Skátastarfið býr mann undir lífið

„Ég hef fylgst vel með því sem forseti hvernig skátastarfið hefur haldið áfram að eflast og styrkjast,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. „Ég byrjaði vestur á Ísafirði sem ungur strákur í skátunum og hélt áfram þegar ég flutti til Reykjavíkur. Veganestið sem maður fær endist manni alla ævi. Bæði félagsskapurinn, aginn, þjálfunin, það sem maður lærir og ég held að skátastarfið undirbúi mann undir lífið miklu betur heldur en þeir gera sér grein fyrir meðan þeir eru ungir skátar“.

Forseti Íslands heimsótti Landsmót skáta að Hömrum á Akureyri í sumar. Þá var tækifærið notað og rætt við hann um skátana og viðtalið er nú hluti af einu af sjö myndböndum sem gerð hafa verið til kynningar á skátastarfi.

[embedyt]http://www.youtube.com/watch?v=5ONb0eu7hU0[/embedyt]

Sjálfstraust, friður og samfélagsleg ábyrgð

Bragi Björnsson skátahöfðingi fylgdi forsetanum um Landsmótssvæðið. Hann hefur einnig góða reynslu af skátastarfi. „Sú þekking og reynsla sem ég hef öðlast í skátunum, hefur hjálpað mér í skólanum og átvinnulífinu,“ segir Bragi. „Einkennandi fyrir skáta er sjálfstraust þeirra að takast á við allt milli himins og jarðar, jafnvel þegar aðrir hika, segir hann.

Bragi telur einnig að sá friðarboðskapur og sú samfélagslega ábyrgð sem skátarnir standa fyrir eigi ríkt erindi í dag og framtíðinni. Hann rifjar upp orð upphafsmanns skátahreyfingarinnar Baden Powell sem sagði: „Besta leiðin til að koma á friði milli manna er að þeir kynnist og eyði fordómum.“  Bragi segir að sú stemning sem ríkir á Landsmóti og annars staðar þar sem skátar koma saman leggi friði lið og byggi brýr milli ólíkra menningarhópa.

Það hjálpar að vera í skátunum

Í myndböndunum sem eru tekin á Landsmótinu í sumar er brugðið upp skemmtilegum svipmyndum og rætt við fleiri skáta um hvað sé svona merkilegt við að vera í skátunum. Þau segja frá því hvernig skátar losna við feimnina. Niðurstaðan er skýr: „Það hjálpar alveg að vera í skátunum.“

 

Þeir sem vilja vera í skátunum geta skráð sig á kynningarvefnum skatarnir.is

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar