Skátarnir verði sýnilegri

„Ég mun fyrst og fremst leggja áherslu á aukinn sýnileika hreyfingarinnar, góða upplýsingagjöf og jákvæð samskipti,” segir Gunnlaugur Bragi Björnsson sem á nýliðnu skátaþingi var kjörinn formaður upplýsingaráðs með setu í stjórn Bandalags íslenskra skáta (BÍS).

 

Á menningarnótt með borgarstjóra og Guðrúnu Ásu

Á menningarnótt með borgarstjóra og Guðrúnu Ásu

„Við þurfum áfram að vinna í ímyndarmálum hreyfingarinnar; bættu aðgengi að upplýsingum á vefsíðum okkar; auðvelda skátafélögum að nýta vefsíðukerfi BÍS sér í hag; efla gagnagrunna svo sækja megi ýmsar upplýsingar og verkfæri miðlægt í stað þess að finna upp hjólið víða; veita viðeigandi þjálfun og fræðslu svo efla megi skáta til að koma fram fyrir hönd hreyfingarinnar og svo mætti lengi telja,” segir Gunnlaugur aðspurður um áherslur hans í starfi innan upplýsingaráðs og stjórnar BÍS.  „Við þurfum einnig að halda áfram að skoða fatnaðar- og búningamál hreyfingarinnar en ég hef áhuga á að kalla saman vinnuhóp varðandi þau mál með haustinu”.

 Gleðin má ekki gleymast

Gunnlaugur hefur að sögn miklar væntingar til upplýsingaráðs og þeirra verkefna sem bíða þess á næstu misserum. Hann segir að forystusveit íslenskra skáta, eins og  stjórn BÍS og fastaráð, starfsmannateymi Skátamiðstöðvarinnar, félagsstjórnir og fleiri lykilhópar, sé skipuð ákaflega færum og metnaðarfullum skátum. Hann segist hlakka til að vinna með öllum í þessum glæsilega hópi.

„Þó verkefnin séu krefjandi og mikilvægt sé að vinna þau á ábyrgan og faglegan hátt vil ég samt leggja mitt af mörkum svo að gleðin gleymist ekki. Skátastarfið er fyrst og síðast skemmtilegt og það þurfum við að endurspegla á öllum stigum hreyfingarinnar”, segir Gunnlaugur.

 Grasrótin fái fræðslu og stuðning

–          En að hverju þarf helst að hlúa innan skátahreyfingarinnar?

„Við þurfum að hlúa vel hvert að öðru og öllum einingum innan hreyfingarinnar. Skátafélögin, sjálf grasrótin, þurfa að fá þá nauðsynlega fræðslu og stuðning til að geta sinnt sínu mikilvæga starfi. Skátafélögin þurfa að vera dugleg að láta í sér heyra og halda stjórn og fastaráðum við efnið – láta vita hvers þau þarfnast – því við vinnum með og fyrir þau, í þeirra umboði”, segir Gunnlaugur.

Auk þess að sinna fjölmiðlasamskiptum á Landsmóti skáta 2012 kom Gunnlaugur að ýmsum fleiri verkefnum, m.a. kynningum á sviði og fleira. Hér er stendur hann á sviðinu ásamt vinkonu sinni Ingu Auðbjörgu Kristjánsdóttur.

Auk þess að sinna fjölmiðlasamskiptum á Landsmóti skáta 2012 kom Gunnlaugur að ýmsum fleiri verkefnum, m.a. kynningum á sviði og fleira. Hér er stendur hann á sviðinu ásamt vinkonu sinni Ingu Auðbjörgu Kristjánsdóttur.

Sýnilegra skátastarf gefur aukinn styrk

Gunnlaugur vill að skátastarfið sé sýnilegt.  „Ég hef lagt áherslu á aukinn sýnileika hreyfingarinnar en ég tel hann mjög mikilvægan á öllum stigum. Félögin þurfa að vera dugleg að „sýna sig” í sínu nærumhverfi og BÍS þarf að halda vel á spöðunum í stærra samhengi, á lands- og jafnvel heimsvísu”, segir hann og er ekki í vafa um kosti aukinnar kynningar. „Sýnileikinn skilar okkur ýmsu, hann styrkir m.a. stöðu okkar gagnvart hinu opinbera og almenningi. Aðstoðar þannig við að skapa þá ímynd og ásýnd sem við kjósum og margt fleira. Síðast en ekki síst veitir sýnileiki og umfjöllun okkur umbun fyrir góð störf og hvetur okkur áfram til enn betri verka”.

 Skemmtileg og krefjandi verkefni

–          Hvernig leggst hlutverkið í nýjan formann upplýsingaráðs?

„Nýtt hlutverk leggst afar vel í mig og ég er spenntur fyrir öllum þeim skemmtilegu verkefnum sem framundan eru. Þann tíma sem liðinn er frá Skátaþingi hef ég nýtt til að koma mér inn í þau verkefni sem í gangi eru og hvað er framundan, bæði hvað upplýsingaráð varðar en einnig innan stjórnar BÍS og hreyfingarinnar almennt. Ég geri mér grein fyrir að verkefnin eru krefjandi og það mun taka sinn tíma að komast inn í allt – en ég hefði ekki gefið kost á mér til embættisins nema ég væri tilbúinn að gefa því þann tíma og metnað sem þarf,” segir Gunnlaugur Bragi brosandi.

Hér er ég hýr og glaður á Hinsegin dögum 2013, en sem gjaldkeri stjórnar Hinsegin daga er ég fjármálastjóri allra viðburða félagsins

Hýr og glaður á Hinsegin dögum 2013

 Félagsmál, upplýsingamiðlun og mannréttindi

Gunnlaugur Bragi er rétt tæplega 25 ára gamall, fæddur og uppalinn á Höfn í Hornafirði en þar hóf hann sinn skátaferil með Frumbyggjum.  16 ára gamall flutti hann til Reykjavíkur til að hefja nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð og hefur að mestu dvalið hér syðra frá þeim tíma. Hann starfaði með Skjöldunum sem sveitarforingi og starfsmaður, sat í stjórn félagsins og stýrði Útilífsskóla Skjölduna eitt sumar.

„Síðan þá hef ég sinnt foringjastörfum hjá Haförnum og tekið að mér afmörkuð verkefni fyrir önnur skátafélög, BÍS og SSR. Ég starfa hjá Arion banka og er að ljúka BS gráðu í viðskiptafræði með áherslu á upplýsingamiðlun og samskipti. Ég hef sótt ýmis námskeið, m.a. í stjórnun sjálfboðaliða, almannatengslum félagasamtaka og fleira. Ég hef leyfi til mannréttindafræðslu frá Evrópuráðinu, en þeirri menntun lauk ég árið 2010 fyrir hönd BÍS. Ég hef starfað með ýmsum félagasamtökum, m.a. sem sjálfboðaliði og starfsmaður hjá Rauða krossi Íslands, en í dag er ég meðal annars gjaldkeri Hinsegin daga í Reykjavík og formaður Hinsegin kórsins”.

Fleiri myndir er að finna í myndaalbúmi á Facebook síðu skáta

JHJ

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar