Skátastarf er alþjóðastarf

„Ég finn mikinn meðbyr með verkefnum skátahreyfingarinnar og það er mikilvægt að við göngum í takt til að njóta hans“ segir Jón Þór Gunnarsson, sem tók við formennsku í alþjóðaráði Bandalags íslenskra skáta á Skátaþingi í byrjun apríl.
Jón Þór Gunnarsson leiðir starf alþjóðaráðs BÍS

Jón Þór Gunnarsson leiðir starf alþjóðaráðs BÍS

Það er einkum þrennt sem Jón Þór telur að muni byggja upp vöxt innan skátahreyfingarinnar á næstu árum og nýta meðbyrinn. „Ég er viss um að þátttaka fullorðinna í skátastarfi er mjög þarft skref til að byggja upp vöxtinn. Þá er nýr starfsgrunnur að skila árangri og ég tel að eitt fyrsta merki þess sé fjölgun skáta á Landsmóti sem haldið verður í sumar. Á landsmóti, eins og í nýja starfsgrunninum, hafa flokkarnir meira um sína dagskrá að segja en áður.  Þriðji þátturinn er svo dagskrá fyrir Rekka og Róverskáta,“ segir hann en slær þó þann varnagla við þessari upptalningu að samtvinna þurfi marga aðra þætti. „Það er ekki nóg að leggja áherslu á eitthvað eitt eða fá atriði svo sem fullorðna eða dagskrá. Það er  mikilvægt að horfa á heildina og alla þættina eins og fræðslu, dagskrána, þátttöku fullorðinna, alþjóðastarfið og starfseininguna, hvort sem það er flokkurinn eða skátafélagið.“

 Alþjóðastarfið sé stærri hluti af dagskrá eldri skátanna

Jón Þór er fljótur að tengja alþjóðastarfið inn í endurskoðun skátadagskrárinnar. Hann segir mikilvægt að klára dagskrána fyrir Rekka og Roverskáta og þar eigi alþjóðastarfið að koma sterkt inn. Alþjóðastarfið sé vissulega undirliggjandi þáttur á öllum aldursstigum en þegar komi á Rekka og Róveraldurinn, 16 ára og eldri, eigi alþjóðastarfið að verða haldbærari þáttur í starfinu en á yngri aldursstigum.  „Skátar á þessum aldri eignast gjarnan vini í alþjóðastarfinu og það er mikilvægt að koma þessu inn í dagskrána,“ segir hann og bætir við að alþjóðaráð og dagskrárráð séu að vinna í þessum málum. „Við eigum að bjóða markvisst upp á tækifæri fyrir skáta á þessum aldri. Skátar á aldrinum 16 – 22 ára eiga að fá tækifæri á ungmennaskiptum, samstarfsverkefnum eða þátttöku á fjölþjóðlegum mótum svo eitthvað sé nefnt. Við viljum hjálpa þeim að sækja styrki og hjálpa þeim að skapa tengsl sem þau geta unnið áfram með“.

 Stórmótin gefa kraft

Framundan eru stór skátamót sem haldin verða á Íslandi og segir Jón Þór að World Scout Moot sem haldið verður á Íslandi árið 2017 sé mikið tækifæri fyrir skátahreyfinguna á Íslandi. „Við eigum að nota þetta tækifæri til að efla enn frekar aðkomu fullorðinna og Rekka og Róver. Ég held að við getum notað mótið til að drífa áfram þátttöku fullorðinna“, segir hann.

 Tekur við góðu búi

„Starfið framundan leggst mjög vel í mig. Ég tek við góðu búi frá öflugum formanni alþjóðaráðs. Þar þekki ég til og veit því nokkuð hvað ég er að ganga út í. Það er kraftur í nýrri stjórn og þar hefur fjölgað um einn“,  segir Jón Þór en bætir við að auðvitað taki starfið tíma. „Ég dró úr öðrum félagsstörfum til að taka þetta að mér.  Þetta er hörku vinna. Margir klukkutímar á viku sem fara í þetta“.

 Kynntist Salvöru á Landsmóti skáta

Hann segir mikilvægt að hafa skilning heima fyrir. Hann er í sambúð með Salvöru Kristjánsdóttur og hún er einnig skáti.  „Við kynntumst í skátunum á Landsmóti 2002 á Akureyri og um það bil ári síðar tókum við saman“.

Jón Þór hefur starfað í skátafélaginu Hraunbúum. Þar byrjaði hann árið 1994 og starfar í baklandinu þar í dag. „Ég er ekki í foringjastöðu enda mun ég ekki hafa tíma til þess. Hef tekið að mér tiltekin afmörkuð verkefni“ segir hann.

Áhugamál Jóns Þórs útilíf og hann hefur starfað með Björgunarsveit Hafnarfjarðar og er einnig í Íslensku alþjóðasveitinni. Jón er verkfræðingur og starfar sem ­ráðgjafi hjá Mannvit. Hann fæst við verkefnastjórn og verkefnagát, einkum áætlanagerð.  Jón er útskrifaður frá Háskóla Íslands og tók framhaldsnám í Tækniháskólanum í Danmörku (DTU).

Fleiri myndir af Jóni Þór í skátastarfi eru á Facebook síðu okkar >> Skoða myndaalbúm

– JHJ

 

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar