski sem hver og einn öðlast í daglegu lífi í samveru með fjölskyldu, vinum, jafningjum eða vinnufélögum. Einnig koma til sögunnar fjölmiðlar og aðrir áhrifavaldar sem hafa áhrif á viðhorf, gildismat og þekkingu. Stundum er talað um „skóla lífsins“.

Menntakerfi skátahreyfingarinnar

Sem uppeldishreyfing fyrir börn og ungt fólk fellur starf skátahreyfingarinnar mjög vel undir ofangreinda skilgreiningu á óformlegu menntakerfi.

 • Markmiðið er að stuðla að þroska barna og ungs fólks þannig að það verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu.

Það felur í sér allar fjórar grunnstoðir menntunar; að auka þekkingu, að læra að framkvæma, að læra á lífið og að eflast sem manneskja.

Að auki einkennist nálgun skátahreyfingarinnar af eftirtöldu:
 • Heildstæðu uppeldi barna og ungs fólks.
 • Hún leitast við að ná uppeldismarkmiðunum með því að stuðla markvisst að sjálfsuppeldi og reynslunámi einstaklingsins.
 • Sem óformleg menntun er skátastarf viðbót við annað í uppeldi og menntun ungs fólks.

Ofangreind atriði eru skýrð nánar hér fyrir neðan.

Heildstætt uppeldi ungs fólks

Í augum skátahreyfingarinnar er sérhvert ungmenni:

Flókin manneskja sem mótast af umhverfi sínu. Þar af leiðandi snýst skátastarf um að stuðla að alhliða og heildstæðum þroska hvers og eins:

 • Þroskasviðin sex eru innbyrðis tengd og hafa áhrif hvert á annað.
 • Víðtæk reynsla eflir heildarþroska einstaklingsins.

Einstaklingur með eigin sögu, eiginleika, þarfir, hæfni og þroska.

Þar af leiðandi miðar skátastarf við það að hver og einn öðlist heildarþroska á eigin verðleikum:

 • Sérhvert ungmenni þroskast á sínum hraða. Þroski á ólíkum sviðum gengur misjafnlega hratt fyrir sig, með þroskastökkum á sumum sviðum og hléum á öðrum. Reynt er að styðja hvern og einn til þroska eftir því sem við á.
 • Hver og einn er einstakur og því skal hlúð að hæfni hvers og eins á eigin forsendum. Hann er ávallt hvattur til að gera sitt besta og því er reynt að þroska hæfni á forsendum hvers og eins („gera sitt besta“).

Óaðskiljanlegur hluti af samfélaginu sem hann tilheyrir.

Skátastarf snýst því um að efla þroska og tengsl einstaklings við samfélagið.

 • Ungmennin læra að upplifa sig sem þátttakendur í samfélagi og rækta með sér tilfinningu þess að tilheyra. Það hjálpar honum eða henni að finna tilgang í lífinu. Ungmenni þurfa að fá tækifæri til virkni í samfélaginu og að auka vitund sína um tengslin við fjölskyldu, nærsamfélag og heiminn í heild. Þannig eykst skilningur á menningarlegri arfleifð, náttúrunni og umhverfinu.
Sjálfsmenntun og reynslunám

Á grundvelli ákveðinna grunngilda, leitast skátahreyfingin við að stuðla að þroska ungs fólks með skýrt skilgreindri uppeldisaðferð – Skátaaðferðinni. Í því felst að hverjum skáta gefst kostur á að setja sér þroskamarkmið:

 • Þegar skátinn hefur ákveðið að gerast skáti og farið með skátaheitið hefur hann lofað sjálfum sér að vera „virkur við eigið uppeldi“. Starfið þróast svo með tímanum.
 • Skátastarfið hefur ekki þann tilgang að fá ungmenni til að fylgja tilteknu þröngu kerfi. Skátanum gefst kostur á að efla færni sína til að ná þroska á sem flestum sviðum.
 • Hægt er að tala um árangur af skátastarfi þegar skátinn hættir í formlegu skátastarfi með jákvætt viðhorf til fullorðinsáranna og tekst á við þau einbeittur og meðvitaður um að lifa lífinu sem sjálfstæður, virkur og ábyrgur einstaklingur. Markmiðið er að skátinn verði „leiðtogi í eigin lífi“.
Viðbót við annað í lífi ungmenna

Eins og kom fram í kaflanum um menntakerfin þrjú hér að framan, koma þau öll þrjú að  þroskaferli hvers einstaklings. Skátastarf er hluti af óformlega menntakerfinu og þar af leiðandi er hægt að segja að framlag skátahreyfingarinnar sé viðbót við formlega menntakerfið og „skóla lífsins“. Innan skátahreyfingarinnar er ekki lögbundið formlegt uppeldis- og menntunarstarf eins og er í skólum. Uppeldismarkmiðunum er heldur ekki náð á tilviljunarkenndan hátt eins og gerist í formlausu námi innan fjölskyldna, meðal jafningja, á vinnustöðum eða vegna áhrifavalda á borð við internet, sjónvarp eða aðra fjölmiðla. Skátastarfið gegnir afmörkuðu hlutverki. Það kemur ekki í staðinn fyrir fjölskyldulíf, skólagöngu eða aðrar stofnanir sem hafa áhrif á þroska barna og ungmenna. Þar af leiðandi er hlutverk skátaforingja og annarra leiðtoga í skátastarfi sérstaklega skilgreint. Þeir eru því ekki ígildi kennara, foreldra, yfirmanns, íþróttaþjálfara eða prests.