Skátarnir ætla að sanna sig

„Markmið okkar er auðvitað að fá góða útkomu úr úttektinni, en þó viljum við frekar nýta hana til þess að læra hvernig við getum gert betur,“ segir Júlíus Aðalsteinsson félagsmálastjóri Bandalags íslenskra skáta (BÍS), en þessa dagana er verið að gera úttekt á starfsemi landssamtakanna og Skátamiðstöðvarinnar.
Tveggja daga gæðastund hjá stjórn og starfsmönnum

Tveggja daga gæðastund hjá stjórn og starfsmönnum

Stjórn BÍS ákvað fyrir nokkru síðan að taka þátt í verkefni alþjóðahreyfingarinnar WOSM (World Organization of the Scout Movement) um að efla gæði í starfi landssamtaka skáta um allan heim.   Undirbúningur íslenskra skáta hófst fyrir rúmu ári síðan og segir Júlíus að vinnan hafi þegar þegar leitt til jákvæðra breytinga í starfsemi stjórnar.

Tveggja daga gegnumlýsing

Til að vinna að úttekt á vinnu og stöðu stjórnar BÍS og starfsmanna Skátamiðstöðvarinar eru staddir hér á landi tveir sérfræðingar í þessum málum og eru þeir í dag að ljúka seinni degi sínum. Annar þeirra, Paul Wilkinson, er yfirmaður þeirrar deildar breska skátabandalagsins sem sinnir þjónustu við fullorða í hreyfingunni í Bretlandi. Paul er tilnefndur af heimsskrifstofu WOSM og hefur tekið þátt í svona úttektum hjá nokkrum bandalögum í Evrópu. Júlíus segir að Paul hafi verið þeim innan handar við undirbúninginn. Með honum í för er Robert Jourdain, sérfræðingur frá SGS, sem er alþjóðlegt vottunarfyrirtæki með höfuðstöðvar í Sviss. Það fyrirtæki hefur verið í samstarfi við alþjóðahreyfingu skáta frá árinu 2012.

Paul og Robert verða hér í tvo daga að vinna að úttekinni. Júlíus segir að fyrst og fremst verði farið kerfisbundið yfir 90 atriði eða spurningar í þeim 10 flokkum sem úttekin byggist á. „Stjórn og starfsmenn þurfa að sýna fram á skriflegar staðfestingar á því að viðkomandi atriði sé sinnt í starfsemi BÍS,“ segir Júlíus, en starfsmenn Skátamiðstöðvarinnar hafa undanfarnar vikur dregið saman nauðsynleg gögn.

Gæðaviðmið alþjóðahreyfingar skáta

„Við viljum nýta þetta tækifæri til þess að læra hvernig við getum gert betur“, segir Júlíus og hann ítrekar að starfsmenn og stjórn leggi áherslu á að draga fram raunverulega mynd af stöðunni. Ekki sé verið að fegra hlutina með einhverjum sýndarleik, heldur vilji BÍS ná að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til þess að bandalög nái gæðaviðmiðum alþjóðahreyfingar skáta („WOSM Quality Standard“). Júlíus telur raunhæft að ná því viðmiði eftir 1 – 3 ár.

„Stjórn BÍS vonast til þess að þessi úttekt hjálpi til við að bæta stjórnsýslu bandalagsins. Við höfum séð það við undirbúning hennar að þó við séum að vinna vel að mörgum þeim verkefnum sem tekin eru fyrir í úttektinni, þá vantar oft að ferlarnir séu skráðir og eftirfylgni sé tryggð. Við vonumst til að fá leiðbeiningar um hvernig við getum gert enn betur,“ segir Júlíus.

 

Tengt efni:

 

ENGIN UMSÖGN

Skilja eftir svar