Skátaþing er haldið um þessa helgi og verður það sett í kvöld. Meginviðfangsefni eru stefnumótun og aðgerðir til að ná þeim árangri sem stefnt er að ná á næstu fimm árum.  Yfirskrift þingsins er „Á réttri leið?“ og vísar hún til þeirra ákvarðana sem þarf að taka.

Skátarnir vilja veita ungu fólki tækifæri til að verða sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu og leitast er við að skapa betri heim þar sem hver einstaklingur hefur tilgang og gegnir mikilvægu hlutverki til uppbyggingar samfélagsins.   Á síðasta skátaþingi var þessi lýsing á hlutverki skátanna áréttuð í tengslum við samþykkt stefnumótunar til ársins 2020 og fyrir það ár stefna íslenskir skátar á að yfir 5000 skátar verði starfandi í öllum helstu þéttbýliskjörnum landsins.

Vinna á skátaþingi um helgina mun að miklu leyti felast í eftirfylgni við stefnumótun og þær áherslur sem hafa verið lagðar en þær eru í sex þáttum:

  • Þátttaka ungmenna.Skátastarf á að veita ungu fólki tækifæri til að þroska hæfileika sína og efla þekkingu sem gagnast við virka þátttöku í hreyfingunni, sem og í samfélaginu í heild.
  • Uppeldis og menntunaraðferðir. Starfsgrunnur skáta skapar aðstæður fyrir óformlegt menntakerfi þar sem Skátaaðferðinni er beitt við að efla getu ungs fólks til að takast á við verkefni framtíðarinnar.
  • Fjölbreytni og samþætting. Skátar ætla að endurspegla margbreytileika samfélagsins og bjóða með virkum hætti öllum að taka þátt. Fjölbreytileikinn á ekki eingöngu að birtast í þátttökunni heldur einnig verkefnum sem skátarnir taka sér fyrir hendur.
  • Samfélagsleg þátttaka. Allir skátar ættu að taka virkan þátt í starfi samfélagsins og deila þeirri reynslu sinni öðrum til hvatningar þannig að fleiri taki þátt í ákvörðunartöku í samfélaginu, nýti sér kosningarétt og stuðli að virku lýðræði. Með virkni og verkefnum leiða skátar til jákvæðra breytinga.
  • Miðlun og samskipti.Skátar eiga að sýna hvað þeir gera og hvers vegna með vísan í gildi sín. Þeir miðla upplýsingum með virkri samskiptatækni og velja sér samstarfsaðila í takt við markmið sín.
  • Opnari stjórnsýsla. Stjórnskipun skátahreyfingarinnar á að vera gagnsæ, ábyrg, skilvirk og í samræmi við grunngildi BÍS með áherslu á að þjóna markmiðum og framtíðarsýn skátahreyfingarinnar. Gott samstarf er á milli skátafélaga, stjórnar BÍS og skátamiðstöðvarinnar.

Skátaþing er opið öllum skátum og má gera ráð fyrir að hátt í 200 skátar heimsæki þingið og taki þátt í dagskrá að hluta eða allan tímann. Allir starfandi skátar hafa málfrelsi og tillögurétti á Skátaþingi.

Skátaþingið er haldið í Varmárskóla í Mosfellsbæ og hefst í kvöld kl. 18:30 með formlegum aðalfundi.  Á morgun, laugardag, verða vinnustofur og kynningar af ýmsu tagi.  Dagskrá þingsins er í heild á vef skáta >  http://skatamal.is/skatathing-2016/

Nánari upplýsingar veitir Hermann Sigurðsson framkvæmdastjóri Bandalangs íslenskra skáta, sími 693-3836 (farsímanúmer)