Skátarnir stóðust alþjóðlega gæðaúttekt

„Niðurstaða gæðaúttektarinnar sýnir skýrt að skátastarf á Íslandi er á réttri leið og hlúir vel að starfi ungs fólks í þessari stærstu æskulýðshreyfingu heims,“ segir Hermann Sigurðsson hjá Bandalagi íslenskra skáta, en þær fréttir voru að berast að landssamtökin hefðu staðist alþjóðlega gæðaúttekt sem gerð var nýlega.
Stjórn Bandalags íslenskra skáta og starfsmenn funduðu með fulltrúum Société Générale de Surveillance (SGS) og WOSM

Stjórn Bandalags íslenskra skáta og starfsmenn funduðu með fulltrúum Société Générale de Surveillance (SGS) og WOSM

Gæðaúttektin dregur fram hvernig starfsemi Bandalags íslenskra skáta stendur miðað við skátastarf í öðrum löndum og niðurstaðan er sú íslenskir skátar eru í hópi 10% bestu landa í þessari fyrstu úttekt alþjóðahreyfingarinnar – World Organization of the Scout Movement (WOSM).   Úttekin, sem gerð var af Société Générale de Surveillance (SGS) sem er óháður vottunaraðili og leiðandi á sviði gæðaúttekta í heiminum, sýnir styrkleika starfsins hér á landi, hvar megi bæta það og leggur til aðgerðir í þeim efnum.

Stjórn BÍS og starfsmenn hafa undirbúið þennan áfanga um langa hríð

Stjórn BÍS og starfsmenn hafa undirbúið þennan áfanga um langa hríð

Gagnsæi og umbótavilji

Hermann segir að þeir erlendu sérfræðingar sem unnu að úttekinni hafi hrósað stjórn BÍS og starfsmönnum sérstaklega fyrir opin og gagnsæ vinnubrögð. Hann segir að frá upphafi hafi verið lögð mikil áhersla á að nýta þetta tækifæri til úrbóta og þiggja allar ábendingar með opnum huga. Mikilvægt sé að landssamtökin séu vel rekin og auðvelt sé að sýna stjórnvöldum og öðrum fram á þau gæði sem felast í starfinu.  Úttektin núna sé hluti af lengra ferli.

„Framundan eru spennandi tímar og mikilvægt að landssamtökin sinni þessum málum með trúverðugum hætti,“ segir Hermann. Meðal verkefna er að sinna gæðamálum í starfsemi einstakra skátafélaga og nú þegar landssamtökin hafi farið í þessa vinnu eigi þau auðveldrara með að gefa skátafélögunum góð ráð.

Fleiri fái tækifæri til þátttöku í skátastarfi

Að sögn Hermanns liggja sóknarfæri íslenskra skáta einkum í mögulegri fjölgun skáta og stöðugu umbótastarfi.  Hann segir að stefnuáherslur sem sem samþykktar voru á síðasta skátaþingi og mikil eining ríkir um, en þar er kveðið að því meginmarkmiði skátahreyfingarinnar að veita ungu fólki tækifæri til að verða sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu með því að stuðla að uppeldi og menntun með lífsgildum sem byggja á skátaheitinu og skátalögunum. Leitast er við að skapa betri heim þar sem hver einstaklingur hefur tilgang og gegnir mikilvægu hlutverki til uppbyggingar samfélagsins.

Farið var yfir málin með úttektaraðilum á tveggja daga vinnufundi

Farið var yfir málin með úttektaraðilum á tveggja daga vinnufundi

Framtíðarsýn skáta samkvæmt stefnunni er að árið 2020 verði skátahreyfingin á Íslandi orðin þekkt sem ein fremsta uppeldishreyfing á Íslandi með yfir 5000 starfandi skátum í öllum helstu þéttbýliskjörnum landsins.  Skátarnir deili sameiginlegum gildum og hafi áhrif til góðs í samfélagi sínu og í heiminum öllum.

Leiðir til að vinna að þessum markmiðum eru komnar inn í framkvæmdaáætlun fyrir næstu ár og segir Hermann að framundan séu stórir og mikilvægir atburðir hjá skátum á Íslandi og nefnir þar sérstaklega Landsmót í júlí 2016 og heimsmótið World Scout Moot (WSM) árið 2017.

Alþjóðleg, skipuleg og óháð vottun

Heimshreyfing skáta WOSM vinnur þessar gæðaúttektir í samstarfi við óháð SGS (Société Générale de Surveillance), en SGS er leiðandi á sviði gæðaúttekta í heiminum.  GSAT (Global Support Assessment Tool) byggist á að skoðaður er 91 þáttur í eftirfarandi tíu flokkum:

  1. BÍS-WOSM stofnanasamningur
  2. Stjórnskipulag BÍS
  3. Rammi stefnumörkunar
  4. Heiðarleiki og siðferði stjórnunar
  5. Samskipti, málsvörn og ímynd
  6. Fullorðnir í skátastarfi
  7. Fjármögnun og úthlutun fjármagns
  8. Dagskrá ungs fólks
  9. Möguleiki á fjölgun og aukningu í skátastarfi
  10. Stöðugar umbætur

Íslenskir skátar standast fyllilega rekstrarkröfur WOSM í öllum flokkum og eru stjórnendur BÍS að vonum ánægðir með niðurstöðurnar. Úttektin var gerð í nóvember.

Sjá nánar:

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar